Vandræði vegna illgresis, bleytu og ágangs gæsa
Haraldur Magnússon, bóndi í Belgsholti í Mela- og Leirársveit, segir ekkert korn hafa verið þreskt hjá sér á þessu hausti.
„Mikið af þessu hefur ýmist lamist niður eða brotnað í vindi sem hefur að undanförnu verið yfir 20 m/s í meðalvindi og mikið rignt þar að auki,“ en Haraldur er með um 65 hektara lands undir bygg. „Þetta bætist svo ofan á allt annað; mikil vandkvæði út af illgresi, bleytu og ágangi gæsa.
Kornið var orðið sæmilega þroskað – það sem á annað borð hafði náð að þroska korn. Það verður skelfilegt að ná því sem enn stendur, því maður verður að slá svo neðarlega til að reyna að ná sem mestu – og það er varla hægt nema það verði orðið vel þurrt.
Á síðustu vikum hefur komið einn dagur sem hefði verið hægt að gera eitthvað, en ég var þá ekki tilbúinn með vélarnar og missti af því tækifæri. Ég reikna með að núna þyrfti að vera þurrkur í um tvo til þrjá sólarhringa áður en hægt væri að fara út á akrana, svo blautir eru þeir enda búið að rigna 150 mm í september. Ég hugsa að talsvert meira en helmingur sé ónýtur ef við teljum ekki með það sem hefur farið ofan í gæsina. Þar skiptir miklu að hafa ekki getað skorið kornið, því hún getur sest ofan í akrana núna og hefur í raun betra aðgengi. Hún er örugglega búin með um tíu hektara hjá mér enda er gríðarlegur fjöldi fugla hjá okkur.
Langversta kornræktarárið
Þetta er langversta kornræktarárið okkar hérna í Belgsholti – verra en í fyrra og er þá mikið sagt.
Þegar best hefur látið hefur uppskeran í Belgsholti verið um þrjú tonn að jafnaði á hektara, þó misjafnt á milli stykkja. Nú segir Haraldur að það megi búast við uppskeru sem verði vel innan við tonn á hektara. En til þess að það verði hægt að ná því í hús sem eftir stendur, verður að koma þurrkur á næstu dögum. Haraldur elur þá von í brjósti að það muni gerast, því það spáir norðanátt.