Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Vestfirska forlagið var stofnað af Hallgrími Sveinssyni á Hrafnseyri, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar, árið 1994. Þar var Hallgrímur staðarhaldari og með búskap um árabil. Mynd / HKr.
Vestfirska forlagið var stofnað af Hallgrími Sveinssyni á Hrafnseyri, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar, árið 1994. Þar var Hallgrímur staðarhaldari og með búskap um árabil. Mynd / HKr.
Mynd / HKr.
Fréttir 16. desember 2014

Vestfirska forlagið 20 ára

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Vestfirska forlagið, sem einbeitir sér að útgáfu á vestfirsku efni undir samheitinu Vestfjarðabækurnar, hefur nú gefið út bækur í 20 ár.

Forlagið var stofnað af Hallgrími Sveinssyni árið 1994, en hann var þá staðarhaldari á Hrafnseyri, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar.

Ómetanleg heimildasöfnun

Sumir segja að þetta bókaforlag sé ein af helstu menningarstofnunum Vestfjarða. „Það er nú ofsagt,“ segir Hallgrímur í grein um forlagið í nýjustu bókinni, Frá Bjargtöngum að Djúpi, en viðurkennir þó af hógværð að hróður þess og orðspor hafi farið vaxandi. Það verður þó ekki af Hallgrími skafið að með sinni útgáfustarfsemi hefur hann unnið ómetanlegt gagn í söfnun heimilda. Það hefur oft verið frá fólki sem þekkti til af eigin raun, en er margt ekki lengur meðal okkar.

Um mikilvægi þess að afla upplýsinga beint frá þeim sem upplifðu hlutina hefur ríkt verulegt skilningsleysi hér á landi. Þar hefur verið einhver ofurtrú á að stjörnusagnfræðingar framtíðarinnar geti alltaf grafið málin upp síðar, en maður spyr sig, − hvernig eiga þeir að grafa upp áreiðanlegar upplýsingar sem hvergi hafa verið skjalfestar? Annars lýsir Hallgrímur sjálfur ágætlega sögu Vestfirska forlagsins í grein sinni og segir þar m.a: „Vestfirska forlagið lætur ekki mikið yfir sér og hefur ekki úr miklu að spila. Yfirbygging er lítil sem engin, eins og tíðkast hjá ýmsum smáfyrirtækjum. Margir hafa komið að verkum fyrir forlagið af áhuga einum saman og í sjálfboðavinnu. Á það ekki síst við um höfunda margra þeirra vestfirsku bóka sem forlagið hefur gefið út. Það eru mörg handtökin við gerð og útgáfu einnar bókar. Það vita þeir sem til þekkja. Hér verða engin nöfn nefnd, en hafi allir þeir sem lagt hafa hönd á plóginn hjá Vestfirska forlaginu ævarandi þakkir.

Vestfirska forlagið hefur gefið út fjöldann allan af bókum sem ferðafólk hér vestra getur nýtt sér áður en lagt er upp og þegar það ferðast hér um og vill skoða nánar sögu þessa sérstæða landshluta, sem margir telja all verulega frábrugðinn öðrum hlutum landsins í ýmsu tilliti. Þar koma við sögu fjölmargir óborganlegir vestfirskir karakterar auk hins venjulega Vestfirðings og skal þess einnig getið, að forlagið hefur alltaf lagt mikla áherslu á að halda til haga gömlum örnefnum í bókum sínum og ekki síst gömlu hreppaheitunum.“

Sjálfboðavinna á Hrafnseyri og fyrsta bókin

„Við hjónin bjuggum á Hrafnseyri í Arnarfirði um 40 ára skeið frá 1964–2005 og lögðum þar hönd að verki. Rákum þar sauðfjárbú á eigin vegum. Mest af þeim tíma vorum við með 250 vetrarfóðraðar kindur. Þá sáum við um vörzlu og umhirðu staðarins fyrir hönd Hrafnseyrarnefndar að verulegu leyti í sjálfboðavinnu að eigin vali. Var lögð áhersla á snyrtimennsku og gott viðmót við gesti staðarins og að þeir færu þaðan með góðri tilfinningu fyrir sögustaðnum. Kom þar margt indælis fólk við sögu, bæði í búskapnum og öðrum rekstri. Allt var það gert með ánægju og gleði að leiðarljósi. Skiluðum af okkur staðnum með frið í hjarta. Þá var ég sífellt að kynna Hrafnseyri og reyna að halda uppi nafni og sögu Jóns Sigurðssonar og það sem hann stóð fyrir. Skrifaði meðal annars og birti mörg hundruð blaða- og tímaritsgreina um forsetann, fæðingarstað hans og sögu heimasveitar hans.

Árið 1994 var svo komið, að ég ákvað að setja saman alþýðlega bók um þennan Vestfirðing. Ekki kannski síst í minningu litlu fræðsluritanna sem hann sjálfur skrifaði fyrir íslenska sjómenn og bændur. Ég ákvað að skrifa bók sem væri ekki fræðirit heldur einfaldar staðreyndir um æviferil hans. Auðvitað gekk ég í smiðju til ýmissa góðra sagnfræðinga í þessu efni. Ég minnist þess að Einar Laxness sagði við mig eitthvað á þá leið, að mér bæri skylda til þess að halda nafni Jóns á lofti sem staðarins maður. Ég er ekki frá því að þau orð hans hafi haft nokkur áhrif á mig. Þetta var upphaf Vestfirska forlagsins. Seinna komu svo margar frásagnir í ýmsum bókum þar sem fjallað var um fæðingarsveit forsetans, Auðkúluhrepp. Mundu þær fylla margar bækur ef settar væru saman.“

Bókaútgáfa á hjara veraldar

„Sumir halda að bókaútgáfa hljóti að gefa mikið í aðra hönd og má svo vera í ýmsum tilvikum. Aftur á móti hefur Vestfirska forlagið ekki verið nein peningamylla. Fjarri því. Í bókinni um Ellý Vilhjálms er sagt frá því að útgáfa Svavars Gests á hljómplötum hafi að nokkru leyti verið hugsjónastarf hans. Svavar leit alla tíð á það sem skyldu sína að gefa út fleira en það sem vinsælast var. Þær plötur sem betur seldust voru einfaldlega látnar rétta af bókhaldið og þannig rak hann SG-hljómplötur í tvo áratugi. Þetta er nákvæmlega sama sagan og í bókabransanum og sjálfsagt víðar.

Eitt sinn var ég spurður hvort ég hefði auðgast á þessari bókaiðju. Sá sem spurði benti á að stóru bókaforlögin hefðu barist í bökkum og verið að sameinast og fara í þrot til skiptis, en ég hefði haldið mínu striki með litlu útgáfuna á sauðfjárjörðum fyrir vestan. Svarið var: ,,Nei, alls ekki í peningum talið. Ánægja lesendanna skiptir höfuðmáli og að bjarga efni sem annars hefði örugglega farið í glatkistuna. Það hefur verið staðfest margsinnis. Ég hef hins vegar orðið ríkur á henni hvað ánægjuna varðar. Þetta hefur gefið mér mikið, ekki síst samskiptin við hundruð manna um allt land. Fyrstu árin þurfti maður að borga með Vestfirska forlaginu, eins og eðlilegt er. Síðan hefur þetta farið á þann veginn að útgáfan hefur gengið alveg þokkalega, en er botnlaus vinna.

Svo er annað að alls konar erfiðleikar koma upp við bókaútgáfu á hjara veraldar sem bókaútgefendur syðra þekkja ekki nema af afspurn.“

Í bókunum að vestan eru þúsundir ljósmynda, geysilegur fróðleikur og alls konar frásagnir sem væru týndar og tröllum gefnar ef Vestfirska forlagið hefði ekki komið þar til skjalanna. Það er margsannað. Svo eru allir þeir sem hafa skrifað þessar bækur, nokkur hundruð manns og margir þeirra aldrei birt eftir sig staf áður. Nægir þar að nefna sumar ævisögurnar, en engu er líkara en þar haldi á penna menn sem aldrei hafi gert annað en skrifa bækur og er það rannsóknarefni. Og ekki má gleyma að nefna lesendurna. Ef þeir vilji ekki kaupa og lesa bækurnar að vestan er sjálfhætt!“

Hátt í þrjú hundruð bækur

Útgáfubækur Vestfirska forlagsins eru nú orðnar hátt í þrjú hundruð þegar allt er talið. Þar kennir náttúrlega ýmissa grasa. Nefna má ritröðina frá Bjargtöngum að Djúpi, 17 bindi, Mannlíf og sögu fyrir vestan, tuttugu og tvö hefti, 101 ný vestfirsk þjóðsaga, átta hefti, 99 vestfirskar þjóðsögur, fjögur hefti og þrjár bækur með úrvali úr vestfirskri fyndni. Í þessum bókaflokkum er samankomið geysimikið efni úr nánast öllum sveitarfélögum á Vestfjörðum, en í þeim er lögð áhersla á að blanda saman blíðu og stríðu og gamni og alvöru, líkt og gerist í mannlífinu almennt. Hallgrímur telur síðan í grein sinni upp alla þá titla sem Vestfirska forlagið hefur gefið út. Þar er meðal annars um að ræða mikinn fjölda ævisagna og endurminninga, m.a. um hinn þjóðfræga prest sr. Baldur Vilhelmsson í Vatnsfirði við Djúp sem nú er nýlátinn.

„Það er auðvitað bilun“

Forlagið hefur einnig gefið út ljóðabækur, ritröð um vestfirskar konur og hefur líka stigið nokkur hliðarspor eins og með útgáfu á Basil fursta. Útgáfa rafbóka, kassetta og geisladiska hefur líka verið á könnu Hallgríms. Það allra nýjasta er svo að Vestfirska forlagið hefur verið að færa út kvíarnar á erlendum tungumálum. „Það er auðvitað bilun, en það verður bara að hafa sinn gang,“ segir Hallgrímur.

„The national hero of Iceland Jón Sigurdsson“

Hallgrímur hefur haft gríðarlegan áhuga á að halda sögu Jóns Sigurðssonar forseta á lofti. Um þetta segir hann í grein sinni:
„Merkilegt má það heita hvað Íslendingar hafa verið ónýtir að kynna lífssögu Jóns Sigurðssonar fyrir erlendum þjóðum. Er hann þó á ýmsan hátt einstæður í hópi frelsisforingja.

Frá því er að segja að undirritaður fékk í hendur nýlega frá honum Braga bóksala á Klapparstígnum, bókina Jón Sigurðsson The Icelandic patriot A Biographical sketch. Bók þessi er gefin út árið 1887, 63 bls. að stærð í litlu broti, prentuð í prentsmiðju S. Eymundssonar og S. Jónssonar. Gefin út af einum af ættingjum hans. Hvaða ættingi skyldi það nú hafa verið? Jú, það var hinn merki maður Þorlákur Ó. Johnson.

Lúðvík Kristjánsson segir frá því að af þessari bók hafi selst sáralítið. Þorlákur sendi Gladstone, forsætisráðherra Breta, eintak. Fékk hann virðulegt þakkarbréf til baka. Síðan liðu rúmlega hundrað ár að Vestfirska forlagið gaf út vandaða enska útgáfu af fyrstu útgáfubók sinni, Jón Sigurðsson, ævisaga í hnotskurn, í mjög góðri enskri þýðingu Hersteins Pálssonar ritstjóra. Einu bækurnar á enskri tungu um Jón forseta munu þetta vera sem við vitum um, auk þeirrar sem nefnd var, We call him president. Enn eru til á lager nokkur hundruð eintök af fyrri bókinni. Ótrúlegt en samt satt.“

Að draga saman seglin

Í niðurlagsorðum sínum segir Hallgrímur:
„Vestfirska forlagið á mörgum skuld að gjalda í sambandi við útgáfuna á öllum þessum bókum eins og komið hefur hér fram. Má þar nefna höfunda, prófarkalesara, prentverk, umbrotsaðila, kynningar­stjóra, verslanir af hvers konar tagi svo nokkrir séu nefndir. Ekki ætla ég mér þá dul að nefna þá alla með nafni. En alúðarþakkir skulu þeim færðar að ógleymdum hinum tryggu lesendum.

Öll ævintýri eiga sér upphaf og endi. Ævintýrið um Vestfirska forlagið fellur að sjálfsögðu undir þann hatt. Það dregur nú saman seglin, þó skipið sé ekki endanlega komið í naust. Við sjáum hvað setur. – Með bestu kveðjum til allra þeirra sem þykir vænt um Vestfirði!“
Svo mörg voru þau orð Hallgríms um þetta merkilega framtak hans í útgáfustarfsemi á Vestfjörðum. 

3 myndir:

Færri útflutt hross
Fréttir 7. janúar 2025

Færri útflutt hross

Útflutningur íslenskra hrossa árið 2024 verður minni en í fyrra.

Lækjarbakki flyst í Gunnarsholt
Fréttir 7. janúar 2025

Lækjarbakki flyst í Gunnarsholt

Ákveðið hefur verið að flytja meðferðarheimilið Lækjarbakka í Gunnarsholt á Rang...

Smáforrit til að panta sæðingar
Fréttir 6. janúar 2025

Smáforrit til að panta sæðingar

Smáforritið Fang, sem er notað fyrir pantanir á sæðingum og skráningar fyrir frj...

Haukur er nýr formaður Gæðingadómarafélagsins
Fréttir 6. janúar 2025

Haukur er nýr formaður Gæðingadómarafélagsins

Haukur Bjarnason, bóndi á hrossaræktarbúinu Skáney í Reykholtsdal, er nýr formað...

„Íslenskt lambakjöt“ verndað afurðaheiti
Fréttir 6. janúar 2025

„Íslenskt lambakjöt“ verndað afurðaheiti

Gagnkvæm viðurkenning er nú á landfræðilegum afurðaheitum Íslands og Bretlands o...

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu
Fréttir 3. janúar 2025

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu

Í haust keypti samlagsfélagið SÍA IV, framtakssjóður í rekstri sjóðstýringarfyri...

Hert á ferlunum
Fréttir 3. janúar 2025

Hert á ferlunum

Einfalda, hraða og stytta á ferli rammaáætlunar til að flýta fyrir orkuöflun í l...

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru
Fréttir 3. janúar 2025

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru

Framkvæmdir við uppbyggingu Laxeyjar á fiskeldi í Vestmanna­eyjum hafa gengið sa...