Tollkvóti fyrir nautakjöt opinn
Höfundur: Freyr Rögnvaldsson
Tollkvóti vegna innflutnings á nautakjöti er opinn og hefur verið það síðan 28. febrúar síðastliðinn. Það þýðir að innflytjendur geta flutt inn nautakjöt á 45 prósentum af þeim magntolli sem myndi leggjast á ef kvótinn væri ekki opinn. Athygli er vakin á þessu á heimasíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, vegna umræðu um skort á nautakjöti og innflutning upp á síðkastið.
Auk magntollsins leggst 30 prósenta verðtollur á kjötið. Sem dæmi má nefna að tollur á hakkefni er 270 krónur sem er 45 prósent af leyfilegum magntolli. Væri tollkvótinn ekki opinn myndi tollurinn verða 30 prósent af innflutningsverði auk 599 króna. Þegar tollkvóti er opinn, eins og núna, hefur verðhækkun á innlendu nautakjöti engin áhrif á innflutningsverðið, að því er fram kemur í frétt ráðuneytisins.