Verðhrun á ull á heimsmarkaði
Nær 40% verðfall hefur verið á ull á milli ára á heimsmarkaði sem er með því allra mesta sem þekkist á hrávöruviðskiptum samkvæmt Trading Economics. Einungis húshitunarolía hefur fallið meira í verði. Þá hefur ull í Bretlandi, sem Ístex miðar við, lækkað enn meira, eða um 50% á nokkrum mánuðum.
Þetta verðhrun á ull hefur bein áhrif á ullarverð Ístex til íslenskra sauðfjárbænda, sem lækkar nú umtalsvert á milli ára.
Þó hæsta verð sem Ístex greiðir fyrir ull sé óbreytt, þá hefur meðalverð fyrir 10 flokka af haustull lækkað úr rúmum 285 krónum á kíló árið 2019 niður í 247 krónur á kílóið 2020, eða um 13,5% að meðaltali. Þrátt fyrir svo mikla lækkun er verðið hjá Ístex samt mun hærra en fæst á heimsmarkaði. Því til viðbótar kemur stuðningur ríkisins við sauðfjárræktina og ræktunar fjár til ullarvinnslu samkvæmt búvörusamningum. Þar er greitt samkvæmt gæðum á hvert kíló hreinnar ullar miðað við alla innlagða ull á tímabilinu 1. nóvember–31. október ár hvert. Slíkur stuðningur er reyndar tíðkaður víða um heim auk þess sem sum ríki veita nú sérstakan stuðning vegna COVID-19, sem ekki er gert hér.
Samkvæmt nýrri verðskrá Ístex rokkar verðið á haustull eftir flokkum frá 0 krónum upp í 515 krónur á kílóið. Meðalverðið er 247 krónur á þeim 10 flokkum sem gefnir eru upp, en þar af er nú ekkert greitt fyrir lélegasta ullarflokkinn. Fyrir vetrarull er greitt allt frá 20 krónum og upp í 60 krónur á kíló, en fyrir lélegasta flokkinn í vetrarullinni er nú ekkert greitt.
Vinsældir lopans með ólíkindum
Staðan hér á landi er samt afar sérstök í alþjóðlegu samhengi vegna þess að eftirspurn á lopa handprjónabandi hefur verið með ólíkindum það sem af er ári bæði hérlendis og erlendis. Þetta kemur fram í grein Sigurðar Sævars Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Ístex, sem birt er á bls. 47 í blaðinu í dag. Prjónafólk hefur verið afar duglegt við prjónaskap og segir Sigurður að í vinnslu á lopa vanti lambsull og sauðaliti. Verð fyrir þá flokka mun því haldast óbreytt frá fyrra ári. Þá eru að hans mati ákveðin tækifæri í svartri vetrarull og mislitri lambsull.
Um 50% ullarinnar nýtist í lopa
Aðeins hluti af íslensku ullinni nýtist í lopa, eða að meðaltali um 50% af því sem bændur skila til vinnslu hjá Ístex. Að sögn framkvæmdastjóra getur nýtingin svo sveiflast verulega á milli ára, en hefur aukist undanfarin ár. Sá hluti íslenskrar ullar sem nýtist ekki beint í vinnslu hjá Ístex hefur verið fluttur út.
Ístex notar 1. flokk, af lambsull og sauðaliti í framleiðslu af lopablöndum. Þá er hluti af mislitri haustull notaður í ákveðna liti. Hins vegar nær Ístex ekki að nota vetrarullina í lopa sem og 2. og 3. flokk.
„Hér er aðallega um að ræða annan flokk (H2), þriðja flokk (H3), mislitan annan flokk (M2), heilsársull og snoð. Þessi ull er að mestu notuð í gólfteppaband. Þetta er iðnaðargeiri sem hefur átt mjög erfitt á COVID-19 tímum. Það er því ljóst að erfið staða er komin upp með þann hluta íslenskrar ullar sem hefur farið í útflutning,“ segir Sigurður í grein sinni. Hann sagði í samtali við Bændablaðið að birgðir væru farnar að hlaðast upp af þessari iðnaðarull.
Íslenski lopinn í sérstöðu
Verð á íslenskri ull hefur nokkuð fylgt bresku hreinullarvísitölunni. Hún hefur nú lækkað um 50% á nokkrum mánuðum. Staðan var slík á markaðnum vegna lítilla viðskipta að mönnum þótti ekki taka því að uppfæra vísitöluna á bilinu 10. mars og fram í miðjan júlí.
Samkvæmt heimildum Norilia, sem safnar og kaupir norska ull, voru um 9.000 tonn óseld af ull í Bretlandi í byrjun nýs ullartímabils síðastliðinn júní, eða um 1/3 af ull síðasta árs. Þeir hafa því sett allt verð af öllum flokkum niður í 0 kr. til norskra bænda í vetur. Norðmenn nota um 20% af norskri ull í framleiðslu innanlands.
Ef litið er á heimsmarkaðsverð á fínull (FRED-Global price of Wool, Fine), þá er staðan síst betri svo vinsældir íslenska lopans nú virðast í algjörum sérflokki. Þannig féll kílóverð á fínni ull úr rúmum 1.225 sentum í ágúst 2019 í rúm 801 sent, eða 0,8 dollara í ágúst 2020, sem er um nærri 65%. Því var verið að greiða sem nam um 108 íslenskum krónum að meðaltali fyrir kílóið af fínni ull á heimsmarkaði í ágúst. Var verðið nú það lægsta sem sést hefur síðan í ágúst 2009. Það ár fór verðið reyndar lægst í febrúar í 586 sent á kíló. Þetta er fyrir utan stuðningsgreiðslur við landbúnað sem er mjög mismunandi eftir löndum.
Stuðningur vegna COVID-19
Í einhverjum tilvikum hafa ríkis-stjórnir ákveðið að taka upp sérstaka aðstoð við landbúnað vegna COVID-19. Sem dæmi hafa Bandaríkin tekið upp sérstakar stuðningsgreiðslur (Coronavirus Food Assistance Program 2 - CFAP 2) við ullarframleiðslu bænda þar í landi. Það er til viðbótar öðrum landbúnaðarstuðningi. Nemur það um 1,4 dollurum á kg á flokkaða ull, eða sem svarar um 189 krónum fyrir hvert kíló. Í heild leggur bandaríska ríkið 19 milljarða dollara (um 2.600 milljarða ísl. kr.) í aukna styrki til alls landbúnaðar vegna COVID-19 á yfirstandandi ári. /HKr.