Þorfinnur Þórarinsson lætur af formennsku
Aðalfundur Landgræðslufélags Biskupstungna var haldinn mánudaginn 24. nóvember í Aratungu. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa fluttu Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri og Garðar Þorfinnsson héraðsfulltrúi erindi um landgræðslu.
Þorfinnur Þórarinsson, formaður félagsins til margra ára, gaf ekki kost á sér í endurkjör. Úr varastjórn gekk Egill Jónasson. Í þeirra stað voru kjörnir Ingvi Þorfinnsson í aðalstjórn og Guðrún Magnúsdóttir í varastjórn. Í aðalstjórn eru, auk Ingva, þeir Helgi Kjartansson og Guðmundur Ingólfsson. Stjórnin á eftir að skipta með sér verkum. Félagið hélt upp á 20 ára starfsafmæli á árinu.
Á fundinum kom fram að afmælisins hefði verið minnst með margvíslegum hætti. Til dæmis var haldinn landgræðsludagur í samvinnu við Landgræðsluna. Þá fór félagið í heimsókn til Landgræðslunnar og gefinn var út bæklingur um starf félagsins.