Velferðarkjúklingur í búðir
Um miðjan ágústmánuð bárust fyrstu kjúklingaafurðirnar í verslanir frá kjúklingabúinu Litlu gulu hænunni, í Gunnarshólma við Suðurlandsveg, en þar eru sjónarmið dýravelferðar höfð að leiðarljósi við eldið.
Það eru lögfræðingarnir Margrét Gunnarsdóttir og Elva Björk Barkardóttir sem eiga og reka Litlu gulu hænuna ásamt móður Elvu, Jónu Margréti Kristinsdóttur, sem fyrir var bóndi í Gunnarshólma. „Hugmyndin kviknaði síðasta vetur og fórum við fljótlega á fullt að hrinda henni í framkvæmd. Víðast hvar erlendis hafa neytendur val um það hvort þeir kaupi kjúkling sem alinn er í hefðbundinni framleiðslu, lífrænan eða vistvænan kjúkling. Okkur fannst spennandi að geta boðið neytendum á Íslandi upp á annan valkost. Það lá beinast við að notast við gömlu útihúsin á Gunnarshólma en ein af stofnendum Litlu gulu hænunnar, Jóna Margrét, er jafnframt eigandi og ábúandi þar,“ segir Margrét.
Áhersla á velferð kjúklinganna
„Í upphafi skoðuðum við möguleikann á að fara út í lífræna framleiðslu á kjúkling en sáum fljótlega að það yrði mjög erfitt og dýrt. Til þess að fá lífræna vottun hefðu við þurft að flytja inn nýjan stofn þar sem sú krafa er gerð að foreldrafuglinn sé lífrænn auk þess sem við hefðum þurft að vera með eigið stofnbú. Slíkt hefði verið gríðarlega kostnaðarsamt. Við ákváðum því fljótlega að áherslan skyldi vera á velferð kjúklinganna en auk þess förum við aðrar leiðir í fóðrun en hefur tíðkast. Við eigum svo eftir að skoða það þegar fram í sækir hvort við sækjumst eftir vistvænni vottun á vöruna okkar.
Við miðum við að ekki séu fleiri en í kringum 12 fuglar á hvern fermetra og við höfum útbúið útisvæði fyrir fuglana. Þeir hafa mjög gaman af því að fara út og kroppa í gras og sand,“ segir Margrét. Þess má geta að í núgildandi aðbúnaðarreglugerðum er gert ráð fyrir að ekki séu fleiri en 19 fuglar á hvern fermetra gólfflatar.
Kjúklingurinn, er að sögn Margrétar, aðeins dýrari en annar kjúklingur út í búð. „Við höfum þó reynt að halda verðinu í lágmarki svo að þetta sé ekki einhver munaðarvara sem fáir hafi efni á að kaupa. Það er þó óhjákvæmilegt að varan sé dýrari, fóðrið sem við kaupum er dýrara og framleiðsla í svona smáum einingum eins og við erum með verður alltaf kostnaðarsamari.“