Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Berglind Ósk Alfreðsdóttir er nýr ráðunautur Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins í umhverfis- og loftslagsmálum.
Berglind Ósk Alfreðsdóttir er nýr ráðunautur Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins í umhverfis- og loftslagsmálum.
Mynd / úr einkasafni
Fréttir 25. nóvember 2019

Verkefni tölvudeildar RML munu aukast í framtíðinni

Höfundur: smh
Í lok september var tilkynnt um skipulagsbreytingar í rekstri Bændasamtaka Íslands (BÍ). Meðal helstu breytinganna er sameining fjármálasviðs samtakanna við skrifstofurekstur Hótel Sögu og svo yfirfærsla tölvudeildar samtakanna til Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML). Bæði Hótel Saga og RML eru dóttur­félög BÍ. Talsverðar starfsmannabreytingar hafa orðið hjá RML að undanförnu og verða enn meiri þegar tölvudeildin bætist við um áramótin. Karvel L. Karvelsson, framkvæmdastjóri RML, telur að verkefni tölvudeildarinnar muni bara aukast í framtíðinni. 
 
Karvel L. Karvelsson.
Karvel er ánægður með starfsemi og reksturinn á félaginu að undanförnu. „Starfsemi RML hefur gengið vel síðustu ár, rekstur hefur verið jákvæður síðustu 4 árin og vorum við í hópi framúrskarandi fyrirtækja nú í haust. Þessi árangur hefur náðst þrátt fyrir að skorið hafi verið mikið niður í framlögum til RML síðustu ár. Framlögin eru í ár 42,5 milljónum lægri heldur en árið 2018. Við höfum mætt tekjutapi með því að hagræða í rekstri en einnig með því að taka að okkur ný verkefni og vinna þróunarverkefni sem við höfum sótt styrk til. Tekjur vegna ráðgjafar til bænda hafa ekki breyst mikið og gerum við ekki ráð fyrir að sá hluti muni aukast mikið á næstu árum, einfaldlega vegna þess að bændum hefur verið að fækka. Á þessu ári ákvað stjórn Bændasamtakanna að framlög til RML yrðu mun minni en áætlanir höfðu gert ráð fyrir, það er því útlit fyrir taprekstur á þessu ári en fyrirtækið stendur vel,“ segir Karvel. 
 
Tölvudeildin getur styrkt ráðgjöfina
 
Starfsstöðvar RML eru 13; allt frá því að vera einmenningsstöðvar upp í starfsemi með átta til tíu manns. „Stærstu starfsstöðvarnar eru á Hvanneyri, Selfossi, Akureyri og Sauðárkróki. Um 40 manns vinna núna hjá fyrirtækinu. Um næstu áramót kemur tölvudeild Bændasamtakanna yfir til RML og með því mun fjölga í starfsliðinu um tíu manns. Við erum mjög ánægð með að þetta skref hafi verið tekið og það tækifæri sem okkur er fært í hendurnar. Skýrsluhaldsforrit BÍ eru gríðarlega  verðmæt  fyrir bændur og þær upplýsingar sem þær geyma. Tengingar þessara gagna við smáforrit, tæki og vélar munu væntanlega stóraukast í framtíðinni með auknum kröfum um nákvæmnisbúskap og sjálfvirkni. Ég er þess fullviss að verkefni tölvudeildar munu bara aukast í framtíðinni og RML geti  með þessu styrkt ráðgjöfina og orðið leiðandi í þeirri tækniþróun sem er að eiga sér stað í landbúnaði sem og annars staðar. Starfsemi tölvudeildar hefur að mestu farið fram í Reykjavík og á Akureyri og ekki eru fyrirsjáanlegar breytingar á því.
Í takti við tíðarandann hefur RML nýlega búið til stöðugildi fyrir ráðunaut í umhverfis- og loftslagsmálum. Í ljósi þess að við höfum verið að sækja ný verkefni, meðal annars í umhverfis- og loftslagsmálum, höfum við verið að ráða inn sérfræðinga á þeim sviðum. Þegar við auglýstum stöðu ráðunautar á þessu sviði sóttu yfir 20 manns um. Berglind Ósk Alfreðsdóttir var ráðin en hún var áður hjá heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis. Berglind Ósk er með meistarapróf í matvælafræði og hún verður með starfsstöð í Bændahöll, en hún hóf störf um miðjan september. 
 
Þá var einnig nýlega Cornelis Aart Meijles ráðinn í hlutastarf hjá okkur, en hann starfar sem sjálfstæður ráðgjafi í sjálfbærum landbúnaði í Friesland í Hollandi ásamt því að vera stundakennari við Landbúnaðarháskóla Íslands.  Cornelis er með B.S.-próf í umhverfisverkfræði og jarðvegsfræði og hann mun væntanlega vera á Hvanneyri þegar hann er við vinnu á Íslandi en hann hóf störf hjá okkur 1. október.“
 
Áhersla á verkefnastjórnun og nýsköpun
 
Fleiri breytingar á starfsliði RML og á stjórnskipulagi hafa einnig orðið á síðustu vikum og dögum, að sögn Karvels. „Sigurður Guðmundsson var í lok september ráðinn í starf verkefnisstjóra fjármála, til áramóta. Hann er með B.S.-próf í viðskiptafræði og meistarapróf í skattarétti og reikningsskilum en hefur unnið við ráðgjöf hjá RML við rekstrarmál og bútækni.
 
Þann 1. nóvember var svo Sigtryggur Veigar Herbertsson ráðinn í starf fagstjóra búfjárræktar og þjónustusviðs, en hann hefur sinnt ráðgjöf í bútækni hjá RML. Sigtryggur er með meistarapróf í atferlis- og aðbúnaðarfræðum og B.S.-próf í búvísindum. 
 
Það hafa verið gerðar töluverðar breytingar á stjórnskipulagi RML á síðasta ári og er ráðning fagstjóra ein af þeim breytingum. Þær breytingar snúa fyrst og fremst að því að ráðgjöfum er falin aukin ábyrgð, fagsviðum var fækkað og lögð áhersla á verkefnastjórnun og nýsköpun.  Þróunar- og verkefnastofa var sett á laggirnar í þeim tilgangi að halda utan um verkefnasafn auk þess að vera vettvangur starfsmanna fyrir umræðu um nýsköpunarverkefni. Fyrrverandi fagstjóri búfjárræktar, Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, er verkefnastjóri þróunar- og verk­efnastofu. Gunnfríður er með meistarapróf í búfjárerfðafræði, B.S. í búvísindum og með alþjóðlega vottun í verkefnastjórnun. Við bindum miklar vonir við að með þessari breytingu muni RML eflast enn frekar í nýsköpunarverkefnum, ásamt því að innleiða verkefnastjórnun sem gefur betri yfirsýn og aukið aðhald,“ segir Karvel. 
Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi
Fréttir 22. nóvember 2024

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi

Formlegt erindi liggur nú í matvælaráðuneytinu þar sem óskað er eftir því að arf...

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga
Fréttir 22. nóvember 2024

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga

Áherslur framboða í málefnum tengdum landbúnaði er umræðuefni hlaðvarpsins „Á hl...

Lán að ekki fór verr
Fréttir 22. nóvember 2024

Lán að ekki fór verr

Um sex þúsund varphænur drápust í eldsvoðanum sem varð í eggjabúi hjá Nesbúeggju...

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning
Fréttir 22. nóvember 2024

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning

Matvælaráðuneytið hefur úthlutað nýliðunarstuðningi í landbúnaði fyrir árið 2024...

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...