Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Fréttir 3. mars 2015

Verðum að nýta þau tækifæri sem liggja í greininni

Höfundur: Vilmundur Hansen

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra flutti ávarp við setningu Búnaðarþings 2015 í Hörpu og tók þar ótvíræða afstöðu með íslenskum landbúnaði. Hann sagði meðal annars landbúnað sannarlega vera framtíðaratvinnugrein á Íslandi, grein tækifæra og nýsköpunar.

Ávarp forsætisráðherra:

„Forseti Íslands, formaður Bændasamtakanna, landbúnaðarráðherra, þingmenn og þingfulltrúar, góðir gestir.

Mig langar að þakka Bændasamtökunum fyrir að gefa mér tækifæri til að ávarpa Búnaðarþing. Það er mér heiður að fá að ávarpa þing undirstöðuatvinnugreinar Íslands.

Atvinnugreinar sem á jafnlanga sögu á Íslandi og búseta í landinu, greinar sem um aldir hefur standið undir lífi og menningu í þessu landi og gerir það enn.
Og er um leið atvinnugrein framtíðarinnar.

Frá því að ég hóf þátttöku í stjórnmálum hefur mér orðið tíðrætt um tækifæri íslensks landbúnaðar.

Ég hef talað mikið um stóraukna eftirspurn eftir matvælum til framtíðar vegna fólksfjölgunar og aukinnar hagsældar í þróunarlöndum, með hækkandi markaðsverði sem af því leiðir, vatnsskort víða um heim, m.a. í iðnvæddum ríkjum, orkuskort, skort á landrými, veðurfarsbreytingar og tækniframfarir.

Allt helst þetta í hendur við að gera okkur kleift að efla matvælaframleiðslu á Íslandi til mikilla muna. Í raun er ekki bara um tækifæri að ræða heldur nánast skyldu gagnvart mannkyninu.

Fleira hefur orðið til að endurvekja áhuga samfélaga Vesturlanda á þessari undirstöðuatvinnugrein mannlífs í veröldinni.

Með fjármálakrísunni eftir 2007 rifjaðist upp fyrir mönnum, allavega til skamms tíma, að samhengi þyrfti að vera milli raunverulegrar verðmætasköpunar og hagnaðar á pappír.

Og hvað eru raunverulegri verðmæti en maturinn sem fólk þarf til að lifa og njóta lífsins?

Allt í einu viku fréttir af afrekum banka á forsíðum fjármálablaðanna, fyrir fréttum af landbúnaði.

Um tíma leit Financial Times út eins og Bændablaðið og var ekki leiðum að líkjast.

En matvælamarkaðurinn sveiflast, eins og aðrir markaðir, og síðustu misseri hefur verð ýmissa landbúnaðarafurða sveiflast aftur niður á við.

Bændablaðið – Financial Times gerði þetta að umfjöllunarefni í lok síðasta árs undir fyrirsögninni: „Investors bet the farm on agriculture“ eða „Fjárfestar leggja allt undir á landbúnað“.

Niðurstaðan var sú að hvað sem liði tímabundnum markaðssveiflum nyti landbúnaður þeirrar sérstöðu að öruggt væri að eftirspurnin myndi aukast gríðarlega og því yrði alltaf skynsamlegt að fjárfesta í landbúnaði til lengri tíma litið.

En þó kom fram að menn væru farnir að gera meiri kröfur en áður til þeirra landa og héraða þar sem fjárfest væri í landbúnaði.

Tvennt þyrfti að vera til staðar svo óhætt væri að fjárfesta í landi og matvælaframleiðslu, pólitískur stöðugleiki og þar með talið stöðugleiki í samfélaginu og svo hitt ófrávíkjanlega skilyrði þess að óhætt væri að fjárfesta í landbúnaði: Nægt hreint vatn.

Það merkilega er hversu fá lönd uppfylla þessi skilyrði. Það gerir Ísland svo sannarlega og við eigum að fjárfesta í landbúnaði en gera það sem þjóð. Það er þjóðhagslega mikilvægt.

En við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að hluti af því þjóðhagslega mikilvægi liggur í gerð íslensks landbúnaðar: Fjölskyldubúunum.

Sú gerð landbúnaðar þar sem bú eru ekki bara vinnustaður heldur líka heimili á ríkan þátt í gæðum framleiðslunnar, samfélagslegu mikilvægi greinarinnar og stuðningi almennings við hana.

Við verðum að standa vörð um þau verðmæti sem í því felast og það verður aðeins gert með því að stefna stjórnvalda taki mið af því og með samstöðu bænda.

Landbúnaður er sannarlega framtíðaratvinnugrein á Íslandi, grein tækifæra og nýsköpunar.

Að sjálfsögðu er gríðarlega mikilvægt að þróa og efla nýjar atvinnugreinar. En slík starfsemi er áhættusöm og aðeins lítill hluti hugmynda gengur upp.

Jafnvel þær sem ganga stórkostlega upp geta horfið eða breyst hraðar en þær birtust.

Ég efast ekki um að ef Íslendingar hefðu verið spurðir fyrir nokkrum árum hvaða nýsköpunarfyrirtæki þeir vildu helst óska sér að hefði verið íslenskt þá hefðu flestir svarað NOKIA.

Fyrirtækið var enda ekki bara uppáhaldsfyrirtæki Norðurlanda heldur Evrópu allrar. Svo gerðist það allt í einu að tvö fyrirtæki, eitt í Bandaríkjunum og annað í Suður Kóreu hönnuðu nýja síma sem á fáum mánuðum urðu vinsælli en NOKIA. 

Þess vegna þurfa nýsköpun og hefðbundnar undirstöðu-atvinnugreinar að fara saman og sækja styrk hver til annarrar. Raunar verður líka til gríðarleg nýsköpun beint upp úr undirstöðugreinunum eins og menn þekkja í landbúnaði og sjávarútvegi á Íslandi.

Í ljósi alls þessa vekur það furðu að enn skuli vera til fólk sem hefur horn í síðu íslensks landbúnaðar og telur það jafnvel þjóðþrifamál að veikja samkeppnisstöðu hans.

Það er svo rökstutt með því að hnýta því við að greinin þurfi að læra að standa á eigin fótum.

Sumir eru hreinlega eins og þeir hafi verið að velta út úr tímavél beint frá árinu 2007 og hafi alveg misst af því sem gerst hefur í millitíðinni.

Lítum á nokkrar staðreyndir:
Aðeins 10% af matvælaframleiðslu heimsins eru flutt milli landa og mun lægra hlutfall þeirra matvæla sem við framleiðum hér.

Með öðrum orðum, 90% af matvælum eru framleidd fyrir heimamarkað.
Hér á Íslandi er aðeins um helmingur, eða 50% þeirra matvæla sem við neytum framleidd innanlands.

Í stað þess að eyða ótrúlegum kröftum í að reyna að koma þessu hlutfalli niður í 45%, eða neðar, ættu talsmenn annarra atvinnugreina að standa með íslenskum landbúnaði og vinna að því með greininni að nýta þau tækifæri sem liggja í íslenskri matvælaframleiðslu.

Iðnaðurinn segir: „Veljum íslenskt“, að sjálfsögðu segja þeir það og við styðjum þá í því.

Verslunin hvetur fólk til að versla á Íslandi, kaupa íslenska þjónustu, og ekkert nema gott um það að segja.

En það skýtur vægast sagt skökku við þegar samtök sem ætlast til þess að Íslendingar hugsi til hagsmuna samfélagsins, þegar valið snýst um hvar þeir kaupa skuli um leið gera það að sérstöku átaksverkefni að koma í veg fyrir sömu samfélagshugsun þegar menn ákveða hvað þeir kaupa.

Og hvernig var það með matvælaverðið?

Nú sjáum við að þótt það sé ekki gert eins mikið af því að bera saman matvælaverð milli landa nú og áður var (þegar krónan var of hátt skráð) að matvælaverð á Íslandi er á við meðaltalsverð í Evrópu og raunar töluvert lægra ef aðeins eru borin saman þau matvæli sem við framleiðum innanlands. Og eins og menn þekkja er matvælaverð miklu lægra hér en á hinum Norðurlöndunum.

Ef litið er til þess hlutfalls tekna heimilanna sem heimilin þurfa að verja til matarkaupa sést að hlutfallið er talsvert lægra á Íslandi en það er að meðaltali í Evrópu.

Þegar verðbólgan tók á skrið í efnahagsþrengingunum upp úr 2008 hélt innlend matvara aftur af hækkun vöruverðs og verðlagsvísitölunnar. Verð innlendra matvæla hækkaði mun minna en þeirra innfluttu og minna en vöruverð almennt.

Íslenskir bændur eru bestu vinir íslenskra neytenda.

Við vitum af reynslu annarra að afnám tollverndar og aukinn innflutningur á kostnað heimaframleiðslu er ekki til þess fallið að lækka verð. Þvert á móti!

Fyrst yrði innlendri framleiðslu rutt úr vegi og svo ættu verslanirnar og innflytjendurnir markaðinn.

Því er svo jafnan haldið fram að Ísland sé lokað land og við búum við forneskjuleg höft.

Í ágætum bæklingi Bændasamtakanna um tollamál kemur fram að tollabandalagið ESB leggur tolla á tvöfalt fleiri vöruflokka en Íslendingar.

Flestar landbúnaðarvörur sem fluttar eru til Íslands eru fluttar inn án tolla.

ESB veitir auk þess styrki til útflutnings umframframleiðslu. Nokkuð sem lagt var af hér á landi fyrir um 20 árum.

Við höfum gert fjölda fríverslunarsamninga þar sem við gefum eftir tolla um leið og við opnum markaði fyrir íslenska framleiðendur og við höfum verið reiðubúin að halda áfram á sömu braut.

En það er hrein fásinna að ætlast til að við gefum eftir tollvernd einhliða án þess að neitt sambærilegt komi á móti. Slíkt gengi gegn þjóðarhagsmunum.

Almenningur á Íslandi er búinn að fjárfesta í íslenskum landbúnaði, semja við bændur um að þeir taki að sér að framleiða vörur.

Það er furðulegt að láta sér detta í hug að það þjóni hagsmunum þess sama almennings að eyðileggja þá góðu fjárfestingu.

Það væri fráleitt að kasta samningsstöðu Íslands á glæ og það er furðulegt að menn skuli ræða það að fórna slíkum hagsmunum og fyrir hvað?

Eins og menn þekkja er ekki verið að verja hag neytenda. Það er allt annað sem býr þar að baki.

Nú er líklega rétt að geta þess að ég tala alls staðar eins um þessi mál, hvort sem ég er staddur á flokksþingi eða alþingi, á búnaðarþingi eða viðskiptaþingi.

Það er enda hagsmunamál annarra atvinnugreina og samfélagsins alls að litið sé til landbúnaðar með velþóknun.

Það er mikilvægt að samtök ólíkra atvinnugreina standi saman og standi með landbúnaði. Slíkt er allra hagur, hagur samtakanna og hagur samfélagsins.

Ekki þarf að hafa mörg orð um hve íslensk matvælaframleiðsla (og - framreiðsla) og ferðaþjónusta fara vel saman, stundum er þetta jafnvel sami hluturinn.

Það sama ætti að eiga við um atvinnugreinar, hvort sem litið er á iðnað, nýsköpun eða verslun. Allar þessar greinar hafa hag að því að taka þátt í að nýta þau tækifæri sem íslenskur landbúnaður stendur frammi fyrir.

Ég vænti þess að á þessu Búnaðarþingi verði unnin góð vinna í þágu landbúnaðar, og þar með samfélagsins, og geri ráð fyrir að í framhaldinu fari fram mikilvægt samráð og samstarf stjórnvalda og fulltrúa bænda við að bæta starfsskilyrði greinarinnar og efla hana.

Bændum óska ég til hamingju með Búnaðarþing 2015 og íslenskum neytendum óska ég til hamingju með að eiga íslenska bændur.“

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...