Eflum auðlegð innan sveitarfélaganna
Helgina 25.-26. mars sl. sóttum við ráðstefnu í vistþorpinu Cloughjordan á Írlandi um landbúnað, fæðuöryggi og eflingu landsbyggðar. Við fórum tvær á vegum samtakanna Landsbyggðin lifi, sem er hreyfing fólks sem vill efla og styrkja byggð um land allt.
Á ráðstefnunni var meðal annars fjallað um mikilvægi þess að halda peningunum í heimabyggð og var sveitarfélagið Plessé í Frakklandi tekið sem afbragðsdæmi um það. Hvernig tókst þeim að halda í litlu býlin í sveitinni og láta bæjarlífið blómstra sem aldrei fyrr, þrátt fyrir þróun í öfuga átt?
Plessé er eitt af sveitarfélögunum í Loire Atlantique sýslu, sem er fjórða stærsta landbúnaðarsvæðið í Frakklandi. Í Plessé búa um 5.000 manns og helsti atvinnuvegurinn er búfjárrækt. Þar eru nú 92 býli á samtals 104 km2 landi.
Þegar fyrirséð var að 40% bændanna myndu bregða búi ákvað sveitarstjórnin að taka til sinna ráða. Í stað þess að bíða eftir hinu óhjákvæmilega, að fjárfestar keyptu upp jarðir til að sameina í verksmiðjubúskap og íbúar yfirgæfu bæinn fyrir stærri borgir í leit að atvinnu, ákváðu þeir að búa til sína eigin landbúnaðarstefnu PAAC.
PAAC stendur fyrir Politique agricole et alimentaire communale, Samfélagsstefna um landbúnað og mat. Markmiðið var að halda öllum smábýlum á svæðinu starfandi og tryggja að nýir bændur gætu tekið við af þeim sem vildu hætta, ásamt því að tryggja fjölbreytta fæðuöflun á svæðinu. Sett var hámark á söluverð jarðanna, um 1.600 evrur á hektara, sem er um 240 þúsund íslenskar krónur.
Í stefnunni er líka kveðið á um að mötuneyti á svæðinu, bæði opinberra stofnana og fyrirtækja, kaupi mat af bændum á svæðinu. Þetta tryggir bændum ákveðna afkomu. Auk þess er sunnudagsmarkaður þar sem bændur selja íbúum beint. Í bígerð er að stofna verslun í bænum með vörur beint frá býli.
Bændur og íbúar eru jafnframt hvattir til að auka vöruúrvalið með nýjum afurðum, þótt það sé í smáum stíl, til að halda sem mestu á svæðinu. Það sem einkennir Plessé er að þar eru engin stórbýli, allt smábændur sem blómstra. Bændurnir hafa alla tíð unnið vel saman og stofnað sameignarfélög um stórar landbúnaðarvélar sem þeir nýta sameiginlega og sparar þeim augljóslega mikinn kostnað.
Stefnan skyldar sveitarfélagið til að verja meiri peningum í eigin framleiðslu í stað þess að flytja inn ódýrari verksmiðjuframleiðslu og tapa peningunum úr héraði. Þetta eflir bændur í heimabyggð og skilar á endanum meiri tekjum til sveitarfélagsins.
Sett var á fót nefnd með 26 sjálfboðaliðum úr samfélaginu, bæði bændum og neytendum, sem og 12 launuðum fulltrúum til að styðja við bændur og fylgja stefnunni eftir. Þannig fylgja íbúarnir sjálfir PAAC eftir en sveitarfélagið gerir þeim það kleift með opinberri stefnu sinni.
Frá því stefnan var sett árið 2020 blómstrar bærinn. Íbúar eru meðvitaðri um að þeir skapi sjálfir eigin framtíð. Þeir eru bjartsýnni á framtíðina og öruggari. Þeir hafa nú tækifæri til að taka þátt í samráðsnefndinni í heimabyggð svo þeir upplifa sig ekki lengur sem fórnarlömb ósanngjarnrar stefnu stjórnvalda.
Næstu átta árin verður hægt að fjármagna kaup á býlum og húsnæði á Loire Atlantique svæðinu þar sem Plessé er, úr tilteknum sjóði fyrir svæðið, Établissement public foncier de Loire-Atlantique, sem allir íbúar Frakklands borga skatt í. Sjóðurinn mun gera bæjarfélaginu jafnframt kleift að kaupa upp býli ef engir kaupendur eru fyrir hendi og stofnaður hefur verið „Bæjarlandsbankinn“ til að halda utan um eignirnar sem sveitarfélagið á. Eins og bæjarstjórinn Aurélie Méziére segir: „Við viljum styðja bændur á víðtækan máta, tryggja að nýir taki við af þeim sem hætta, viðhalda þekkingu og ekki síst að vernda og verja auðlindir á svæðinu. ... Ef við viljum hafa bændur verðum við að varðveita jarðir. Það má ekki aðskilja hús og jarðir því „býli“ eru heild, þar sem er bæði búið og starfað.“
Venjulega eru landbúnaðarmál ekki á höndum sveitarstjórna, en hins vegar var ljóst að frönsk yfirvöld ætluðu ekki að gera neitt í málinu, frekar en íslensk.
En hvernig er hægt að gera þetta á Íslandi þar sem bændur eru skuldsettir upp í rjáfur og landið allt of hátt metið? Þegar bændur loksins gefast upp og hætta búskap eru útlendingar þeir einu sem hafa efni á íslenskum jörðum. Smám saman verður allt land í eigu útlendinga ef ekkert verður að gert og eini búskapurinn verksmiðjubúskapur.
Við þurfum að líta heildrænt á hlutina. Viljum við að Ísland verði í höndum útlendinga sem nýta landið fyrir áhugamál sín og loka það fyrir almenningi? Viljum við borða verksmiðjuframleiddan mat eingöngu? Bændur eru mikilvægasta stétt landsins, því án þeirra værum við ekki sjálfstæð þjóð og sjálfbær.
Í íslenskum sveitarstjórnalögum er kveðið á um að sveitarfélög ráði sjálf málefnum á sínu svæði. Þeir geta tekið að sér hvert það verkefni er varðar íbúa þeirra og skulu gera sérstaka samþykkt um meðferð þeirra málefna sem sveitarfélagið annast. Það er hvergi kveðið á um að þeim sé bannað að sýsla með málefni landbúnaðar á svæðinu. Þvert á móti ber þeim skylda til að tryggja velferð íbúanna og það hlýtur að þýða að tryggja afkomu þeirra og öryggi.
Aðgerðir eins og þessar gera landsbyggðina eftirsóknarverðari. Með síaukinni fjarvinnu hefur fólk tækifæri til að búa hvar sem er á landinu og meiri líkur á að það velji staði þar sem bæjarlífið blómstrar.
Sveitarstjórnir þurfa að gera sér grein fyrir að valdið er í þeirra höndum. Þeir hafa vald til að efla auðlegð sveitarinnar með því að halda peningum í heimabyggð. Til dæmis er hægt að opna verslanir í bæjum með vörur beint frá býlum í nágrenninu í stað þess að allir versli í Bónus eða Krónunni, sem hirða arðinn fyrir sína hluthafa.
Sveitar- og bæjarstjórnir geta ákveðið að mötuneyti skóla og opinberra vinnustaða kaupi mat af bændum á svæðinu og beint þeim tilmælum til stórfyrirtækja að gera hið sama. Það er ekki hagkvæmt að leita alltaf ódýrustu lausnanna.
Dæmið frá Plessé sýnir að það er til vænlegri leið en sú núverandi, þ.e.a.s. að sveitarstjórnir og fólkið sjálft taki málin í sínar hendur.