Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Arion frá Eystra-Fróðholti og Daníel Jónsson á Landsmóti 2012
Arion frá Eystra-Fróðholti og Daníel Jónsson á Landsmóti 2012
Mynd / HHG
Fréttir 19. júní 2014

Stefnir í met í kynbótasýningum

Höfundur: Freyr Rögnvaldsson

Mikil spenna ríkir fyrir kynbótasýningar á Landsmótinu á Hellu sem hefst um mánaðamótin. Sýningar vorsins fóru fremur rólega af stað en það breyttist heldur betur og gera má ráð fyrir glæsilegum kynbótasýningum á mótinu. Um 80 hross hafa í vor náð 8,50 eða hærra í einkunn fyrir hæfileika og þar af fóru 11 hross yfir 8,80 í einkunn. Þá stefnir í metfjölda í kynbótasýningum á Hellu.

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, mun sinna störfum yfirdómara í kynbótadómum á komandi Landsmóti hestamanna. „Það stefnir allt í mjög sterka kynbótasýningu á landsmóti og mjög fjölmenna, líklega verður met slegið í fjölda kynbótahrossa. Alls hafa 281 hross náð lágmarkseinkunn inn á mótið, 101 stóðhestur og 180 hryssur. Auðvitað falla alltaf einhver hross út af ýmsum ástæðum, meðal annars vegna þess að þeim verður teflt fram í gæðingakeppninni. Það má samt búast við að flest þau hross sem náð hafa lágmarkseinkunn mæti til dóms nú. Mestur fjöldi kynbótahrossa sem hafa komið til dóms á landsmóti var á mótinu á Hellu árið 2004 en þá voru sýnd 244 hross. Ég býst við því að það met verði slegið nú.“

Eyþór segir skýringar á þessari fjölgun geta verið ýmsar, meðal annars hafi nú verið sett lægri lágmörk fyrir klárhross en alhliðahross. „Síðan má nú bara ætla að ræktunin sé að skila árangri og góðum hrossum sé einfaldlega að fjölga.“

Hæst dæmda hrossið eftir kynbótasýningar vorsins er Arion frá Eystra-Fróðholti, 7 vetra gamall klár undan Glettu og Sæ frá Bakkakoti. Arion hlaut 8,91 í aðaleinkunn og 9,25 fyrir hæfileika. Aðeins einn hestur hefur áður hlotið hærri dóm en það er gæðingurinn Spuni frá Vesturkoti sem á sínum tíma hlaut einni kommu hærri aðaleinkunn eða 8,92 og sömu einkunn og Arion fyrir hæfileika.

Daníel með 33 hross

Sýnandi Arions er Daníel Jónsson sem mun hafa í nægu að snúast á mótinu en hann sýnir 33 hross. Þó er ekki útilokað að einhverjar breytingar verði á mótinu sjálfu hvað varðar knapa því auðvitað er mikið lagt á menn að sýna slíkan fjölda.

Ekki liggur fyrir að svo stöddu hvaða hestar verða sýndir með afkvæmum á mótinu að sögn Eyþórs. „Nú verður kynbótamatið uppreiknað eftir dóma vorsins og að því loknu verður spennandi að sjá hvaða hestar ná lágmörkum þar og hvernig þeir raðast til fyrstu verðlauna og heiðursverðlauna fyrir afkvæmi.“

Vegaframkvæmdum forgangsraðað
Fréttir 4. desember 2024

Vegaframkvæmdum forgangsraðað

Alls verður rúmum 27 milljörðum króna ráðstafað til framkvæmda og viðhalds á veg...

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina
Fréttir 4. desember 2024

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina

Fremur mun fátítt að hrossafeiti sé notuð í sápuframleiðslu hérlendis. Úr tíu kí...

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð
Fréttir 29. nóvember 2024

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð

Suðurnesjamaðurinn Ingvar Georg Georgsson hefur verið ráðinn í starf slökkviliðs...

Rannsókn ungra bænda
Fréttir 29. nóvember 2024

Rannsókn ungra bænda

Samtök ungra bænda (SUB) eru að kortleggja hindranir og hvata nýliðunar og kynsl...

Haustrúningur í fullum gangi
Fréttir 29. nóvember 2024

Haustrúningur í fullum gangi

Baldur Stefánsson, rúningsmaður frá Klifshaga í Öxarfirði, klippir tólf til þret...