Sviðasamlokur á JaJaJa-tónlistarhátíðinni í London
Helgina 13.–15. nóvember var tónlistarhátíðin Ja Ja Ja Festival haldin í London í annað sinn. Tónlistarhátíðin er óvenjuleg að því leyti að þar er tónlist og mat blandað saman. Nú var boðið upp á sviðasamlokur sem meðlæti með tónlistinni.
Anna Hildur Hildibrandsdóttir, skipuleggjandi hátíðarinnar, segir að JaJaJa Festival hafi hafið göngu sína í fyrra. „Hátíðin byggist á klúbbakvöldi sem NOMEX (Nordic Music Export) stendur fyrir en ég er framkvæmdastjóri NOMEX. Klúbbakvöldið hóf göngu sína í nóvember 2009, en þar koma fram upprennandi bönd frá Norðurlöndunum á stað sem heitir The Lexington í London. Tónlistarhátíðin er eins konar stækkun á klúbbakvöldinu og vekur athygli á fjölbreytninni sem er í norrænni tónlistarsenu – jafnframt því að bjóða upp á heimildamyndasýningar og mat.
Við leitumst við að tengja tónlist og mat á skapandi hátt. Í fyrra var boðið upp á Nordic Sondbyte þar sem matarhönnuðir greindu bragðið af þeim fimm hljómsveitum sem komu fram og báru svo fram fyrir gesti á meðan viðkomandi spiluðu.
Í ár ákváðum við að fá finnska kokkinn Antto Melasniemi til að stýra matarprógramminu. Hann vildi gjarnan vinna með tónlistarmönnunum á hátíðinni og það varð úr að við tengdum hann og Emilíönu Torrini saman, en hún var með aðalatriðið á hátíðinni. Emilíana hefur mikla ástríðu fyrir mat og Antto er tónlistarmaður þannig að þau náðu mjög vel saman.“
Sviðin á BSÍ kveiktu hugmyndina að sviðasamlokunum
„Antto kom síðan til Íslands í viku og heimsótti framleiðendur. Hann var mjög áhugasamur um fisk en það var Emilíana sem stakk upp á að hann notaði steinbítskinnar. Hann var líka hrifinn af þaranum og notaði hann mikið í því sem hann þróaði. Hann var síðan kynntur fyrir sviðum á BSÍ og heillaðist algjörlega af matnum. Daginn eftir var hann kominn með hugmynd af sviðaskonsu. Útfærslan varð síðan sviðasamloka í London þar sem hann notaði sætt brauð með rauðkálssallati og sviðum.
Við þurftum 190 hausa og það er hægara sagt en gert að flytja það á milli landa. Antto ákvað að nota kinnarnar og tunguna. Þeir hjá SAH afurðum voru svo elskulegir að sjóða þetta fyrir okkur og pakka í lofttæmdar umbúðir. Úr 190 hausum komu 16 kg af kinnum og tungum og það var því heppilegt að þetta var úrbeinað á Íslandi, því annars hefðum við þurft að flytja 200 kg af hausum á milli landa – og það er flókið mál að fá leyfi til að taka inn hausa.“