Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Bæjarhúsin í Litlu-Ávík standa fyrir ofan Ávík og eru undir vesturhlíðum Reykjaneshyrnu. Til norðvesturs er útsýni beint inn Norðurfjörðinn.
Bæjarhúsin í Litlu-Ávík standa fyrir ofan Ávík og eru undir vesturhlíðum Reykjaneshyrnu. Til norðvesturs er útsýni beint inn Norðurfjörðinn.
Fréttir 20. mars 2014

Vetrarrúningur í Litlu-Ávík í Árneshreppi

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Bændur í Árneshreppi á Ströndum hafa verið við vetrarrúning, eða svonefnda snoðklippingu, nú undanfarið. Sigursteinn Sveinbjörnsson, bóndi í Litlu-Ávík, hefur alltaf getað klippt sitt fé sjálfur. Hann hefur líka klippt talsvert á öðrum bæjum í gegnum tíðina en hætti því fyrir þrem árum. Hann fæddist 28. september 1938 og er því kominn á sjötugasta og sjötta aldursárið.


Sigursteinn er nú með nær 260 fjár á fóðrum. Fyrri rúningur hjá honum fer fram eins og hjá mörgum öðrum á haustin þegar fé er tekið inn á gjöf en nú var hann að taka vetrarklippinguna og ná af því snoðinu.
„Maður reynir að taka af eins snemma og hægt er á haustin til að ná ullinni fyrsta flokks,“ sagði Sigursteinn þegar Bændablaðið sló á þráðinn til hans síðastliðinn laugardag. Sagði hann að frá honum færi ullin í þvottastöð á Blönduósi og síðan til vinnslu hjá Ístexi í Mosfellsbæ.


Hann segist hafa rúið sitt fé sjálfur alla tíð. Fyrst hafi það nú bara verið gamli góði vasahnífurinn en þá var bara tíðkað að rýja á sumrin. Barkaklippur með bensínmótor hafi svo komið 1966. Þá hafi hann farið að klippa hjá öðrum bændum í Árneshreppi líka og það hafi undið upp á sig. Fljótlega hafi svo komið þægilegri rafmagnsklippur til að rýja féð.

Ómskoðun og fósturvísatalning

Nokkur ár eru síðan farið var að ómskoða fé í hreppnum, en það verður nú gert í fimmta sinn. Reiknaði Jón með að ómskoðun færi fram nú í seinni hluta mars og verður þá hægt að telja fósturvísa og sjá þá hvað verður einlembt, tvílembt, þrílembt eða hverjar eru hreinlega geldar.

Tveir hálfbræður hjálpast að við búskapinn

Jón Guðbjörn Guðjónsson, veðurathugunarmaður í Litlu-Ávík og hálfbróðir Sigursteins, hafði samband við Bændablaðið í síðustu viku og sagði að þeir byggju nú tveir í Litlu-Ávík hvor í sínu húsinu og hjálpuðust að við búskapinn. Þar sæi hann m.a. um eldamennskuna. Báðir eru fæddir og uppaldir í Litlu-Ávík og sagði Jón að til gamans mætti geta þess að þrjú systkini hans væru fædd í september og hafi því komið því undir um jól eða um fengitímann í fjárhúsunum.

Halda tryggð við fæðingarstaðinn

Sigursteinn hefur búið alla tíð í Litlu-Ávík, utan þess að hann var tvær vetrarvertíðir í Sandgerði. Jón Guðbjörn flutti hins vegar að heiman en segist þó alltaf hafa verið með annan fótinn í Litlu-Ávík og byggði sér þar hús. Hefur hann m.a. séð um veðurathuganir á svæðinu og flugvöllinn í Gjögri.

Lítill snjór og líklega gott sumar fram undan

Jón segir lítinn snjó vera á láglendi og snjór hafi ekki verið til mikilla ama í vetur nema helst á vegum. Hann segir að þeir hafi sloppið vel við kal í fyrrasumar og telur að svo verði einnig núna. Sagðist hann gera sér vonir um að sumarið yrði gott, en alltaf mætti búast við leiðinda kulda við Húnaflóann í kringum burðinn í vor eins og venjulega.


Sigursteinn var sama sinnis og sagðist vonast til að sumarið yrði gott þó hann væri svo sem enginn spámaður. „Það hefur enginn snjór verið hér í vetur svo nokkru nemur, það er helst núna að eitthvað snjóar.“ Sagði hann enginn svell á túnum og þó að einhver klaki kæmi núna styttist í vorið þannig að ólíklegt væri að slíkt ylli kali.


Spurður um samgöngur sagði hann að alltaf væri haldið opnum vegi á milli flugvallarins í Gjögri og Norðurfjarðar. Annars hefði ófærð ekki verið mikið vandamál í vetur og oftast fært til Hólmavíkur þegar á þyrfti að halda.


Sigursteinn sagðist hafa alfarið tekið við búinu af fósturföður sínum Guðjóni, föður Jóns, árið 1978, en fram að því hafi þeir verið saman með búskapinn. Sagði hann að þótt þeir bræður væru nú bara tveir eftir í Litlu-Ávík leiddist sér ekkert.

Rekaviðurinn nýtist vel

„Ég hef alltaf nóg að gera og þegar ég er ekki að sinna fénu hef ég verið að vinna rekavið.“ Hann segir að rekaviðurinn hafi verið nýttur í staura auk þess sem hann sagaði mikið í borðvið. Þá væri rekaviðurinn fyrirtaks eldsneyti til að kynda húsin.


Hann sagði mjög misjafn hve mikið kæmi af rekaviði milli ára. Þá væri mjög farið að draga úr rekanum frá því sem áður var og greinilegt að skógarbændur í Síberíu væru farnir að passa betur upp á bolina sem fleytt væri niður árnar. Timbrið sem færi þar í sjóinn ræki upp að Grænlandsströndum, þar sem það festist oft í ísnum og þá mislengi. Viðurinn virtist þó oftast vera að skila sér upp í fjörurnar á Ströndum sjö til átta árum eftir að hann færi í hafið.


„Mestur var rekinn 1966. Þá rak óhemjumikið árið eftir ísaveturinn. Síðan hefur ekki verið neinn stórreki. Árið 2000 fór þó mikið af trjábolum í hafið í Síberíu og á árinu 2008 fór að reka talsvert hér upp í fjörurnar. Líklega er það sami viðurinn, án þess að maður geti svo sem nokkuð fullyrt um það.“

Engin sjálfsbjargarviðleitni til í fólki lengur

Sigursteinn sagðist þó furða sig á því hve fáir nýttu sér rekaviðinn sem eldsneyti þar sem hann lægi þarna um allar fjörur. Það væri einkennilegt að fólk vildi heldur nota dýrt rafmagn til að kynda húsin. Sjálfur væri hann vissulega með rafmagnstúbu líka en hann kynti þó aðallega með rekaviði.
„Að vísu þarf að hafa svolítið fyrir þessu en ég skil þetta samt ekki. Það er greinilega engin sjálfsbjargarviðleitni til í fólki lengur,“ sagði þessi eldhressi Strandamaður.

3 myndir:

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði
Fréttir 15. júlí 2024

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði

Matvælaráðuneytið segir í svari við fyrirspurn ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að sa...

Farsæll áhugaræktandi
Fréttir 15. júlí 2024

Farsæll áhugaræktandi

Þrír synir undan heiðursverðlaunahryssunni Álöfu frá Ketilsstöðum komu fram á La...

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...

Tilþrif á Landsmóti
Fréttir 11. júlí 2024

Tilþrif á Landsmóti

Enginn skortur var á glæsilegum tilþrifum stólpafáka sem komu fram í gæðingakepp...

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins
Fréttir 11. júlí 2024

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur gert kauptilboð í allt hlutafé Kjarnafæðis Nor...