Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Sýklalyfjaónæmar bakteríur eru tifandi tímasprengja
Fréttir 11. mars 2015

Sýklalyfjaónæmar bakteríur eru tifandi tímasprengja

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Eins og fram kom í síðasta Bændablaði er mikil lyfjanotkun í landbúnaði í þeim löndum sem verið er að flytja kjöt frá til Íslands. Lyfjanotkun er minnst í Noregi mælt á massa dýra, en næstminnst á Íslandi. Heildarlyfjanotkun er hins vegar minnst á Íslandi.

Samkvæmt tölum um lyfjanotkun frá Evrópsku lyfjastofnuninni EMA (European Medicine Agency), er lyfjanotkun lýst með PCU (Population correction unit) sem mælir lyfjanotkun á massa (þyngd) búfjár. Í þessum samanburði er lyfjanotkun á Íslandi mælt í mg/PCU aðeins 2% af því sem gerist á Spáni og 3% af því sem gerist í Þýskalandi. Þá notar Ísland innan við 1% af því magni sem Danir og Hollendingar bera í sitt búfé en landið er 2,5 sinnum stærra.

Jafnframt vekur athygli að Holland, sem lítið land að flatarmáli, er 12 stærsti lyfjanotandinn. Ljóst er að stærstur hluti innflutts kjöts kemur frá mestu lyfjanotendum í landbúnaði í Evrópu samkvæmt skýrslu EMA. Niðurstaðan er því vissulega dapurleg fyrir íslenska neytendur.

Rætt í hálfkæringi

Hér á Íslandi tala menn um þessi alvarlegu mál í fjölmiðlum í miklum hálfkæringi og helst að grín sé gert að þeim sem bent hafa á hættuna af ofnotkun sýklalyfja og annarra efna í landbúnaði. Þær  áhyggjurnar sem Neytendasamtökin virðast hafa af kjötinnflutningi eru að ekki sé nógu ötullega unnið að því að fella niður innflutningsgjöld af kjöti. Lýðheilsumál eru ekki mikið rædd í því sambandi. Þar skipta verðlagsmál til skamms tíma greinilega meira máli.

Athyglisverður samhljómur virðist vera með samtökum neytenda, Samtökum verslunar og þjónustu og forsvarsmönnum Félags atvinnurekenda og SA, sem einmitt bera því við að þetta sé allt gert sérstaklega með hagsmuni neytenda í huga. Sú fullyrðing virðist bara ekki standast ef marka má fréttir að undanförnu og orð Harðar Harðarsonar, formanns Svínaræktarfélags Íslands.

Alvarleg heilbrigðisógn

Í erlendri umræðu er víða talsvert öðruvísi tekið á málum en hér á landi. Þar er t.d. mikið rætt um hættu sem skapast af ofnotkun sýklalyfja og veldur því að bakteríur mynda með sér þol gegn lyfjunum en þá verða til eins konar ofurbakteríur. Þegar fólk fær svo þessar bakteríur í sig þá duga sýklalyfin sem til eru einfaldlega ekki til að vinna á þeim. Hafa vísindamenn jafnvel talað um þetta sem mestu heilbrigðisógnina sem mannkynið standi frammi fyrir. Heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna, WHO, hefur líka varað mjög við stöðunni. 

Auk notkunar sýklalyfja til að lækna sýkingar í dýrum þá hafa slík lyf verið notuð í stórum stíl víða um heim sem vaxtahvetjandi efni. Þá er sýklalyfjum ýmist blandað í fóður eða drykkjarvatn dýranna til að koma í veg fyrir að ýmis smit trufli vaxtarhraða. Notkun sýklalyfja sem vaxtarhvata hefur formlega verið bönnuð í ríkjum Evrópusambandsins frá janúar 2006. Hins vegar hefur slík notkun verið mikil í Bandaríkjunum þrátt fyrir áætlanir Matvæla- og lyfjastofnunar Bandaríkjanna um að sporna við því. Þá hafa verið ítrekaðar vísbendingar um að farið sé í kringum reglurnar í Evrópu í gegnum öfluga svartamarkaðsverslun með sýklalyf. Ekki er langt síðan par í Bretlandi var dæmt í fangelsi fyrir ólöglega verslun með fölsuð sýklalyf sem seld voru bændum í Bretlandi og á Indlandi.

Í frétt Washington Post nýverið er grein frá áhyggjum Evrópubúa vegna hugsanlegs fríverslunarsamnings við Bandaríkin. Menn óttist að samkeppnin í landbúnaðarframleiðslunni harðni vegna meira frjálsræðis sem ríkt hefur í Bandaríkjunum. Því megi Evrópubúar í kjölfarið reikna með notkun vaxtarhormóna í nautakjötsframleiðslu, að kjúklingakjöt verði þvegið upp úr klór og að ýmis erfðabreytt lífefni verði nýtt til að auka framleiðni í landbúnaði. Franskir bændur hafa verið í fararbroddi þeirra sem mótmæla fyrirhuguðum fríverslunarsamningi. Í október mótmæltu tugir þúsunda þessum áformum í 22 ESB-löndum og í Kaupmannahöfn var eftirlíking af 8 metra háum Trójuhesti notuð sem samlíking við þessi áform.

„Tifandi tímasprengja“ sem flokka ætti með hryðjuverkum

Í skýrslu, sem breski forsætis­ráðherrann David Cameron kynnti í fyrra, kemur fram sláandi niðurstaða: „Áætlað er að sýklalyfja­ónæmar bakteríur valdi dauða um 5.000 einstaklinga í Bret­landi á hverju ári og 25.000 manns í Evrópu allri.“

BBC fjallaði um málið og vitnaði í Sally Davies prófessor, sem er yfirmaður lyfjaeftirlits í Englandi. Hún sagði m.a.: „Ógnin af sýklalyfja­ónæm­um bakteríum er tifandi tíma­sprengja.“ Þá sagði hún að hættan sem af þessu stafar ætti að setja í flokk með hryðjuverkum.

Á fundi með Royal Society í fyrra hældi hún David Cameron fyrir að taka sér forystuhlutverk á heimsvísu í baráttunni vegna vaxandi sýklalyfjaónæmis og fyrir frekari þróun sýklalyfja.

Hundruð milljóna manna í hættu

Í skýrslunni sem Cameron kynnti í fyrra kemur m.a. fram að þol baktería gegn sýklalyfjum geti hugsanlega drepið hundruð milljóna manna fyrir árið 2050 ef ekkert verður að gert.

Þá er í ritinu Scientific American haft eftir Kevin Outterson, sem er sagður sérfræðingur í heilsufarslögum, að kostnaður heimsbyggðarinnar við að meðhöndla smit vegna sýklalyfjaónæmra baktería muni ná 100 billjóna dollara markinu um 2050. Hann segir: „Þú getur litið á sýklalyfjaónæmi eins og hægfara alheims-járn­brautarslys sem mun eiga sér stað á næstu 35 árum. Ef við gerum ekkert, þá sýna nýjustu skýrslur okkur að kostnaður eigi að öllum líkindum eftir að margfaldast.“

Ónæmar malaríubakteríur orðnar staðreynd

Hundruð milljóna manna virðast vera í hættu á næstu áratugum. Talið er að sýklalyfjaónæmar malaríubakteríur muni vera áhrifaríkastar í að draga fólk til dauða, en ónæmar E.coli bakteríur muni valda mesta kostnaðinum. Fréttir frá Asíu fyrir síðustu helgi hafa valdið miklum ugg, en sagt var frá því að greinst hafi stökkbreyttar malaríubakteríur í Asíu sem ónæmar eru fyrir öllum þekktum lyfjum. Er þetta sagt geta skapað mikla hættu á heimsvísu. Þetta er ekki svo fjarri okkur hér á norðurhjara, því að í Evrópu hefur innflutt malaría verið ört vaxandi vandamál á síðustu árum, samkvæmt frétt BBC.

Fæðu og lyfjastofnun Banda­ríkjanna FDA hefur áætlað að landbúnaður í Bandaríkjunum noti um 80% af öllum sýklalyfjum þar í landi og sé höfuðorsök fyrir fjölgandi tilfellum þar sem fólk smitast af sýklalyfjaónæmum bakteríum. 

MRSA smit orðið útbreitt í dönsku svínakjöti

Í fyrri viku var danska ríkissjónvarpið DR með umfjöllun um MRSA-bakteríur í kjöti í þætti sem heitir „Madmagasinet“. (http://www.dr.dk/tv/se/madmagasinet-bitz-frisk#!/). Í sjónvarpsþættinum í DR kom fram að á árinu 2010 hafi 16% svína í Danmörku borið MRSA smit og á árinu 2014 var talan komin upp í 70%.

Lyfjaþolnar ofurbakteríur

Þarna er um að ræða bakteríur sem myndað hafa þol gegn fúkkalyfjum en MRSA er skammstöfun fyrir  „methicillin-resistant Staphylo­coccus aureus“. Þessar bakteríur geta verið banvænar mönnum þar sem ónæmiskerfið vinnur ekki á þeim og venjuleg sýklalyf duga ekki heldur. Þá sýnir reynslan að bakteríurnar vinna jafn harðan upp þol gegn nýjum sýklalyfjum.
Samkvæmt skrifum hinnar bandarísku Trisha Torrey, sem er virtur fyrirlesari og  baráttumanneskja fyrir bættum hag sjúklinga, eru sýklalyfjaónæmar bakteríur farnar að valda miklum skaða á sjúkrahúsum. Hún segir að flestar slíkar sýkingar sé þó hægt að lækna en það geti tekið mjög langan tíma að losna við MRSA bakteríur úr líkamanum. Sá tími geti á þeim tíma líka framkallað ýmis önnur vandamál.

Samkvæmt upplýsingum Sjúkdómavarnamiðstöðvar Banda­ríkjanna (Centers for Disease Control and Prevention - CDC), deyja um 100 þúsund sjúklingar á bandarískum sjúkrahúsum á hverju ári vegna sýkinga og vaxandi fjöldi  þeirra vegna MRSA smits.

Neytendur ómeðvitaðir um ástandið

Fréttamenn DR spurðu í þætti sínum af hverju það væru MRSA bakteríur í dönsku svínakjöti og hvort neytendur vissu af því? Nær allir neytendur sem spurðir voru höfðu ekki hugmynd um tilvist sýklanna í kjötinu. Reyndar trúði þriðjungur neytenda alls ekki að danskt kjöt gæti borið í sér slíkar bakteríur.

21% af dönsku svínakjöti smitað af MRSA

Fram kom í þættinum að eftir 2011 hafi verið dregið úr eftirliti með smituðu kjöti á markaði. Þá væru nú tvö af hverjum þrem dönskum svínum smituð af MRSA CC 398 (Methicillin-resistant Staphylococcus aureus) og 21% af kjöti og svínakjötsafurðum í verslunum væri smitað af sýklalyfjaþolnum bakteríum, eða fimmta hver pakkning.

Eitt og hálft tonn af sýklalyfjum

Heimsótt var danskt svínabú í Slangerup vestur af Kaupmannahöfn sem framleiðir um 17.000 grísi á ári. Þar eru viðhafðar miklar öryggisráðstafanir til að forðast að inn í búið berist smit og allir sem þar fara inn í gripahús þurfa að klæðast sérstökum hlífðarfatnaði. Fram kom að ekki er skimað sérstaklega fyrir MRSA bakteríum í svínunum, en þær lifa aðallega í trýni dýranna. Bóndinn vissi því ekki hvort eða hversu mikið var um sýkingar í dýrunum. Vitað er að smit getur borist milli svína og eins af svínum í menn. Bóndinn í Slangerup fylgdist hins vegar með hvort ungir grísir fengju niðurgang og meðhöndlaði þá grísi sérstaklega með sýklalyfjasprautu. Í Danmörku er talið að um 400.000 ungir grísir séu meðhöndlaðir á þennan hátt á hverjum einasta degi. Þannig fari um 1,5 tonn af sýklalyfjum til svínaframleiðslunnar á ári. Lyfjaleifarnar og bakteríusmit geta svo skolast í skólp og út í umhverfið.

Gríðarleg aukning á MRSA-sýkingum

Þáttastjórnendur DR spurðu Kåre Mölbak, starfsmann heilbrigðisstofnunar, hversu margir hafi smitast af MRSA.

„Á árinu 2014 voru þetta næstum 1.400 tilfelli,“ sagði Mölbak. Sagði hann að tilfellunum hafi fjölgað gríðarlega á síðustu árum. Á árinu 2007 var einungis um 14 tilfelli að ræða. Sagði hann að það væru augljóslega sjúkrahúsin sem væru að finna fyrir stóraukinni smittíðni. Ekki kom þó fram hvort aukna smittíðni í fólki mætti beinlínis rekja til aukinnar tíðni MRSA í svínakjöti, en óneitanlega er um ákveðna fylgni að ræða  Henrik Westh, yfirlæknir hjá Hvidovre Hospital, sagði MRSA ónæman fyrir flestum sýklalyfjum. Oft uppgötvuðu menn smitið of seint í fólki. Því gætu sjúklingarnir mögulega verið búnir að smita aðra áður en þeir færu í meðferð. Hann fullyrti samt að svínakjötið væri ekki að valda smiti, eða svo framarlega að það sé rétt eldað og vel steikt í gegn.

Háttur yfirvalda að pakka í vörn

Viðlíka fullyrðingar eru vel þekktar í viðbrögðum heilbrigðisyfirvalda um allan heim í óþægilegum málum. Mörg dæmi eru til um slíkt hér á landi og jafnan borið við að það sé gert í varúðarskyni til að vekja ekki ótta almennings. Fjárhagslegir hagsmunir fyrirtækja hafa í mörgum tilfellum einnig verið settir skör hærra en heilbrigðishagsmunir almennings. Þannig var málum t.d. farið í umræðu fyrir um aldarfjórðungi um afar menguð vatnsból við öfluga útgerðarbæi á landsbyggðinni. Þeim málum var síðar kippt í liðinn, allavega í flestum tilvikum, en aldrei hefur verið upplýst um þann skaða sem mengað vatn hefur mögulega valdið fólki. Þar er t.d. ekki ólíklegt að ýmsa banvæna umhverfissjúkdóma, sem svo eru skilgreindir, megi rekja til mengaðs drykkjarvatns.

Hugsanlegt að skipta um svínastofn

Jens Peter Nilsen, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, sagði að menn yrðu að viðurkenna vandamálið því skammt yrði þar til allur svínastofninn yrði smitaður. Hugsanlega væri hægt að bregðast við með því að taka smitaða grísi úr umferð og vinda ofan af vandamálinu eða skipta um stofn, en það gæti tekið fjölmörg ár.

Sören Söndergaard er umsjónar­maður svínaræktarinnar hjá Landbrug og Fodevareer, en þau samtök eru dönsk systursamtök Bændasamtaka Íslands. Söndergaard er sjálfur svínabóndi og segir að menn íhugi nú hvernig komast megi út úr þessum vanda til framtíðar. Þetta snerist m.a. um meðhöndlun sýktra grísa á búunum til að ná niður sýkingum.

Svínakjötsframleiðsla á Íslandi í hættu

Aldrei hefur eins mikið verið flutt inn af svínakjöti og í fyrra og hlutfall tolla á innflutningsverð hefur lækkað snarlega og birgðir hafa hlaðist upp. Kjötið kemur einmitt frá löndum sem nota hvað mest af sýklalyfjum við framleiðsluna á heimsvísu. Þrátt fyrir mikinn innflutning og lækkað verð frá íslenskum bændum hefur verð út úr búð hækkað að því er fram hefur komið m.a. í Fréttablaðinu.  Í skjóli birgðasöfnunar hefur íslenskum framleiðendum verið stillt upp við vegg og gert að lækka sínar afurðir. Virðist þar höfð uppi svipuð aðferðafræði og var stunduð gagnvart grænmetisbændum fyrir nokkrum árum.

Hörður Harðarson, formaður Svínaræktarfélags Íslands, benti á það í grein í Fréttablaðinu 18. febrúar að verð til íslenskra svínabænda hafi lækkað um 8,9%, en það hafi alls ekki skilað sér til neytenda, þvert á móti. Hörður segir vísbendingar um að verslunar-, kjötvinnslu- og innflutningsfyrirtæki skipti nú með sér ábatanum af tollalækkunum og lækkunum á verði til bænda.

Hörður hefur bent á að íslenskir svínabændur sitji ekki við sama borð og evrópskir kollegar þeirra. Má það til sanns vegar færa því svínaræktin í Evrópu er ríkisstyrkt eins og annar landbúnaður í ESB og nýtur líka tollverndar. Íslenskir svínabændur njóta aftur á móti ekki sömu ríkisstyrkja og t.d. nautgripa- og sauðfjárrækt og reynslan að undanförnu sýnir að tollverndin hér á landi hefur mjög takmörkuð áhrif.

Kaldhæðnisleg krafa um innflutning frá ríkisstyrktum stóriðjubúum

Krafan er samt hávær um óheftan innflutning á kjöti frá „ríkisstyrktum stóriðjubúum“ í ESB-löndum. Auk þess er kjötið frá löndum sem nota lyf í miklu óhófi sem er m.a. farið að kalla fram lyfjaónæma bakteríustofna sem er orðin mikil ógn við heilsu almennings.

Ljóst er af orðum formanns Svínaræktarfélags Íslands að þessi innflutningur getur hæglega gengið að íslenskri svínakjötsframleiðslu dauðri. Kaldhæðnislegt er að íslenska kjötið, sem gæti þannig hæglega horfið af markaðnum, er laust við óhóflega lyfjanotkun og er því með því heilbrigðasta sem þekkist í heiminum. Því er ekki skrítið að menn velti því fyrir sér hvaða hagsmuni Neytendasamtökin séu í raun að styðja.

Upprunamerkingasvindl í ESB-löndum

Enn einn hluti af vandanum sem við er að glíma er  að lítið virðist vera að marka vottorð um upprunamerkingar matvæla sem koma frá  ESB-löndum. Innflytjendur og jafnvel opinberar eftirlitsstofnanir hér á landi hafa einmitt borið fyrir sig slíkum vottorðum sem ávísun á öryggið í umræðunni undanfarin misseri.

Nýjasta tilfellið er rakið í frétt BBC 17. febrúar sl. Þar er greint frá uppruna á svínakjöti sem rannsakað var í úttekt Bændasamtaka Írlands (Irish Farmers' Association – IFA). Var gerð DNA-rannsókn á svínakjöti sem sagt var upprunnið á Írlandi (Produced in Ireland). Kom í ljós að þriðjungur „írska“ kjötsins sem rannsakað var í verslunum var ekki upprunnið á Írlandi. Samt vildi enginn forsvarsmaður verslana viðurkenna að kjötið væri ekki upprunnið á Írlandi.

„Við hugsum til þess með hryllingi að verið sé að flytja inn hrátt svínakjöt,“ sagði O‘Flaherty, formaður svínaræktar- og svína­kjötsnefndar, en Írland er fyrsta landið í heiminum til að bjóða upp á DNA rekjanleikakerfi á svínakjöti.

Bíðum ekki eftir öðrum hrossakjötsskandal

Sinn Féin-flokkurinn á Írlandi hefur skorað á Evrópuþingið að herða reglur um upprunamerkingar.

„Við ættum ekki að bíða eftir öðrum skandal á borð við hrossakjötsskandalinn til að gera eitthvað í málinu,“ segir þingmaður flokksins, Lynn Boylan.

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...