Talsverðar brotalamir á eldvörnum í útihúsum bænda
Talsverðar brotalamir eru á eldvörnum í úti- og gripahúsum bænda hér á landi samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir Eldvarnabandalagið síðastliðið vor. Ljóst er að ástand viðvörunarbúnaðar, brunahólfunar og slökkvibúnaðar er slæmt hjá mörgum. Þannig segja 62 prósent bænda að ástand viðvörunarbúnaðar sé frekar slæmt eða mjög slæmt og þar af segja 42,6 prósent að ástandið sé mjög slæmt. Þá kemur í ljós að aðeins 27,3 prósent hafa gert rýmingaráætlun fyrir gripahús.
Eins og Bændablaðið greindi frá í síðasta tölublaði leiddi könnun Gallup í ljós að eldvarnir á heimilum í dreifbýli eru betri en gengur og gerist á íslenskum heimilum miðað við sambærilegar kannanir sem Gallup hefur gert meðal almennings. Önnur staða blasir við þegar kemur að gripa- og útihúsum.
Engin rýmingaráætlun eða viðvörun
Að meðaltali segjast aðeins 27,3 prósent bænda hafa gert rýmingaráætlun fyrir gripahús, eða rétt rúmlega fjórði hver. Áberandi er hve ársvelta virðist ráða miklu um hvort gerð er rýmingaráætlun. Þar sem ársvelta er fimm milljónir eða minni hafa aðeins 19 prósent gert rýmingaráætlun fyrir gripahús. Þegar ársvelta er komin í 51 milljón eða meira segist nærri helmingur hafa gert slíka áætlun, eða 46 prósent.
Þátttakendur í könnuninni voru síðan beðnir um að lýsa ástandi nokkurra mikilvægra þátta í eldvörnum úti- og gripahúsa. Þegar spurt var um viðvörunarkerfi sögðu 62,1 prósent ástand viðvörunarkerfa frekar eða mjög slæmt. Aðeins 3,3 prósent kváðu það mjög gott og önnur 8,7 prósent frekar gott.
Hér virðist ársvelta í rekstri einnig hafa mikil áhrif því þeir sem hafa mesta ársveltu voru líklegri til að segja ástand viðvörunarkerfa mjög gott eða frekar gott.
Slökkvibúnaði og brunahólfun áfátt
Ástandið er skárra þegar litið er til slökkvibúnaðar en þó segja 47,6 prósent það frekar eða mjög slæmt. Á hinn bóginn segja 22,9 prósent það frekar gott eða mjög gott. Þeir sem hafa mesta veltu skora hér einnig hærra en aðrir. Í þeim hópi segja 47 prósent ástand slökkvibúnaðar gott eða ríflega helmingi fleiri en að meðaltali. Aðeins 27 prósent þeirra segja ástandið slæmt. Vegna fjarlægðar að næstu slökkvistöð og lengri útkallstíma slökkviliða vegna eldsvoða í dreifbýli er afar mikilvægt að hafa góðan slökkvibúnað í útihúsum.
Sé litið til ástands brunahólfunar segir um fimmtungur að það sé frekar eða mjög gott en nærri helmingur, 47,7 prósent, segir það frekar eða mjög slæmt. Áberandi er að ástand brunahólfunar virðist vera mun verra á Vesturlandi/Vestfjörðum og á Austurlandi en í öðrum landshlutum. Brunahólfun getur ráðið miklu í baráttu slökkviliða við útbreiðslu elds og því mikilvægt að hún sé í lagi.
Rafmagnið í lagi
Loks var spurt um ástand rafmagns í útihúsum, en rafmagn er ein algengasta orsök eldsvoða hér á landi. Þá bregður svo við að 27,6 prósent telja ástand rafmagns mjög gott og önnur 50,4 prósent segja það frekar gott, eða samtals 78 prósent. Aðeins 5,2 prósent segja ástand rafmagns í útihúsum frekar slæmt og aðeins örfáir svara að það sé mjög slæmt.
Um könnun Gallup
Gallup gerði könnunina í apríl síðastliðnum. Úrtakið var 1.522 manns af meðlimaskrá Bændasamtakanna. Þátttökuhlutfall var mjög gott eða 45,7 prósent og bárust 696 svör. Svörin voru greind eftir eftirfarandi breytum:
- Staðsetning eftir landshlutum
- Ársvelta
- Fjöldi á heimili
- Tegund búskapar
Auk spurninga um eldvarnir á heimili var spurt um ástand eldvarna í útihúsum, aðgang að slökkvivatni, fjarlægð að næstu slökkvistöð og fleira. Áfram verður fjallað um niðurstöður könnunar Gallup í næsta tölublaði Bændablaðsins.
Eldvarnabandalagið.
Eldvarnabandalagið er samstarfsvettvangur um auknar eldvarnir. Aðild að því eiga:
Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM hf., VÍS hf. og Vörður tryggingar hf. www.eldvarnabandalagid.is