Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Tækifæri fólgin í því að vinna úr íslensku hráefni
Mynd / MÞÞ
Fréttir 13. nóvember 2014

Tækifæri fólgin í því að vinna úr íslensku hráefni

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

„Það er óhætt að fullyrða að okkur hefur verið vel tekið, fólk hefur verið ánægt með vörurnar og við erum þakklát fyrir þær góðu viðtökur sem við höfum hlotið á markaði,“ segja  þær Bergrún Arna Þorsteinsdóttir og Guðný Vésteinsdóttir. Þær, ásamt eiginmanni Guðnýjar, Þórólfi Sigjónssyni, eiga og reka fyrirtækið Holt og heiðar ehf.

Öll eru þau fædd og uppalin í sveit, frá Skagafirði um Möðrudal og til Hornafjarðar.  Guðný og Þórólfur eiga einnig og reka Sveitasetrið að Hofsstöðum í Skagafirði en Bergrún Arna er aðstoðarskógarvörður hjá Skógrækt ríkisins í Hallormsstaðaskógi.

Holt og heiðar er matvæla­vinnslufyrirtæki með starfs­stöð sína í kjallara undir höfuðstöðvum Skógræktar ríkisins í Hallormsstaðaskógi. Þar fer framleiðslan fram, en þegar kemur að því að afla hráefnis til vinnslunnar berst leikurinn víða. Áhersla er á sultugerð og koma þar m.a. rabarbari og ber af ýmsu tagi við sögu, en einnig nýta stöllurnar afurðir sem fengnar eru úr austfirskum skógum, skógarsveppi og  birkisafa.

Alls framleiða þær Bergrún og Guðný 12 vörutegundir, en frá því starfsemi félags þeirra hófst og fyrstu vörurnar fóru á markað, sumarið 2010, hafa þær á hverju ári þróað og boðið upp á nýja vöru.  Nýjungin í ár eru tvær nýjar sultutegundir, hrútaberjasulta og rifsberjasulta.

Hugmyndin kviknaði í kaffi­spjalli við eldhúsborðið

Hugmyndin að stofnun félagsins kviknaði í kaffispjalli við eldhúsborðið einhverju sinni í janúarmánuði árið 2009.  Í kjölfarið ákváðu þær Bergrún og Guðný að drífa sig á frumkvöðlanámskeið sem Impra hélt á Austurlandi það vormisserið en á námskeiðinu var farið í helstu þætti er lúta að stofnun og rekstri fyrirtækja. Námskeiðið segja þær að hafi nýst þeim vel til að komast af stað með hugmyndina og hjólin fóru að snúast. Strax um sumarið var farið út að afla hráefnis, tína ber, sveppi og ná rabarbara í hús.
„Við stofnuðum fyrirtækið síðar á árinu 2009, fundum hentugt húsnæði fyrir framleiðsluna og byrjuðum á því að safna birkisafa og prófa okkur áfram með birkisírópsgerð auk þess sem við nýttum okkur líka rabarbara.  Fyrstu vörurnar voru komnar á markað í júlí árið 2010 og síðan þá höfum við þróað starfsemina og bætum ævinlega við einhverju nýju á hverju ári,“ segja þær. 

Fjölskyldan hefur fengið að kenna á okkur

Töluvert þarf til af hráefni til framleiðslunnar og af ýmsu tagi, en þær hafa alla anga úti varðandi öflun þess. „Fjölskyldan hefur fengið að kenna á okkur og líklega eru börnin löngu búin að fá nóg, en þau hafa verið virkjuð á þeim vettvangi,“ segja Bergrún. Foreldrar hennar, Vernharður og Anna Birna, hafa um árin lagt drjúga hönd á plóg og verið iðin við hráefnisöflun að sumar- og haustlagi. Einkum hafa þau sinnt upptöku rabarbara af krafti, en félagið fær hann m.a. úr nokkrum görðum á heimaslóð, Héraði.  Úr rabarbara framleiða þær rabarbarasultu, með og án vanillu og einnig síróp.

Skógarbændur á Héraði leggja inn sveppi hjá félaginu, bæði lerki- og furusveppi, en þeir eru bæði þurrkaðir og heilfrystir og einnig blandaðir út í sölt.

Vantar tínslufólk

Þá nýta þær einnig birki úr Hallormsstaðaskógi, nota birki­safann í birkisíróp og birkilauf í te og sölt. Skógarberin; hrútaber, rifsber og sólber, eru notuð í sultugerð. „Við fáum sjálfboðaliða frá SEEDS-samtökunum okkur til aðstoðar við berjatínslu, en það má eiginlega segja að tínslan sé veikasti hlekkurinn í okkar starfsemi. Það vantar tínslufólk hér fyrir austan, fólk sem er tilbúið að tína og leggja inn  hjá okkur ber.  Auðvitað gætum við framleitt mun meira ef við hefðum úr meira hráefni að spila,“ segir Guðný.

Smáframleiðendur frá A-Ö

Starfseminni hefur vaxið fiskur um hrygg og sem fyrr segir framleiðir félagið Holt og heiðar nú alls 12 vörutegundir. „Okkur hefur verið vel tekið, við fórum hægt af stað, byrjuðum rólega og ætluðum ekki að reisa okkur hurðarás um öxl.  Viðtökur fóru strax fram úr björtustu vonum þannig að við höfum smám saman verið að bæta við okkur, en auðvitað erum við smáframleiðendur frá A-Ö og bjóðum handunna vöru svo við erum alls ekki að keppa við þá stóru á þessum markaði. Neytendur verða sífellt meðvitaðri um uppruna og innihald þeirra matvæla sem þeir neyta þannig að það er ágætis rými fyrir okkar vöru á markaðnum,“ segja þær. „Öll okkar framleiðsla er úr íslensku hráefni, við höfum að mestu fært okkur yfir í lífrænt vottaðan hrásykur og við notum ekki viðbætt hleypi- eða rotvarnarefni.“

Aðlögum starfsemina að árferði

Þær Bergrún og Guðný segja hráefnisöflun vegna framleiðslunnar háða veðri og vindum og vissulega geti skipst á skin og skúrir, það komi góð ár með ríkulegri uppskeru en einnig megi búast við verra árferði af og til og afraksturinn því rýrari.  „Það veldur okkur ekki mikilli streitu þó eitt og eitt árið vanti eitthvert hráefni frá náttúrunnar hendi. Þannig var það til dæmis árið 2012 þegar sama sem engir sveppir uxu hér fyrir austan og við áttum af þeim sökum enga sveppi það árið.  Nú í ár var afskaplega gott berjaár, hrútaberin eru sem dæmi mjög góð og vaxa út um allan skóg, þannig að við bjóðum upp á hrútaberjasultu í ár sem er nýjung hjá okkur. Það færir okkur tækifæri að vinna úr íslensku hráefni, en með því að vera meðvituð um að árferði er misjafnt frá ári til árs aðlögum við okkar starfsemi að því,“ segja þær.

Taka með sér matarminjagripi

Íslendingar sem og útlendir gestir sem sækja landið heim hafa tekið vörum frá Holti og heiðum vel.  Samstarfskonurnar hafa sett saman gjafapakkningar sem slegið hafa í gegn sem matarminjagripir, en ferðamenn grípa gjarnan með sér slíka pakkningu á ferð sinni um landið og flytja með sér til síns heima.  „Gamla góða rabarbarasultan með fjallagrösum hefur verið mjög vinsæl, en fólk hefur líka tekið nýjum framleiðsluvörum vel og þykir gaman að prófa eitthvað nýtt.“

Matar- og handverskmarkaður

Þær segjast vera nokkuð iðnar við að sækja markaði og kynna vörur sínar þar. Þannig hafi þær verið tíðir gestir á Handverkshátíð á Hrafnagili um árin, verið á matarmarkaði Búrsins í Hörpunni og þar verða þær stöllur í góðum gír um aðra helgi, dagana 15. og 16. nóvember næstkomandi. 

Vörurnar eru  einnig í verslunum vítt og breitt um landið. Eins hafa þær sótt jólamarkaði og verða í ár t.d. á Jólamarkaðnum á Ingólfstorgi og Jólatrésmarkaði Barra á Egilsstöðum.

50 myndir:

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...

Dagur sauðkindarinnar
Fréttir 29. október 2024

Dagur sauðkindarinnar

Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Fréttir 29. október 2024

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins

Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 28. október 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Fréttir 28. október 2024

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu

Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Fréttir 28. október 2024

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé

Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Fréttir 25. október 2024

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju

Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Fréttir 25. október 2024

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast

Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...