Við verðum að stíga varlega til jarðar varðandi nýtt kúakyn
Í Kastljóssviðtali á dögunum talaði Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda, um knýjandi þörf á því að tekið verði til athugunar að heimila kynblöndun við íslenska kúakynið – sé ætlunin að gera greinina samkeppnishæfari. Nefndi hann kynbótasamstarf við nágrannaþjóðir í því samhengi.
Bændablaðið leitaði álits hjá Guðmundi Jóhannessyni, ábyrgðarmanni í nautgriparækt hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, á þessum orðum og segir hann að vísast sé þetta rétt hjá Sigurði, en málið sé vandasamt af ýmsum ástæðum.
„Ef við lítum til þess hver framleiðsla okkar á hvern bás í fjósum okkar er þá verður ekki framhjá því litið að hún er of lítil til þess að standa með góðu móti undir öllum þeim kostnaði sem fylgir því að endurnýja framleiðsluaðstöðuna. Ef við gefum okkur, sem er að öllum líkindum rétt, að nytin myndi aukast með innflutningi þá myndum við án efa gera greinina samkeppnishæfari eða öllu heldur auka framleiðni greinarinnar. Hins vegar er málið ekki einfalt og við verðum að stíga ákaflega varlega til jarðar með hliðsjón af þeirri stöðu sem við erum í hvað snertir sjúkdómastöðu landsins. Í dag er ekki heimilt að flytja inn erfðaefni án sérstakrar undanþágu frá ráðherra og það bann byggir fyrst og fremst á sjúkdómavörnum. Stóru spurningarnar í þessum efnum eru fyrst hver vilji kúabænda sjálfra er og svo hvaða leiðir á að fara auk þess hvað hið ytra umhverfi knýr okkur til að gera,“ segir Guðmundur.
Skortir tölur um tíðni sjúdóma hérlendis
Í forsíðuumfjöllun Bændablaðsins 23. október var viðtal við Birki bónda Tómasson á Móeiðarhvoli, sem gerir klárt fyrir nýtt og stærra kúakyn, með nýbyggingu sem gerir ráð fyrir fleiri fermetrum á hverja kú. Þar segir hann að gripirnir sem fengjust með nýju kúakyni yrðu stærri, heilsuhraustari og framleiddu meira. Guðmundur segir að lítið sé hægt að staðhæfa í þessum efnum.
„Til þess skortir okkur tölur yfir tíðni sjúkdóma hérlendis en á Norðurlöndunum hafa menn viðhaft sjúkdómaskráningu um jafnvel áratugaskeið. Þetta hefur vantað hérlendis en með tilkomu gagnagrunnsins Heilsu ættu þessi mál að færast til betri vegar.
Okkar stærsti framleiðslusjúkdómur er júgurbólga eins og annars staðar. Hin síðari ár hefur staðan farið batnandi hvað það snertir og til dæmis er júgurbólga tilgreind förgunarástæða kúa í skýrsluhaldinu í 27 prósent tilfella í stað 40–45 prósent fyrir aðeins 4–5 árum síðan. Ending íslenskra kúa virðist ákaflega svipuð og gerist og gengur annars staðar sem bendir til þess að heilsufarið sé ekkert lakara, en það er líka ekkert sem segir að það sé betra ef horft er til framleiðslusjúkdómanna. Við megum svo ekki gleyma því að hérlendis erum við laus við stór vandamál eins og ýmis fótamein og kálfasjúkdómar eru fátíðir hér.
Án efa fengjum við stærri kýr sem myndu mjólka meira. Við þurfum ekki annað en skoða tölur um meðalnyt úr nágrannalöndunum og þungatölur kúnna þar til þess að leiða líkum að því.“
Erfitt að bera saman framleiðni milli landa
Guðmundur segir erfitt að bera saman framleiðnina milli landa. „Myndin er skekkt af hinum ýmsu styrkjum sem landbúnaður nýtur, ekki bara hjá okkur heldur alls staðar í hinum vestræna heimi og víðar. Við búum við nokkuð mikinn stöðugleika í mjólkurframleiðslunni hérlendis og höfum þar notið stjórntækja eins og framleiðslustýringar og opinberrar verðlagningar. Menn getur greint á um hvort þau tæki séu af hinu góða en eigi að síður hafa þau tryggt bændum og neytendum ákveðið verð. Erlendis þurfa bændur að glíma við sveiflur í verði mjólkur sem geta haft gríðarleg áhrif á framleiðni búanna og afkomu greinarinnar. Ef við hins vegar mælum framleiðni í mjólkurafköstum er alveg ljóst að við höfum dregist aftur úr.“
Flestir geta verið sammála um að talsverðar framfarir hafi orðið í kynbótum íslenska kúastofnsins. Guðmundur segir ljóst að við eigum líka heilmikið inni í kynbótaframförum – það sýni rannsókn sem Ágúst Sigurðsson og Jón Viðar Jónmundsson gerðu fyrir nokkrum árum.
„Þar kom fram að við keyrum stofninn á tveimur þriðju af hámarksafköstum með tilliti til erfðaframfara. Skýringin er sú að notkun heimanauta er alltof mikil hjá okkur auk þess sem of margir kjósa að standa utan ræktunarstarfsins og taka ekki þátt í skýrsluhaldi.“
Óraunhæft að ná 17–18 prósenta aukningu með kynbótum
„Það er líka ljóst að við munum ekki ná sívaxandi eftirspurn með kynbótaframförum, það er ekki miðað við þann vöxt sem við sjáum núna. Verði reyndin sú að við þurfum að framleiða 140 milljónir lítra á næsta ári þýðir það 24 milljón lítra aukningu á tveimur árum eða nálægt 2,7 kg mjólkur á dag á hverja kú. Þetta er 17–18 prósent aukning og ég held að slíkri aukningu sé algjörlega óraunhæft að ná með kynbótum á svo stuttum tíma hvar sem er í heiminum.
Það er svo aftur staðreynd að við munum aldrei ná kynbótaframförum sem jafnast á við framfarirnar í stóru mjólkurframleiðslukynjunum vegna smæðar íslenska kúastofnsins og takmarkaðra möguleika okkar til að nota tæki eins og kyngreint sæði og val með erfðamörkum.“
Höfum skuldbundið okkur til að vernda íslenska kúastofninn og í raun allt lífríki Íslands
„Svo er það sú hlið sem snýr að verndun þessa stofns – og skyldur okkar í þeim efnum. Ísland er aðili að Ríó-sáttmálanum eða samningnum um líffræðilega fjölbreytni, en eitt af aðalmarkmiðum hans er að vernda líffræðilega fjölbreytni og að stuðla að sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Í því felst meðal annars að við höfum skuldbundið okkur til þess að stýra, vernda og þróa það sem kallað er upprunalegt umhverfi og líffræðilega fjölbreytni. Innan þessa ramma fellur margt fleira en íslenska kúakynið og í raun allt lífríki Íslands.
Þetta sýnir okkur hins vegar að það er nauðsynlegt að vinna verndaráætlun ekki aðeins fyrir íslenska kúakynið heldur öll okkar búfjárkyn. Það er nokkuð sem stjórnvöld ættu að setja í forgang. Að mínu mati er óráðlegt að tala um innflutning á nýju kúakyni án þess að slík áætlun liggi fyrir. Það þarf líka að liggja fyrir hver á að bera fjárhagslegar skuldbindingar af slíkri verndun og mér virðist flestir benda á ríkisvaldið í þeim efnum.“
Brýnt að gera verndaráætlun
„Ég held að sú leið sem farin yrði við innflutning á nýju kúakyni yrði frekar sú að við myndum vera með fleiri en eitt kúakyn í landinu, það íslenska og svo annað eða önnur. Það sýnir okkur einmitt hversu brýnt er að gera verndaráætlun fyrir íslenska kúakynið því markmiðið með innflutningi væri aldrei að eyða því íslenska. Við verðum því, áður en til ákvörðunar um innflutning kemur, að vera búin að gera okkur góða grein fyrir því hvernig við ætlum að vernda íslenska kúakynið og haga kynbótastarfinu í framhaldi af innflutningi.
Við megum alls ekki taka þá ákvörðun að flytja inn og sjá svo til. Slík vinnubrögð myndu skapa glundroða og spilla því góða starfi sem unnið hefur verið á síðustu 110 árum.“