Tæplega 240 þýskar konur réðu sig til vinnu á íslenskum bændabýlum
Tæplega 240 þýskar konur fluttu til Íslands skömmu eftir að Þjóðverjar töpuðu stríðinu í seinni heimsstyrjöldinni. Heimildarmynd um þessar konur verður sýnd á kvikmyndahátíðinni Riff sem haldin verður 25. september til 5. október næstkomandi. Myndin ber heitið Eisheimat eða Home in the Ice og er á þýsku en verður sýnd með enskum texta.
Bakgrunnur myndarinnar er Þýskaland eftir stríð, árið 1949. Landið var í rúst án nokkurrar vonar fyrir ungar konur, í landi án karlmanna. Þá stóð þáverandi Búnaðarfélag Íslands og forveri Bændasamtaka Íslands að auglýsingum í dagblöðum Norður-Þýskalands á eftirfarandi hátt: „Óskað eftir kvenkyns starfsfólki á bóndabæ.“
Í kjölfarið fengu 238 þýskar konur að fara til hinnar ókunnu eyju í norðri og Íslendingar upplifðu fyrstu fjöldaflutninga fólks til landsins. Allar höfðu þýsku konurnar sérstakar ástæður fyrir brottflutningum frá rústum Þýskalands og norður í haf. Myndin segir sögu sex hugrakkra kvenna sem líta á níræðisaldri yfir farinn veg. Þetta er síðasta afturhvarf þeirra til gamalla þurftartíma þar sem þær þurftu að yfirgefa heimalandið og hefja nýtt líf á heimili á ókunnugum stað. Konurnar í myndinni hafa fundið jafnvægi til að gera upp gamla tíma og horfa á þá með væntumþykju, opnum hug og fyrirgefningu í hjarta.
Myndin er 90 mínútur að lengd og handritshöfundur og leikstjóri er Heike Fink. Framleiðandi er Juliane Thevissen og meðframleiðendur eru Birgit Guðjónsdóttir og Marcel Reategui. Klippingu annaðist Galip Iyitanir, hljóð: Arnar Ólafsson, tónlist: Julia Klomfass og dreifing: Thevissen Filmproduktion. Sýnishorn úr myndinni má finna, reyndar ótextað, á vefslóðinni: http://vimeo.com/87575133.