Tölur MAST um minkaeldi á skjön við upplýsingar úr greininni
Loðdýraræktin hefur verið í örum vexti á Íslandi undanfarin ár og þykir uppbyggingin hér á landi til mikillar fyrirmyndar í greininni á heimsvísu. Þá hefur greinin verið að skila Íslendingum umtalsverðum gjaldeyristekjum.
Þá er það ekki bara eldið sjálft sem er að skapa Íslendingum gjaldeyristekjur, því talsverðar tekjur fást einnig af sölu á minkafóðri sem selt er héðan til Danmerkur.
Tölum MAST ber ekki saman við tölur minkabænda
Í nýjum tölum MAST kemur fram að loðdýraeldið samanstendur að langmestu leyti af eldi á mink. Þar hefur fjöldinn á minkalæðum og högnum aukist úr 40.178 dýrum, árið 2012 í 64.484 dýr árið 2013. Samkvæmt samtölum við forsvarsmenn í minkaeldinu standast þessar tölur MAST hins vegar alls ekki.
Björn Halldórsson, formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda (SÍL), segir að þótt met hafi verið sett í ásetningu á læðum í fyrrahaust þá hafi þær ekki verið „nema“ 45 þúsund talsins. Ef högnar séu taldir með þá séu þetta í mesta lagi 55 þúsund dýr, en ekki ríflega 64 þúsund eins og MAST haldi fram. Þá hafi fengist um 190 þúsund hvolpar. Í heild séu dýrin því um 245 þúsund sem er reyndar algjört met í þessari grein.
Verðlækkun á skinnum en von um að jafnvægi sé að nást
Fróðlegt verður að fylgjast með framhaldinu, en eins og kunnugt er hefur verð á minkaskinnum hríðfallið frá því í fyrrahaust. Íslenskir minkabændur hafa á undanförnum árum átt næstdýrustu minkaskinnin á markaðnum á eftir Dönum. Fjölmargir nýir framleiðendur hafa komið inn í greininna á undanförnum árum og þá einkum í Asíu. Það hefur m.a. valdið því mikla verðfalli sem orðið hefur og vonast menn nú til að jafnvægi fari að nást. Skinnauppboð stendur nú yfir hjá Kobenhagen Fur í Kaupmannahöfn. Sala gengur vel og skinnaverð virðist lofa góðu.
Langflestir minkar eru á Suðurlandi samkvæmt tölum MAST, sem greinilega verður að taka með nokkrum fyrirvara. Þar fjölgaði dýrum úr 19.912 árið 2012 í 40.070 árið 2013. Næst kemur Norðurland vestra sem var með 16.360 dýr árið 2012, eða álíka og Suðurland, en þeim fækkaði þar í 15.340 dýr árið 2013.
Austurland taldist vera með 30.932 dýr árið 2013 og Reykjanessvæðið með 3.102 dýr.
Refaræktin lognaðist út af
Talsverð refarækt var á Íslandi á níunda áratug síðustu aldar og fór mest í 21.480 dýr á árinu 1986. Síðan féll refaeldið hratt og leið að heita má undir lok árið 2006. Á árinu 2013 voru samt 4 eldisrefir í landinu samkvæmt tölum MAST.
Kanínueldi aftur á uppleið
Þriðja loðdýraeldisgreinin á Íslandi er kanínueldi. Talsvert var um slíkt eldi á árum áður og þannig voru 3.259 eldiskanínur á landinu árið 1988. Á síðasta ári voru eldiskanínurnar hins vegar taldar vera 276. Þeim mun þó vera að fjölga nokkuð hratt m.a. vegna ræktunar á eldiskanínum hjá Kanínu ehf. á Syðri-Kárastöðum í Húnaþingi vestra. Þar er Birgit Kositzke að byggja upp eldi á kanínum, einkum til kjötframleiðslu, sem væntanlega verður byrjað að markaðssetja nú fyrir jólin.