Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Sýklalyfjanotkun í dýrum hefur dregist saman
Fréttir 3. október 2014

Sýklalyfjanotkun í dýrum hefur dregist saman

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Embætti landlæknis gaf út nú í sumar skýrslu um sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi baktería í mönnum og dýrum á Íslandi á árinu 2013. Þetta er annað árið í röð sem fjallað er um notkun og næmi í bæði mönnum og dýrum.


Sambærileg skýrsla um sýklalyfjanotkun í mönnum var gefin út í nokkur ár þar á undan. Í nýju skýrslunni segir m.a.: „Sýklalyfjaónæmi baktería er ein af stærstu heilbrigðisógnum heimsins í dag. Aukið ónæmi fyrir sýklalyfjum veldur vandamálum við meðferð sýkinga og hefur þar af leiðandi slæmar afleiðingar fyrir heilsu manna og dýra og veldur auknum kostnaði við heilbrigðisþjónustu.

400 þúsund sýkingar af völdum ónæmra sýkla í Evrópu

Sóttvarnastofnun Evrópu­sambands­ins (European Centre for Disease Prevention and Control - ECDC) áætlar að í Evrópu einni komi upp um það bil 400 þúsund sýkingar á ári hverju af völdum ónæmra sýkla sem leiða til um 25 þúsund dauðsfalla. Með auknum ferðalögum og viðskiptum með matvæli og dýraafurðir heimshorna á milli opnast leiðir fyrir sýklalyfjaónæmar bakteríur til að dreifa sér.

Sýklalyfjaónæmi er því alþjóðlegt vandamál.
Sýklalyfjanotkun er einn af áhrifamestu þáttunum í vali og dreifingu sýklalyfjaónæmis, þótt sambandið geti verið flókið. Röng og/eða of mikil notkun sýklalyfja eykur hættu á uppkomu og útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Forsenda markvissra aðgerða gegn óskynsamlegri sýklalyfjanotkun er að hafa góðar og áreiðanlegar upplýsingar um notkun sýklalyfja og þróun ónæmis gegn þeim. Á Íslandi er hvatt til þess að sýklalyf séu notuð með ábyrgum hætti.

Áhersla er lögð á sýkingavarnir á heilbrigðisstofnunum og fylgst er með tíðni sýkinga sem tengjast heilbrigðisþjónustunni.“

Góð staða í landbúnaði en verri hvað fólk varðar

Erlendar rannsóknir sýna að Noregur og Ísland eru í fararbroddi Evrópuríkja hvað varðar litla sýklalyfjanotkun í búfénaði mælt sem magn á þyngdareiningu. Víða annars staðar er hún talsvert mikil, m.a. í þeim löndum sem íslenskir kaupmenn sækja kjöt til að selja á Íslandi. Er staðan verst á Kýpur, Ítalíu, Spáni og í Þýskalandi. Þá er hún líka margfalt meiri í Danmörku en á Íslandi og um 40 sinnum meiri á Spáni, en þaðan hafa Íslendingar m.a. verið að fá nautakjöt.

Varað hefur verið við því að sýklalyfjaleifar í kjöti geta borist í menn og safnast þar upp. Þetta getur leitt til sýklalyfjaónæmis og útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería sem landlæknisembættið bendir á í skýrslu sinni. Aftur á móti sýnir skýrslan að staðan er ekki eins góð hvað mannfólkið varðar. Þar er Ísland rétt fyrir ofan meðaltal Evrópuríkja og eftirbátur allra Norðurlandaþjóðanna.

Notkun sýklalyfja fyrir dýr hefur dregist saman

Fram kemur í skýrslunni að sýklalyfjanotkun í dýrum fór minnkandi á árunum 2010–2012 en stóð nokkurn veginn í stað milli áranna 2012 og 2013. Sala í flestum lyfjaflokkum minnkaði á tímabilinu 2010–2013 en þó má nefna að sala á lyfjum úr flokki súlfónamíða og trímetópríms hefur aukist um 119% á tímabilinu og þar af um 80% milli áranna 2012 og 2013.

Salmonella og Campylobacter sp. stofnar sem greindust í mönnum á Íslandi 2013 og teljast til innlends smits voru vel næmir fyrir flestum sýklalyfjum sem prófað var fyrir. Þó hefur ónæmi Campylobacter-stofna fyrir cíprófloxacíni verið að aukast á árunum 2009–2012 og vert að fylgjast með því á næstu árum.

Stofnar Salmonella og Campylobacter sp. í kjúklingum og svínum hafa einnig verið vel næmir fyrir þeim sýklalyfjum sem prófað hefur verið fyrir síðustu ár.

Campylobactersýking í kjúklingum sú minnsta síðan eftirlit hófst

Sýni eru tekin úr hverjum kjúklingaeldishópi tveimur til fimm dögum fyrir slátrun allt árið.

Eldishópar sem eru Campylobacter-jákvæðir í eldi eru frystir strax eftir slátrun. Við slátrun eru tekin sýni til Campylobacter-ræktunar úr botnlöngum kjúklinganna. Ekki eru tekin slátursýni úr eldishópum sem voru jákvæðir í eldi.

Á árinu 2013 greindist Campylobacter í um 1,9% af kjúklingasláturhópum á Íslandi (sjá mynd 37) og hefur tíðnin ekki verið jafn lág síðan eftirlit hófst. Um mitt ár 2012 var þó eftirliti breytt á þá leið að engin sýni eru tekin úr sláturhópum m.t.t. Campylobacter yfir vetrarmánuðina, eða í janúar, febrúar, mars, nóvember og desember, þar sem líkur á jákvæðum hópum eru hverfandi á þessum árstíma. Því er erfitt að bera saman niðurstöður frá seinni hluta árs 2012 og ársins 2013 við niðurstöður fyrri ára.

Niðurstöður skýrslunnar eru að notkun sýklalyfja í mönnum hefur haldist nokkurn veginn óbreytt síðustu ár. Þó hefur notkunin minnkað eilítið síðustu ár í aldurshópunum 0–4 ára og 15–19 ára. Athygli vekur að notkun þröngvirkra sýklalyfja innan heilbrigðisstofnana hefur minnkað milli áranna 2012 og 2013 á meðan notkun breiðvirkra lyfja hefur aukist.

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði
Fréttir 15. júlí 2024

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði

Matvælaráðuneytið segir í svari við fyrirspurn ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að sa...

Farsæll áhugaræktandi
Fréttir 15. júlí 2024

Farsæll áhugaræktandi

Þrír synir undan heiðursverðlaunahryssunni Álöfu frá Ketilsstöðum komu fram á La...

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...

Tilþrif á Landsmóti
Fréttir 11. júlí 2024

Tilþrif á Landsmóti

Enginn skortur var á glæsilegum tilþrifum stólpafáka sem komu fram í gæðingakepp...

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins
Fréttir 11. júlí 2024

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur gert kauptilboð í allt hlutafé Kjarnafæðis Nor...