Svigrúm vegna svæðabreytileika
Verið er að vinna að nýrri reglugerð um lífræna landbúnaðarframleiðslu og hugsanlegs svigrúms til sveigjanleika í framleiðslureglum innan hennar vegna svæðabreytileika í Evrópu.
Bændasamtök Íslands og VOR, félag framleiðenda í lífrænum búskap, í samvinnu við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Evrópustofu stóðu fyrir skömmu fyrir málþingi um stöðu og horfur í lífrænum búskap hér á landi.
Meðal þeirra sem héldu erindi á fundinum var Serge Massart sem starfar við stefnumótun fyrir Organic Farming International, DG Agri í Brussel.
Endurskoðun reglugerðarinnar hafin
Massart sagði í samtali við Bændablaðið að núverandi reglugerð um lífræna framleiðslu innan ESB væri frá árinu 2007. Hann segir að Ísland og Noregur væru aðilar að þessum reglum en að hvorugt landið hefði tekið þær upp að fullu vegna óánægju með ýmis ákvæði í þeim.
„Í dag er verið að endurskoða reglugerðina hjá Evrópuþinginu og væntanlega verður ný og endurbætt útgáfa hennar komin í gildi eftir tvö til þrjú ár. Þrátt fyrir að Íslendingar og Norðmenn taki ekki beinan þátt í umræðunum veit ég að báðar þjóðir hafa sent inn greinargerð þar sem hugmyndir þeirra um breytingar eru viðraðar.“
Heimsframleiðsla og neysla
Í erindi sínu bar Massart meðal annars saman framleiðslu á lífrænum landbúnaðarvörum og neyslu þeirra í mismunandi heimsálfum. Árið 2012 voru lífrænar landbúnaðarvörur framleiddar á um þremur milljónum hektara lands í Bandaríkjunum og um 44% af heimsneyslu lífrænna afurða átti sér stað þar í landi. Evrópubúar neyttu sama ár um 41% allra lífrænna afurða sem framleiddar eru og ræktuðu þær á 11,2 milljónum hektara. Í Asíu fór ræktun á lífrænum afurðum fram á 3,2 milljónum hektara sama ár. Japanir eru stórtækastir í neyslu lífrænna afurða í Asíu og taka til sín um 2% heimsframleiðslunnar. Ekki eru til tölur um hlutfallslega neyslu í Suður-Ameríku, Eyjaálfunni eða Afríku. Ræktarland undir lífræna framleiðslu í S-Ameríku er talið vera 6,8 milljónir hektara, 12,2 Eyjaálfunni og 1,1 í Afríku.
Bandaríkin og Evrópa eru samkvæmt þessu langstærstu markaðirnir fyrir lífrænar landbúnaðarafurðir og taka til sín um 90% allrar framleiðslunnar.
Sé aftur á móti litið til söfnunar á mat í náttúrunni eins og rótar, - berja- og sveppatínslu, býflugnaræktunar og skógræktar, svo dæmi séu tekin, er land sem er notað til slíks ekki nema 0,05 milljón hektarar í Bandaríkjunum, 2,9 milljón hektarar í S-Ameríku, 6,9 milljón í Asíu, 9,6 í Afríku og 10,7 milljón hektarar í Evrópu.
Landnýting að breytast
Að sögn Massart hefur framleiðsla á lífrænum landbúnaðarvörum aukist hratt í löndum Evrópusambandsins undanfarinn áratug. Árið 2002 voru 5,6 milljónir hektara notaðir til lífrænnar framleiðslu en árið 2012 voru þeir 11,2 milljónir.
Landnýting í Evrópu er einnig að breytast að sögn Massart. Jörðum sem nýttar eru undir landbúnað hefur fækkað úr um 15 milljónum árið 2003 í um 12 milljónir árið 2010. Á sama tíma hefur býlum sem stunda lífræna ræktun fjölgað.
Sé litið til einstakra landa innan ESB er lífræn landbúnaðarframleiðsla mest í Austurríki, 19%, 15,7% í Svíþjóð, 14% í Eistlandi, 13% í Tékklandi og 10% í Litháen.
Þegar litið er til landnotkunar fyrir lífrænan landbúnað í ESB-ríkjunum er hún mest á Spáni, 1,8 milljónir hektara, 1,1 milljón á Ítalíu, um milljón hektarar í Þýskalandi, 0,97 milljón hektarar í Frakklandi og 0,63 milljón á Bretlandseyjum. Samanlagt er landnotkun þessara fimm landa 57% af öllu landi í ESB sem notað eru undir lífræna ræktun.
Stærstu markaðir í Evrópu fyrir lífræn matvæli eru í Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandseyjum, Ítalíu, Austurríki og Spáni. Danir, íbúar Lúxemborgar og Svíþjóðar neyta aftur á móti mest af lífrænum afurðum miðað við kaupmátt.
Hvað er verið að rækta lífrænt?
Hlutfall lífrænnar framleiðslu af heildarmagni landbúnaðarframleiðslu í löndum ESB er um 5%. Af þessum 5% eru 45% notuð sem beitarland fyrir búfé, 15% undir kornrækt, önnur framleiðsla er að stórum hluta ólífur, hnetur, vínber og ávextir.
Sé horft til búfjár þá eru 2,9% nautgripa í ESB ræktaðir samkvæmt reglum um lífræna ræktun, 2,8 sauðfjár og geita, 0,3% svín og 1% kjúklinga árið 2010.
Í síðasta hluta tölfræðisamantektar sinnar sagði Massart að árið 2011 hefðu 225 þúsund manns haft atvinnu sem tengdist framleiðslu á lífrænum matvælum, 24% af þeim eru konur. Starfsmenn í lífræna geiranum eru yngri en þeir sem starfa við hefðbundna landbúnaðarframleiðslu.
Árið 2011 velti markaður með lífræn matvæli um 19,7 milljörðum evra sem jafngildir um 3.050 milljörðum íslenskra króna og hefur markaðshlutdeildin nánast tvöfaldast frá árinu 2004.
Flókið regluverk yfir lífrænni ræktun
Eins og búast má við er regluverkið sem nær yfir lífræna ræktun innan Evrópusambandsins flókið á sögn Massart.
Fyrstu ESB-reglurnar voru settar árið 1991 og voru það almennar reglur sem tóku til markmiða og umfangs ræktunarinnar. Með árunum hefur reglunum fjölgað og þær orðið sérhæfðari sé tekið til einstakra þátta ræktunarinnar eins og grænmeti, búfjár, notkun á lyfjum og varnarefnum svo fátt eitt sé nefnt. Auk þess sem settar hafa verið reglur um merkingar á lífrænum matvælum og innflutning á þeim frá löndum utan Evrópusambandsins.
Reglurnar í endurskoðum
Reglurnar sem um ræðir hafa þótt stirðar og ekki taka til ólíkra þarfa framleiðenda í löndum innan sambandsins. Af þeim sökum hefur verið ákveðið að endurskoða reglurnar með það að markmiði að gera þær sveigjanlegri.
Í fyrsta lagi er ætlunin að ógilda reglur sem hindra sjálfbærni í þróun lífrænnar framleiðslu innan sambandsins. Í öðru lagi að tryggja samkeppni bænda og framleiðenda lífrænna afurða og að markaðurinn þróist á eðlilegan hátt, og í þriðja lagi að viðhalda og auka trú neytenda á lífrænum vörum.
Massart sagði að síðasti liðurinn væri ekki síst mikilvægur því að ef neytendur treystu ekki vörunni væri lítil von um að markaðurinn myndi stækka.
Vinnan við endurskoðunina var umfangsmikil og um 75 sérfræðingar unnu við að safna upplýsingum um skoðanir og reynslu íbúa Evrópusambandsins af lífrænum afurðum og vera ráðgefandi. Rætt var við bændur og framleiðendur víða í löndum sambandsins og þeir spurðir álits á því sem þarf að bæta. Auk þess var sett upp heimasíða þar sem almenningi gafst tækifæri á að viðra sínar skoðanir og hugmyndir. Alls bárust 45.000 skilaboð inn á síðuna.
Meðal þess sem talið er að hindri þróun lífrænnar ræktunar í löndum Evrópusambandsins er að erfitt getur reynst að fá bændur til að skipta úr hefðbundinni ræktun yfir í lífræna og að bændur á minni búum eru oft tregari til að breyta um ræktunaraðferðir. Traust neytenda hefur minnkað vegna þess að ekki hefur verið farið eftir reglum og komist hefur upp um vörusvik í nokkrum löndum. Eftirlitskerfið er víða veikt og ekki alltaf að sinna skyldum sínum og er einnig ólíkt milli landa. Meðferð á vörum er víða ábótavant. Löggjöfin er flókin og mikil skriffinnska í tengslum við vottun og leyfisveitingar.
Niðurstaða hópsins sem fór yfir reglurnar var því sú að gildandi stefna og reglugerðarammi væri ekki viðnandi grundvöllur fyrir aukinn vöxt lífrænnar ræktunar og framleiðslu í löndum Evrópusambandsins.
Úrlausna leitað
Næsta skref fólst í því að leita úrlausna á vandanum og þrjár leiðir að því marki skoðaðar. Í fyrsta lagi að viðhalda gildandi reglum og tryggja að þeim sé framfylgt. Annar valkostur var markaðsdrifinn og fólst í því að reglurnar yrðu sveigðar með þeim hætti að framleiðendur hefðu aukin áhrif á þróun hans. Þriðji möguleikinn og sá sem varð fyrir valinu felst í því að leggja í auknum mæli áherslu á grundvallargildi lífrænnar ræktunar og framleiðslu og um leið styrkja tiltrú á vöruna til lengri tíma.
Lagaumhverfið bætt
Í mars 2014 var ákveðið að hefja vinnu við breytingar á regluumhverfi lífrænnar ræktunar inna Evrópusambandsins og bæta reglur um viðskipti með lífrænar afurðir við ríki utan sambandsins.
Markmið breytinganna er að einfalda reglurnar og gera þær skýrari, koma í veg fyrir óvissuþætti eða göt í reglugerðinni og með þeim tryggja eðlilega samkeppni og sanngirni neytendum til hagsbóta og fækka undanþágum og bæta eftirlitið með framleiðslu og meðferð vörunnar.
Massart segir að vinna við sumar breytingar séu þegar hafnar og samningaviðræður við lönd utan ESB í sumum tilfellum líka. Reiknað er með að samningaviðræðurnar og reglugerðabreytingarnar taki tvö ár og ólíklegt að þær taki að fullu gildi fyrr en árið 2017.
Sveigjanleiki vegnasvæðabreytileika
Eitt af markmiðunum með því að breyta reglunum er að auka sveigjanleika þeirra. Eftir að nýju reglurnar taka gildi getur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mælt með, sé ákveðnum skilyrðum fullnægt, undantekningum frá reglum um framleiðslu lífrænna afurða vegna ólíkra aðstæðna og svæðabreytileika. Þó ber að halda undanþágum í lágmarki og afnema þær eins fljótt og hægt er.
Dæmi um tilvik þar sem getur reynst nauðsynlegt að veita undantekningar er ef þær tryggja framgang eða viðhald lífrænnar framleiðslu og við aðstæður þar sem landfræðileg skilyrði eða breytingar á loftslagi hindra framleiðslu samkvæmt reglunum. Einnig má veita undanþágur í tilfellum þar sem aðgangur framleiðenda að lífrænt ræktuðu hráefni er ekki nægt. Til dæmis er hægt að veita tímabundnar undanþágur til að rækta lífrænar matjurtir af fræi sem ekki telst lífrænt séu lífræn ræktuð fræ ekki fáanleg eða fóðra lífrænt ræktað búfé á hefðbundnu fóðri sé lífrænt ekki fáanlegt, til dæmis vegna náttúruhamfara eða harðinda.
Massart segir að athuganir hafi sýnt að meirihluti borgarbúa sé andvígur undanþágum í lífrænni ræktun og að þær dragi úr tiltrú þeirra á framleiðslunni. Auk þess sem óhófleg veiting undanþága getur leitt til ósanngjarnrar samkeppni milli svæða og framleiðenda.
Vegna þessa verði að tryggja að undanþágur verði í lágmarki og nauðsynlegt að afnema þær eins fljótt og hægt er.
Tillit tekið til svæðabreytileika
Að lokum sagði Massart að markmið nýju reglnanna væri að tryggja framgang lífrænnar ræktunar og framleiðslu innan Evrópusambandsins. Til þess að slíkt sé hægt verða að gilda samræmdar en að vissu marki sveigjanlegar reglur vegna mismunandi aðstæðna og svæðabreytileika milli landanna innan sambandsins. Auk þess sem gera verði ráð fyrir mismunandi aðstæðum og svæðabreytileika landa sem Evrópusambandið á í viðskiptum við en standa utan við það.