Þröstur Eysteinsson skipaður í embætti skógræktarstjóra
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skipað Þröst Eysteinsson í embætti skógræktarstjóra til fimm ára. Þröstur hefur frá árinu 2003 starfað sem sviðsstjóri Þjóðskóganna hjá Skógrækt ríkisins.
Þröstur var annar tveggja umsækjenda sem hæfnisnefnd mat hæfastan til að gegna embættinu. Hann lauk doktorsprófi í skógarauðlindum frá háskólanum í Maine í Bandaríkjunum og meistaragráðu í skógfræði frá sama skóla. Áður en hann tók við stöðu sviðsstjóra Þjóðskóganna starfaði hann sem fagmálastjóri Skógræktar ríkisins og þar á undan sem sérfræðingur hjá rannsóknarstöð sömu stofnunar sem og héraðsfulltrúi Landgræðslu ríkisins á Húsavík.
Þá hefur Þröstur skrifað fjölda ritrýndra fræðigreina um skógrækt og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum á sviði skógræktar.
Þröstur er skipaður í embætti skógræktarstjóra frá 1. janúar næstkomandi og er honum m.a. falið að fylgja eftir nýlegum tillögum starfshóps um sameiningu skógræktarstarfs ríkisins í eina stofnun.