Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Sigurbjörn Hjaltason og Bergþóra Andrésdóttir, bændur á Kiðafelli í Kjós. Þau eru með 200 kindur og nautaeldi undan 60 holdakúm. Í þeirra huga hefur sjaldan verið jafngott að stunda búskap og núna og telur Sigurbjörn ekki innistæðu til að hækka afurðaverð til bænda. Mynd úr einu herbergi Samansafnsins.
Sigurbjörn Hjaltason og Bergþóra Andrésdóttir, bændur á Kiðafelli í Kjós. Þau eru með 200 kindur og nautaeldi undan 60 holdakúm. Í þeirra huga hefur sjaldan verið jafngott að stunda búskap og núna og telur Sigurbjörn ekki innistæðu til að hækka afurðaverð til bænda. Mynd úr einu herbergi Samansafnsins.
Mynd / ál
Viðtal 24. september 2024

Aldrei verið betra að vera bóndi

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Hjónin Sigurbjörn Hjaltason og Bergþóra Andrésdóttir á Kiðafelli í Kjós segja bændur geta haft það mjög gott af kjötframleiðslu með réttri bústjórn, öflugu ræktunarstarfi og góðri fóðrun. Sauðfjárbúið þeirra hefur oft verið meðal þeirra afurðahæstu á landinu og eru þau að rækta upp holdanautastofn með nýju erfðaefni af Angus-kyni.

Sigurbjörn og Bergþóra voru meðal þeirra fyrstu sem hófu endurheimt votlendis og hafa fært marga hektara á sínu landi til fyrra horfs á eigin vegum. Þar að auki eiga þau stórt safn gamalla og nýlegra muna úr öllum áttum, sem þau nefna Samansafnið.

Sigurbjörn er fæddur og uppalinn á Kiðafelli en Bergþóra ólst að mestu upp í Garðabæ. Búskapurinn á bænum var að miklu leyti aflagður í tíð foreldra Sigurbjörns. Hann hafði hins vegar áhuga á að gerast bóndi og eftir að Sigurbjörn og Bergþóra tóku saman lögðu þau sig fram við að safna nægum pening til að koma búrekstrinum í Kiðafelli aftur af stað. Árið 1983, þegar þau voru rétt skriðin yfir tvítugt seldu þau íbúð sem þau áttu saman í Reykjavík, keyptu kýr og traktor og fluttu á Kiðafell.

Fjölnota gripahús í stað fjóss

Fyrstu árin voru þau með hundrað kindur og mjólkurkýr í fjósi sem Sigurbjörn lýsir sem nokkuð lélegu. Eftir tuttugu ár var fjósið orðið úrelt og lögðu bændurnir niður mjólkurframleiðslu þar sem þau vildu ekki vera fjárhagslega bundin nýrri fjósbyggingu. Í staðinn reistu þau fjölnota gripahús með aðstöðu fyrir sauðfé, nautgripi og stóðhesta. Nú er bústofninn samansettur af 60 holdakúm og nautum undan þeim í eldi, ásamt 200 vetrarfóðruðum kindum.

Hjónin segjast ekki vera farin að huga að því að minnka við sig þrátt fyrir að Sigurbjörn sé 66 ára og Bergþóra verði 65 ára í haust. „Þetta er svo voðalega þægilegt hjá okkur. Það er bara ein erfið törn, það er sauðburðurinn,“ segir Sigurbjörn.

Meðalafurðir í hæstu hæðum

Árangur hjónanna í sauðfjárrækt er umtalsverður. Undanfarin ár hafa þau raðað sér í efstu sætin yfir þá bændur sem eru með mestar meðalafurðir eftir hverja kind. Aðspurður nefnir Sigurbjörn að einn fyrsti lykillinn að þessari velgengni séu sauðfjárbændurnir norður á Ströndum. Þar sé öflugt ræktunarstarf og á stofninn á Kiðafelli rætur sínar að miklu leyti að rekja þangað.

Umhirða og fóðrun þurfi jafnframt að heppnast fullkomlega. „Síðan er kannski mest áríðandi að það sé haldið vel utan um sauðburðinn og passað upp á að ærnar geldist ekki.“ Jafnframt sé nauðsynlegt að hafa góða sumarhaga. Þau hafi átt góðu gengi að fagna með tvö hundruð ær, en Sigurbjörn dáist að bændunum á Efri-Fitjum í Miðfirði sem eru ósjaldan í efstu sætunum yfir allt landið þrátt fyrir að vera með nálægt þúsund kindur. „Það er náttúrlega algjört met.“

Sæddu helminginn í fyrra

Þá þurfi að vanda allt ásetningsval og skera niður þá gripi sem standi sig ekki. Á síðustu fengitíð sæddu bændurnir hundrað kindur með erfðaefni úr hrútum sem getur veitt vörn gegn riðu. „Það var áskorun sem við fórum alveg á fullt í, því við höfum verið að selja gripi á fæti og í framtíðinni mun enginn kaupa fé nema það sé með ARR-gen.“

Sauðburðurinn hafi því miður gengið nokkuð illa í vor og fengu þau ekki nema þrjú hundruð lifandi lömb, en ef allt hefði verið í lagi hefðu þau átt að vera 360. Sigurbjörn telur ástæðuna fóstureitrun sem varð til þess að nokkrar ær létust á meðgöngu. „Ég tók eftir því í vetur að það var fuglshræ í garða sem hefur komið með heyi og það er nóg til þess að það kemur eitrun.“

Fengu Angus-fósturvísi

Eins og áður segir stunda bændurnir ekki síður öflugt ræktunarstarf þegar kemur að holdanautum. „Við keyptum fósturvísi hjá Nautastöðinni og létum setja hann upp í íslenskri kú. Hún hélt og okkur fæddist hreinræktaður Angus-nautkálfur,“ segir Sigurbjörn. Nú hafi fæðst tveir árgangar undan honum og er sá þriðji væntanlegur í vor. Þau hafa selt fyrsta nautið og keypt nýtt hreinræktað frá Nautastöðinni. Þá standi til að halda áfram að skipta nautunum út til að halda kynbótunum áfram.

Sigurbjörn segir þetta nýja erfðaefni breyta miklu. Það fyrsta sem hann sjái sé að gripirnir eru mun rólegri og þægilegri í umgengni, eða nánast eins og íslensku mjólkurkýrnar. Holdsöfnunin og fóðurnýtingin sé jafnframt meiri sem geti skilað sér í betri framlegð.

Aðspurður hver lykillinn sé að góðri afkomu í nautakjötsframleiðslu svarar Sigurbjörn að þau hafi komið sér upp góðum stofni sem þau hugsi vel um og gripina. „Áhersla er lögð á að afla úrvalsheyja og eru nautin eingöngu grasfóðruð, en ódýrasta fóðureiningin fæst af íslenskum túnum.“

Hreinræktað Angus-naut sem bændurnir fengu sem fósturvísi fyrir nokkrum árum.

Takmörk fyrir hækkun afurðaverðs

„Það er góð framlegð á þessum búrekstri og gott út úr því að hafa, bæði að selja á fæti og framleiða kjöt,“ segir Sigurbjörn. „Ég held að afurðaverðið sé komið það ofarlega að það sé varasamt að fara með það mikið hærra út af markaðsaðstæðum. Menn verða aðeins að horfa til þess að það er verið að framleiða miklu ódýrara kjöt, eins og svín og kjúkling, sem við erum óneitanlega í samkeppni við.

Ég held að bændur geti ekki sótt mikið meira fjármagn í afurðaverði. Stærstu möguleikar þeirra til að auka tekjur sínar eru á búunum sjálfum, en það er lítil framlegð hjá mörgum þar sem bústjórn er áfátt. Í fyrsta lagi geta þeir aukið afurðirnar, það er kannski stærsta atriðið.

Síðan er allt of mikill búvélakostnaður hjá bændum. Menn eru að kaupa nýjar, stórar og flottari dráttarvélar og tæki til að gera hlutina á svipstundu. Þetta kostar, sérstaklega þegar vextirnir hækka. Það er hægt að láta þessi járnstykki endast endalaust ef það er passað upp á þetta. Það er allt of algengt að vélarnar liggi úti og þetta er varla smurt,“ segir Sigurbjörn.

Með því að gefa nautunum úrvalshey vaxa þau hraðar og kjarnfóðurkaup verða óþörf.

Ná góðri framlegð

Með því að hugsa um þessa hluti hefur Sigurbirni og Bergþóru tekist að vera meðal hæstu búa landsins þegar kemur að framlegð, en þau taka þátt í rekstrarverkefni RML þar sem þau sjá yfirlit yfir önnur bú. „Við erum náttúrlega orðin skuldlítil, en fyrir okkar leyti myndi ég segja að það hafi aldrei verið betra að vera bóndi en núna,“ segir Sigurbjörn.

„Það hafa alveg komið erfiðir tímar. Ég man að maður var alltaf að bíða eftir haustinu til að geta borgað reikningana,“ segir Bergþóra. Hún segir gott að hafa tvennt eða þrennt sem styðji hvert annað þar sem oft komi tímabil sem séu erfiðari en önnur. Mjólkurkýrnar hafi skilað reglulegum tekjum á sínum tíma, á meðan sláturinnleggið úr sauðfjárræktinni hafi komið á haustin. „Þú þarft að hafa fjármálavit. Svona rekstur er svo mikið batterí,“ bætir hún við.

Samansafnið í gamla fjósinu

„Það er nú þannig að eiginmaðurinn er haldinn dálítilli söfnunaráráttu og það var alls konar dót og drasl komið hérna inn á heimilið. Það var orðið fullt hérna hjá okkur og ég fékk hann til að færa þetta upp á fjósloft,“ segir Bergþóra. Síðan þá er búið að stækka rýmið þannig að safnið nær yfir næstum öll gömlu útihúsin. Þarna ægir öllu saman og hafa hjónin því nefnt uppátækið Samansafnið.

Það er yfirleitt opið fyrir gesti og gangandi þegar hátíðin Kátt í Kjós er haldin. Þar fyrir utan er enginn auglýstur opnunartími, en þau taka á móti hópum þegar óskað er eftir því. „Það er svo margt þarna og misjafnt hvað fólki finnst vera merkilegt,“ segir Sigurbjörn þegar hann er inntur eftir því hvaða munir séu merkilegastir. Sigurbjörn segist safna öllu mögulegu og ekkert endilega sækjast eftir því að vera með eldgamla hluti. Fólk hafi oft samband og vilji færa þeim muni. Bergþóra segir að þá sé mikilvægt að hlutirnir séu merktir og að þeim fylgi einhver baksaga.

„Því að með tímanum veit enginn hvað er hvað og hvers er hvurs,“ segir hún. Hjónin vita ekki hvernig þau muni þróa safnið á næstu árum eða áratugum. „Það kemur kannski einhver og tekur til og hendir öllu þessu drasli,“ segir Bergþóra og hlær.

Fjöldi gripa er á Samansafninu. Hjónin hafa tekið á móti hópum þegar óskað er eftir því.

Samansafnið byrjaði í einu herbergi í fjósloftinu, en hefur nú tekið yfir stærstan hluta gömlu útihúsanna.

Endurheimta votlendi á eigin vegum

Sigurbjörn og Bergþóra hafa endurheimt votlendi á sínu landi. Fyrst fóru þau af stað á eigin vegum en urðu síðan þátttakendur í Loftslagsvænum landbúnaði sem er samstarfsverkefni Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML), Skógræktarinnar og Landgræðslunnar, en síðastnefndu stofnanirnar sameinuðust í Land og skóg um áramótin. Þau hafi síðan hætt í Loftslagsvænum landbúnaði vegna ágreinings við aðila Landgræðslunnar um hvaða aðferðum skuli beita í endurheimt votlendis. „Þeir vilja bara stífla skurði og skilja eftir pytti alls staðar, en ég vil loka skurðunum alveg og endurheimta landið eins og það var. Það voru aðferðir sem þeir gátu ekki sætt sig við sem varð til þess að mér var ekki sætt þarna inni lengur sem þátttakandi,“ segir Sigurbjörn.

„Þegar maður horfir á fáránleikann, þá er þetta hætta fyrir skepnur og ljótt í landinu. Þetta er hræðilegt þegar maður sér myndir af þessu. Það eru áfram skurðir þvers og kruss,“ segir Bergþóra og vísar til ljósmynda frá öðrum verkefnum.

Mæta þurfi bændum

„Ég hef það á tilfinningunni að þessi einstrengingslega stefna sé búin að stöðva vinnu við endurheimt votlendis í landinu,“ segir Sigurbjörn. Hann hvetur starfsfólk Lands og skógs til að mæta bændum þar sem þeir eru staddir í sínum verkefnum í staðinn fyrir að koma með einhverjar strangar fyrirskipanir um hvernig eigi að gera hlutina. „Bændur og landeigendur hafa líka vit á þessu þótt einhverjir starfsmenn séu titlaðir sem sérfræðingar,“ segir Sigurbjörn.

„Fólk er alið upp á jörðunum, jafnvel í einhverjar kynslóðir, og það kann til verka. Það vinnur með landinu, en svo kemur eitthvert kerfi sem segir „nei, þú mátt bara gera þetta á einn veg“. Náttúran vinnur ekki þannig,“ segir Bergþóra. Það sé alltaf vond pólitík að stilla fólki upp við vegg og segja að það geri hlutina annaðhvort eftir fyrir fram ákveðinni aðferð eða alls ekki.

„Við höfum ekki látið þetta stoppa okkur. Við höfum unnið verkefnin áfram og erum að vinna með náttúrunni, en ekki í neinu samstarfi og þetta kemur hvergi fram,“ segir Bergþóra. Votlendið þeirra sé ekki tekið út af opinberum aðilum og kolefnisbindingin ekki reiknuð út.

Í hvamminum við ána var votlendi áður en allt var þurrkað upp á síðustu öld. Nú eru hjónin á Kiðafelli búin að endurheimta stóran hluta og hafa hugsað sér að færa stærra landsvæði til fyrra horfs á næstu árum.

Votlendi frjótt beitarland

Þegar skurðirnir voru gerðir á sínum tíma hafi uppgreftrinum verið dreift inn á túnin sem Sigurbjörn skafi nú af með jarðýtu og færi aftur á sama stað. „Það grær upp alveg í hvelli,“ segir Sigurbjörn aðspurður út í sárið sem verði eftir framkvæmdirnar.

Hann segir ekki mikinn fórnarkostnað af því að færa þurrkuð mýrartún aftur til fyrra horfs, en þetta sé ræktarland sem hann geti séð af. Skurðirnir séu lýti í landinu og hann vilji ekki horfa yfir landið sundurgrafið og spillt af mannavöldum. Með því að láta landið vera aflíðandi, í staðinn fyrir að vatnið fljóti yfir allt, skapist frjótt beitarland. Fuglalífið hafi líka tekið við sér, en þau hafa gert nokkrar tjarnir sem andfuglar sækist í. Þá séu hafernir tíðir gestir, ásamt fjölda tegunda sem ekki hafa sést þarna áður.

Bergþóra segir þau hafa byrjað á þessu þegar Sigurbjörn varð sextugur. Þá langaði þau til að gefa landinu eitthvað til baka þar sem þau eru búin að lifa af jörðinni alla sína tíð. Sigurbjörn reiknar með að þau séu búin að endurheimta um tíu hektara af votlendi og stefna þau að því að halda áfram á næstu árum.

Sigurbjörn segir flagið fljótt að græða upp eftir að jarðvegi hefur verið ýtt aftur í skurðina. Endurheimt votlendi sé verðmætt beitarland og kjörlendi fyrir fugla. Mynd / Úr einkasafni

Skylt efni: Kjós | Kiðafell | Samansafnið

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt