Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Birna Kristín Baldursdóttir.
Birna Kristín Baldursdóttir.
Fréttir 27. október 2014

Tapaðar erfðaauðlindir verða ekki endurheimta

Höfundur: Vilmundur Hansen

Mikilvægi þess að varðveita erfðaefni villtra og nytjastofna dýra og plantna verður sífellt meira enda liður í því að tryggja fæðuöryggi.

Einsleit ræktun, lofts­lags­breytingar, eyðing búsvæða, mengun og stríðsátök ógna víða fágætum stofnum dýra og plantna sem gætu reynst mikilvægar í framtíðinni.

Íslenskt erfðalindasetur var formlega sett á stofn á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands í samstarfi við erfðanefnd landbúnaðarins og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti Íslands árið 2009. Aðsetur setursins er við Landbúnaðarháskólann sem hefur umsjón með rekstri þess og umsýslu. Erfðanefnd landbúnaðarins hefur fastan sess í setrinu og nýtur þjónustu þess.

Setrið er samstarfsvettvangur

Birna Kristín Baldursdóttir, umsjónarmaður setursins, segir að setrið sé hugsað sem samstarfsvettvangur allra þeirra sem með einum eða öðrum hætti tengjast varðveislu og sjálfbærri nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði.

„Helstu verkefni setursins snúa að umsjón verkefna á vegum erfðanefndar landbúnaðarins en setrið er jafnframt hugsað sem staður fyrir ýmiss konar starfsemi sem tengist erfðaauðlindum. Til að mynda sem tengsla- og samskiptanet setursaðila þar sem miðla má reynslu, efla starfsemi og samskipti þeirra fjölmörgu sem láta sig varðveislu og sjálfbæra nýtingu erfðaauðlinda varða. Hvort sem það er út frá hagsmunum landbúnaðar, umhverfis eða menningar í víðu samhengi.“

Nauðsyn líffræðilegrar fjölbreytni

Að sögn Birnu gefur erfðanefnd landbúnaðarins á fimm ára fresti út landsáætlun um erfðaauðlindir í íslenskri náttúru og landbúnaði þar sem stefnumörkun nefndarinnar er sett fram.

„Samningur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni, sem Ísland er aðili að, nær til allra tegunda lífríkisins þar á meðal þeirra tegunda sem hafa hagnýtt gildi í landbúnaði. Með stefnumörkun sinni vill erfðanefnd landbúnaðarins mæta þeim skuldbindingum og benda á leiðir til varðveislu og nýtingu erfðaauðlinda. Í landsáætluninni er einnig samantekt á því sem áunnist hefur.“

Hægt er að nálgast landsáætlunina  á heimasíðu nefndarinnar, www.agrogen.is, en þar er einnig að finna upplýsingar um íslenskar erfðaauðlindir og verkefni þeim tengd. 

Birna segir að helsta ástæða þess að mikilvægt sé að varðveita erfðaauðlindir sé að forsendur landbúnaðarframleiðslu geti breyst hratt vegna breytinga sem geta átt sér stað í umhverfinu frá náttúrunnar hendi eða af völdum manna.

„Við breyttar aðstæður getur verið þörf fyrir aðra eiginleika en nú er og á það við bæði um plöntur og dýr. Auk þess má nefna að kröfur markaðarins eftir landbúnaðarvörum eru sífellt að breytast. Síðast en ekki síst er menningarsögulegt gildi erfðaauðlinda mikilvægt, þar sem ræktun plantna og búfjár er hluti af menningarsögunni. Það er því vert að hafa í huga að varðveisla erfðaauðlinda er lykilatriði í varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni og tapaðar erfðaauðlindir verða ekki endurheimtar.“

Málþing um íslenska kúastofninn

Á undanförnum árum hefur setrið skipulagt þematengd málþing um mikilvægi erfðaauðlinda. Má þar nefna rabarbara, kartöflur, íslenska geitastofninn, ferskvatnsfiska og fljótlega stendur til að halda málþing um íslenska kúastofninn. „Umræða um innflutning á nýju kúakyni eða innskoti erfðaefnis vekur spurningar um hver verði staða íslenska kúastofnsins ef hann leggst af sem framleiðslustofn.“
Erfðaefni varðveitt hér og á Svalbarða

Birna segir að setrið sinni meðal annars samskiptum við Norræna genbankann (NordGen) og hafi umsjón með verkefnum á hans vegum sem tengjast Íslandi. 

„Þar má nefna verkefni sem tengist rannsókn á erfðabreytileika og skyldleika íslenska fjárhundsins við hundakyn á Norðurlöndum og víðar um Evrópu. 

Fræ af íslenskum nytjajurtum eru varðveitt í Norræna genbankanum í frægeymslu á Svalbarða, meðal þeirra eru fræ af hálíngresi, skriðlíngresi, snarrót, túnvingli, vallfoxgrasi og vallarsveifgrasi. Ýmsar matjurtir eru einnig varðveittar hjá genbankanum og má þar nefna kartöflur, melgresi og gulrófur.
Sumar nytjajurtir þarf að varðveita í klónasöfnum og hefur verið leitað eftir samstarfi við grasagarða og byggðasöfn til varðveislu á til dæmis rabarbara.“

Rabarbari hefur verið ræktaður hér á landi með farsælum hætti í að minnsta kosti 130 ár. Talið er að rabarbarinn hafi borist hingað til lands með dönskum embættismönnum í kringum 1880.  Í dag eru hér á landi fjölmörg rabarbarayrki og hefur Grasagarður Reykjavíkur tekið að sér varðveislu á 15 þeirra.
Erfðanefnd landbúnaðarins er einnig ætlað að skapa faglega umgjörð um rannsóknir á erfðaauðlindum landsins og efla og styrkja aðkomu nemenda að rannsóknum á erfðaauðlindum landsins. Nefndin hefur veitt styrki til ýmissa verkefna en fjármagn til hennar hefur verið skorið mikið niður undanfarin ár og styrkveitingar að hennar hálfu í samræmi við það.

Verndun íslenska geitastofnsins

Birna er með meistaragráðu í erfða- og kynbótafræði frá LbhÍ og fjallaði lokaverkefni hennar um erfðafjölbreytileika íslenska geitastofnsins. Hún segir að undanfarin misseri hafi verndaraðgerðir vegna íslenska geitastofnsins verið í brennidepli og hafi erfðalindasetur komið að þeim aðgerðum með ýmsum hætti. 

„Árið 2010 hafði setrið forgöngu um að safna frystu hafrasæði sem mun hafa mikla þýðingu fyrir framtíð geitastofnsins þar sem flutningur lífdýra er mjög takmarkaður milli sauðfjárveikivarnarhólfa. Sæðingar munu þar hjálpa til við að sporna við aukinni skyldleikarækt og einnig er mikilvægt að eiga erfðaefni sem baktryggingu ef á þarf að halda síðar meir. Fyrirhugað er að safna fyrstu hafrasæði aftur nú í haust.“

Birna segir að erfðanefnd landbúnaðarins hafi gefið út verndaráætlun fyrir geitastofninn árið 2012 og er hún höfð til hliðsjónar við skipulagningu aðgerða til verndar stofninum.

„Landbúnaðarráðherra skipaði starfshóp síðastliðið vor til að koma með tillögur til verndar og viðhalds stofnsins og hefur landbúnaðarráðuneytið á grundvelli tillagna starfshópsins aukið styrki til geitfjárræktar sem kemur til framkvæmdar á þessu ári. Auk þess hafa Bændasamtök Íslands uppi áform um að gera rafrænan upplýsingagrunn fyrir geiturnar hliðstæðan þeim sem notaður er í sauðfjárræktinni og er það mjög mikilvægt til að hægt sé að halda utan um upplýsingar um stofninn, bæði vegna ræktunar og verndaraðgerða,“ segir Birna Kristín Baldursdóttir, umsjónarmaður Erfðalindaseturs Landbúnaðarháskóla Íslands, að lokum.

Vegaframkvæmdum forgangsraðað
Fréttir 4. desember 2024

Vegaframkvæmdum forgangsraðað

Alls verður rúmum 27 milljörðum króna ráðstafað til framkvæmda og viðhalds á veg...

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina
Fréttir 4. desember 2024

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina

Fremur mun fátítt að hrossafeiti sé notuð í sápuframleiðslu hérlendis. Úr tíu kí...

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð
Fréttir 29. nóvember 2024

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð

Suðurnesjamaðurinn Ingvar Georg Georgsson hefur verið ráðinn í starf slökkviliðs...

Rannsókn ungra bænda
Fréttir 29. nóvember 2024

Rannsókn ungra bænda

Samtök ungra bænda (SUB) eru að kortleggja hindranir og hvata nýliðunar og kynsl...

Haustrúningur í fullum gangi
Fréttir 29. nóvember 2024

Haustrúningur í fullum gangi

Baldur Stefánsson, rúningsmaður frá Klifshaga í Öxarfirði, klippir tólf til þret...