Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Á verkstæðinu í Bragganum hjá Ásgarði. Frá vinstri: Gunnar Jónsson, Pétur Steinþórsson, Kristinn Axel Ólafsson, Pawel Patynek frá Póllandi, Erlendur Birgisson og nafnarnir Óskar Guðmundsson og Óskar Albertsson.
Á verkstæðinu í Bragganum hjá Ásgarði. Frá vinstri: Gunnar Jónsson, Pétur Steinþórsson, Kristinn Axel Ólafsson, Pawel Patynek frá Póllandi, Erlendur Birgisson og nafnarnir Óskar Guðmundsson og Óskar Albertsson.
Mynd / HKr.
Líf&Starf 5. desember 2017

Þar eru smíðuð leikföng og skrautmunir af mikilli alúð

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Hinn árlegi jólamarkaður hand­verkstæðisins Ásgarðs verður haldinn í Álafosskvosinni laugardaginn 2. desember. Þar gefst fólki kostur á að kaupa vandaða smíðagripi sem smíðaðir eru af mikilli alúð af starfsfólki staðarins. Unnið er úr náttúrulegum efnivið og nær eingöngu er notaður íslenskur trjáviður.  
 
Frá upphafi hafa starfsmenn Ásgarðs lagt áherslu á að hanna og þróa einföld, sterk og skemmtileg leikföng sem eiga sér samsvörun í íslenskum þjóðháttum. Hvort sem um er að ræða sjávarútveg, landbúnað, þjóðsögur eða ævintýri. Eingöngu er unnið með náttúrulegan efnivið.
 
Heimir Þór Tryggvason forstöðumaður segir að allar hugmyndir af framleiðsluvörum séu teknar til skoðunar. Þar sé ekkert fyrirfram talið ómögulegt svo framarlega að hægt sé að framkvæma hlutina með skynsamlegu móti.
 
Heimir hóf störf í Ásgarði 1998 og tók við sem forstöðumaður árið 2001. Að öðrum ólöstuðum hefur Óskar Albertsson án efa verið ötulasti talsmaður Ásgarðs í gegnum  tíðina, en þar hefur hann starfað frá stofnun 1993. 
 
Markaðurinn haldinn í Bragganum
 
Markaðurinn er í smíðahúsinu að Álafossvegi 14 sem venjulega er kallað Bragginn. Þá geta gestir einnig brugðið sér á kaffihlaðborð í húsi sem er þar nokkur skref í burtu, eða í Ásgarði númer 24 við Álafossveg gegnt Álafoss-versluninni. Markaðurinn verður opnaður klukkan 12 og mun standa til klukkan 5 síðdegis. 
Óskar Albertsson, talsmaður Ásgarðs, segir að alltaf sé góð aðsókn að markaðinum. Síðast hafi nær allt selst upp svo vissara sé fyrir fólk að mæta tímanlega. 
 
Það verður gott veður og skemmtilegt
 
„Við ætlum líka að hafa gott veður og hafa þetta skemmtilegt. Hér verða leikföng og margvíslegir listmunir til sölu í Bragganum. Hér í Ásgarði verður svo boðið upp á kökuhlaðborð, kaffi og heitt súkkulaði, en bakarar hafa verið duglegir að styrkja okkur á þessum degi. Svo hafa tónlistarmenn verið svo elskulegir að koma til okkar líka. 
 
Við seljum annars okkar framleiðslu allt árið um kring. Starfsemin er rekin í gegnum þjónustusamning við sveitarfélögin, þannig að starfsemin er styrkt bæði af sveitarfélögunum og ríkinu.
 
Hingað koma um 40 manns til vinnu á hverjum degi. Sumir eru bara fyrir hádegi, aðrir eftir hádegi og einhverjir eru allan daginn.
 
Hér ríkir mjög góður andi og gott að vera. Það verður því gaman að fá gesti til okkar á laugardaginn,“ segir Óskar. 
 
Ásgarður hand­verkstæði var stofnað 1993 sem sjálfseignarstofnun og hefur starfsleyfi frá velferðar­ráðu­neytinu sem vernd­aður vinnustaður. 
 
Fyrst  í Lækjarbotnum og síðan í Álafosskvosina
 
Fyrstu árin var starfsemin í húsi í Lækjarbotnum, ofan við Lögbergsbrekkuna. Það svæði tilheyrir Kópavogi. Í byrjun desember árið 2000 brann verkstæðið sem þar var þegar nýbúið var að ljúka við að vinna alla jólaframleiðsluna og hún fuðraði upp ásamt húsinu. Þá var keyptur pöbb í Álafosskvosinni og honum breytt í vinnustað sem fékk nafnið Ásgarður. Í framhaldinu voru keyptir tveir braggar þar rétt hjá og gerðir upp og sett þar upp smíðaverkstæði og listasmiðja var sett upp í hluta af Ásgarði. Þar er einnig matsalur starfsfólks og í plássi listasmiðjunnar er nú búið að setja upp verslun. Að sögn Óskars lánaði Mosfellsbær svo hús undir starfsemi listasmiðjunnar til 20 ára skammt frá Bröggunum. Er það í daglegu tali kallað Rauða húsið. Þar er unnið með ólík hráefni, hvort sem það er úr jurta-, steina- eða dýraríkinu. 
Um árabil naut Ásgarður og starfsemin sem þar hefur verið rekin starfskrafta þýska mynd­höggvarans Gerhard Kön­ing. Hann var sannkallaður þúsundþjala­smiður og smíðaði ótrú­legustu hluti eins og garð­húsgögn úr íslenskum trjáviði án þess að nota einn einasta nagla við smíðina. Aðstoðaði hann skjól­stæðinga Ásgarðs líka af mikilli nær­gætni og eru margir hlutir enn í framleiðslu sem eru úr hugmynda­banka Gerhards. Nú hefur Gerhard Köning látið af störfum sökum aldurs. 
 
Byggt á hugmyndafræði Rudolfs Steiner 
 
Starfsemin í Ásgarði byggist á hugmyndafræði Austurríkis­manns­ins Rudolf Joseph Lorenz Steiner (1861–1925). Hann lærði náttúruvísindi og heimspeki í Vín, en átti erfitt með að sætta sig við efnishyggju náttúruvísind­anna sem afneit­uðu sálar­legum og andlegum þáttum manns­ins. Fram að fertugsaldri þróaði hann kenningar sínar um sambandið milli efnis og anda, og fór eftir það að miðla þeim til annarra. Fræði sín nefndi hann mannspeki (antroposofi). Eftir Steiner liggja 350  bækur. Þar af eru 42 skrifaðar af honum sjálfum og um 300 eru endurritaðir fyrirlestrar. 
 
Waldorf-uppeldisfræðin, sem útbreidd er um allan heim, er frá honum komin, einnig lífræn (lífelfd) ræktun, byggingarlist, hreyfilist og þroskauppeldisfræði (lägepedagogik á sænsku), sem fjallar um uppeldi þroskahamlaðra barna. 
 
Fötlun ekki vandamál
 
Hugmyndafræði Steiners felst m.a. í því að ekki er litið á fötlun sem vandamál, heldur sem möguleika og að í hverri manneskju sé heilbrigður kjarni sem hægt sé að vinna með. Þannig er reynt að aðstoða fatlaðan einstakling við að vinna með fötlun sína, til að hæfileikar hans njóti sín sem best. 

9 myndir:

Skylt efni: Ásgarður | jólamarkaður

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...

Dagur sauðkindarinnar
Fréttir 29. október 2024

Dagur sauðkindarinnar

Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Fréttir 29. október 2024

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins

Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 28. október 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Fréttir 28. október 2024

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu

Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Fréttir 28. október 2024

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé

Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Fréttir 25. október 2024

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju

Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Fréttir 25. október 2024

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast

Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...