Stöðvuðu þurrkaðan krókódílshaus og andablóð
Þurrkaður krókódílshaus, einn og hálfur lítri af andablóði og tugir hrárra eggja voru meðal þess sem íslenskir tollverðir stöðvuðu á landamærum á síðasta ári, 2014. Andablóðið var sagt ætlað til súpugerðar. Innflutningur hrárra dýraafurða er bannaður sem kunnugt er.
Á heimasíðu segir að krókódílshausinn falli undir svokallaðan CITES samning um alþjóðaverslun með plöntur og dýr í útrýmingarhættu. Sá sem ferðaðist með hann framvísaði fölsuðu CITES vottorði frá Tælandi, þ.e.fölsuðu leyfi til útflutnings á hausnum.
Markmið CITES samningsins er að vernda tegundir dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu með því að stjórna alþjóðlegum viðskiptum með þær. Alls eiga 178 lönd aðild að CITES samningnum Tollstjóri bendir á að flutningur dýra og plantna, sem flokkuð eru í útrýmingarhættu, eða afurða þeirra milli landa er ekki leyfilegur nema að fengnu leyfi hjá Umhverfisstofnun.
Á þetta er bent, þar sem brögð eru að því að stöðva þurfi sendingar í tollafgreiðslu, sem innihalda afurðir dýra sem eru á válista eins og ofangreint dæmi ber með sér.