Vatnsskortur innan aldarfjórðungs
Samkvæmt nýjum spám Umhverfisstofnunar Bretlandseyja er talið að Bretlandseyjar gætu átt við alvarlegan vatnsskort að etja á næsta aldarfjórðungi.
Skýrsla um vatnsbirgðir og vatnsnotkun á Bretlandseyjum var lögð fram á ráðstefnunni Waterwise í síðustu viku. Samkvæmt skýrslunni er vatnsþörf íbúa Bretlands í dag svo mikil að vatnsmagn í boði annar vart eftirspurn. Helsta ástæða þessa er sagður vera vaxandi fólksfjöldi og hækkandi hiti vegna loftslagsbreytinga.
Í tillögu til að stemma stigu við líklegum vatnsskorti er lagt til að fólk dragi úr vatnsnotkun sinni um allt að einn þriðja og að farið verði í gagngerar endurbætur á vatnalögnum í landinu til að draga úr leka þeirra. Talið er að um 35% af öllu vatni sem fara um vatnsleiðslur á Bretlandseyjum tapist vegna leka. Einnig er sagt nauðsynlegt að koma upp nýjum vatnslónum og auka hreinsun á vatni til muna.
Samkvæmt skýrslunni verða Bretar og stjórnvöld í landinu að hætta að stinga hausnum í sandinn þegar kemur að stöðu vatnsmála í landinu. Talið er að um 2040 muni hitabylgjur verða tíðar og líklega árvissar á Bretlandseyjum og að það muni auka vatnsþörfina en á sama tíma draga úr framboði á vatni. Talið er að fólksfjöldi á Bretlandseyjum muni fara úr 67 milljónum í 75 milljónir um miðja þessa öld sem mun að sjálfsögðu auka vatnsþörfina.
Á ráðstefnunni kom fram að meðalnotkun Breta á vatni í dag er um 140 lítrar á dag en að notkunin þurfi að fara í 100 lítra á dag til að vel megi vera. Einnig kom fram að Bretar hafa ekki byggt nýtt vatnslón í áratugi og að vegna þess þurfi að flytja neysluvatn langar vegalengdir eftir hriplekum vatnsleiðslum og að úr því verði að bæta hið bráðasta.