Stöðugt minna fé úr sjóðum ESB
Í aðildarsamningi Finnlands (Svíþjóðar og Austurríkis) að ESB er kveðið á um sérstakar heimildir til stuðnings við landbúnað norðan 62. breiddargráðu (142 grein) og við landbúnað í suður Finnlandi (141 grein).
Stuðningur samkvæmt 142. grein, oft nefndur norðlægur stuðningur, er tengdur við framleiðslu eða gripafjölda. Um 55,5% landbúnaðarlands í Finnlandi er á svæðum sem njóta réttar til stuðnings samkvæmt þessu ákvæði. Skilvirkni norðlægs stuðnings er endurmetin á fimm ára fresti. Árið 2007 gerði framkvæmdastjórn ESB úttekt á því hversu vel tekist hefði að ná markmiðum stuðningsins og hvort þær aðferðir sem beitt er væru enn gerlegar og réttlætanlegar. Á grunni niðurstaðna þessarar úttektar fóru fram viðræður milli framkvæmdastjórnarinnar og Finnlands um framtíð og þróun norðlægs stuðnings, á árinu 2008. Niðurstaðan var sú að hætta að tengja stuðning við svína- og alifuglakjötsframleiðslu við gripafjölda en enn eru greiðslur tengdar gripafjölda í nautakjötsframleiðslu.
Dregið úr stuðningi Suður-Finnlandi
Stuðningur við landbúnað í Suður Finnlandi hefur verið endurskoðaður og munu greiðslur sem byggjast á grein 141, samkvæmt samkomulagi við ESB dragast saman um 17,4 milljónir Evra á tímabilinu 2014-2020. Innanlands stuðningur, þ.e.a.s. stuðningur sem greiddur er úr sjóðum Finnska ríkisins samkvæmt sérstöku samkomulagi í aðildarsamningi (greinar 141, 142 ofl.), hefur dregist saman úr 552 milljónum Evra árið 2009 í 499 milljónir Evra árið 2014 (áætluð fjárhæð).
Hlutur finnska ríkisins vegna CAP eykst
Stuðningur samkvæmt sameiginlegri landbúnaðarstefnu ESB, CAP, er hins vegar nokkurn veginn óbreyttur eða ríflega 1.320 milljónir Evra á sama tímabili. Hlutdeild Finnlands í fjármögnun þess hluta á tímabilinu hefur hins vegar hækkað úr 555 milljónir Evra (42%) í 566 milljónir Evra (43%.) /EB