Terra Madre dagurinn haldinn hátíðlegur í dag
Á hverju ári heldur alþjóðlega Slow Food-hreyfingin 10. desember hátíðlegan. Þá er haldið upp á Terra Madre-daginn (dag móður jarðar). Slow Food-hreyfingin var stofnuð þennan dag fyrir 25 árum.
Fólk kemur þá saman úti um allan heim sem áhuga hefur á að borða góðan mat úr héraði, efna til bændamarkaða með mat úr héraði, eða til að slá upp öðrum viðburðum í anda Slow Food-hugsjónarinnar.
Í ár var ákveðið hér á Íslandi að biðla til veitingamanna á landinu sem aðhyllast Slow Food-hugmyndafræðina og eru með veitingastað – eða senda mat til fyrirtækja – að elda og bjóða upp á súpu eftir eigin uppskrift. Hún yrði þá eingöngu unnin úr íslensku hráefni og ef hægt er; með hráefni sem er um borð í Bragðörkinni (sjá nánar um íslenskar afurðir Bragðarkarinnar á www.slowfood.is).
Slow Food-hreyfingin stofnuð á þessum degi
Hinn 10. desember 1989, fyrir 25 árum síðan, voru Slow Food-samtökin stofnuð formlega í Bra á Ítalíu – í Piemontehéraði. Terra Madre, sem þýðir móðir jörð, hefur verið heitið á samkomu matarsamfélaga („food communities“) víðs vegar að úr heiminum, sem er haldin á tveggja ára fresti í Tórínó á sama tíma og matarsýningin Salone del Gusto. Þessi matarsamfélög samanstanda af matreiðslumönnum, smáframleiðendum, ungu áhugafólki um matreiðslu, bændum, sjómönnum, fræðimönnum og neytendum. Þessi samfélög halda í heiðri matvælaframleiðslu sem fer eftir gildum Slow Food-hreyfingarinnar; um að maturinn eigi að koma úr héraði, vera góður og hreinn – og framleiddur og seldur með sanngirni að leiðarljósi.