Tvíkefld í tvígang
Kýr númer 563 á bænum Efri-Múla í Saurbæ í Dölum hefur komið heldur betur á óvart hvað frjósemi varðar. Nú í vikubyrjun bar hún tveim kálfum, kvígu og nauti, og það sama gerðist í fyrra.
Í Efri-Múla búa Kristján Garðarsson og Herdís Reynisdóttir ásamt börnum sínum, Elísabetu Ásdísi, Stefáni Rafni og Árdísi Lilju. Kristján sagði í samtali við Bændablaðið að kýrin hafi einungis borið tvisvar og þetta sé afraksturinn.
Er að svara aukinni eftirspurn eftir nautakjöti
„Ég held að hún sé bara að svara eftirspurn eftir nautakjöti. Í fyrra bar hún seint um kvöld og ég tók hana úr stíunni og kálfinn með og setti hana á bás og fór svo. Þegar ég kom aftur í fjósið um morguninn lá annar kálfur fyrir aftan hana, en var dauður. Mig óraði ekki fyrir því að hún væri með tvo kálfa, enda var hún ekki þessleg í vextinum.
Núna var ég með hana inni í hlöðu ásamt öðrum geldkúm á undirburði. Ég sá þá að hún var borin. Þegar ég fór ásamt syni mínum að sækja hana varð mér á orði; „skyldu vera tveir hér?“ Þegar hjörðin færði sig til kom svo annar kálfur í ljós.“
Kristján segir að báðir kálfarnir hafi lifað þótt þeir hafi komið í heiminn aðeins fyrir tímann.
„Þeir eru litlir en sprækir og hlaupa um allt.“
Kristján og fjölskylda eru með 43 kýr og eitthvað yfir 100 geldneyti. Kýrin frjósama fæddist 26. apríl árið 2010. Móðir hennar er Litla Ljót frá Stökkum á Rauðasandi, en faðir naut nr. 0382 frá Lyngbrekku, Fellsströnd.