Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Sorpbrennslustöðin Funi í Skutulsfirði sem var lokað árið 2011 vegna díoxínmengunar frá henni.
Sorpbrennslustöðin Funi í Skutulsfirði sem var lokað árið 2011 vegna díoxínmengunar frá henni.
Mynd / HKr.
Skoðun 28. júní 2021

Augun að opnast

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Eftir áratuga eyðimerkurgöngu í meðhöndlun sorps á Íslandi berast nú þau tíðindi að fara eigi að taka til hendi við að „undirbyggja ákvarðanir“ um tæknilausnir, staðarval og kostnað við byggingu á 100 þúsund tonna sorporkustöð sem væntanlega verður byggð á Suðurnesjum.

Að undirbúningi ákvarðanatöku, sem á að taka fjóra mánuði, standa fjögur byggðasamlög, þ.e. Sorpa, Kalka á Suðurnesjum, Sorpurðun Vestur­lands og Sorpstöð Suðurlands, auk umhverfis­ráðuneytisins. Á starfssvæði byggðasamlaganna fellur til nærri 85% alls úrgangs á landinu.

Eins og margoft hefur verið fjallað um hér í Bændablaðinu þá hefur ríkt ótrúlegt úrræðaleysi í sorpmálum Íslendinga líkt og skólpmálum um áratuga skeið. Vandræðagangurinn í sorpmálunum er einkum tilkominn vegna kreddufullrar pólitískrar afstöðu þeirra sem ráðið hafa ferðinni í umhverfismálum, bæði á landsvísu sem og í sveitarstjórnarpólitík, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Þar á bæ vildi fólk hreinlega ekki taka mark á þeirri þróun sem átt hefur sér stað í sorpbrennslumálum á Norðurlöndum og víðar um heim á liðnum áratugum. Gilti þá einu þó sýnt hafi verið fram á með vísindalegum gögnum og útreikningum ágæti þess að umbreyta sorpi í orku. Þess í stað hefur verið haldið dauðahaldi í þá afstöðu að öll brennsla á sorpi sé alslæm og ekki í takti við þá hugmyndafræði sem rekin hefur verið í loftslagsmálum.

Með þessa sérkennilegu hugmyndafræði að leiðarljósi var m.a. farið út í botnlausan fjáraustur við uppbyggingu á jarðgerðar- og gasstöð í Álfsnesi sem kostaði skatt- og útsvarsgreiðendur á sjöunda milljarð króna. Sú stöð getur samt ekki annast förgun á plasti og ýmsum efnum sem áfram hefur orðið að urða. Þá hefur verið upplýst að annað meginframleiðsluafurð stöðvarinnar, molta, er algjörlega ónothæf vegna mengandi efna sem í henni eru.

Ýmsir hafa reynt að hafa vit fyrir þeim sem ráðið hafa ferðinni. Hafa menn þar bent á tæknilausnir sem þegar eru til þannig að óþarfi sé að finna upp enn eitt hjólið á Íslandi. Þá hefur allavega eitt norskt sorpbrennslufyrirtæki boðist til að fjármagna, byggja og reka slíka stöð á Íslandi og þá helst á Suðurnesjum. Hafa menn þar meira að segja horft á þann kost að nýta koltvísýringinn sem frá stöðinni kemur fyrir ræktun grænmetis í stórum stíl til útflutnings. Ekki hafa menn samt séð ástæðu til að svara slíku boði, sem sennilega má þó meta á 35 milljarða króna.

Nú segir borgarfulltrúi VG og formaður stjórnar Sorpu, sem á og rekur jarðgerðar- og gasstöðina GAJA, í viðtali í Morgunblaðinu sl. þriðjudag að þar sé „verið að ná tökum á lífrænum úrgangi“. Einnig segir:

„Næsta stóra verkefnið er að afsetja brennanlegan úrgang.“

Fram kemur í þessu viðtali að nú eigi loks að fara að skoða málin. Allt verði skoðað, meðal annars flutningur sorpsins, sótspor þess og staðarval sorporkustöðvar sem og nýting „glatvarma“. Þar er líka ánægjulegt að sjá í þessu viðtali að eftir ábendingar fjölda fólks árum saman fyrir daufum eyrum, eru íslenskir stjórnmálamenn nú loks að átta sig á að Íslendingar verði sjálfir að bera ábyrgð á eigin úrgangi.

Það ber að fagna þeim góðu tíðindum og að einhver hreyfing sé að komast á sorpeyðingar­málin á Íslandi. Skrítið er þó að menn fari fyrst að opna augun þegar styttast fer í sveitarstjórnarkosningar og vart meira en korter er í boðaðar alþingiskosningar.

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir
Skoðun 12. desember 2024

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir

Kvenfélag Akrahrepps var stofnað 20. desember 1919 af bjartsýnum stórhuga konum.

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það
Skoðun 9. desember 2024

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það

Ég fletti Bændablaðinu eins og venjulega. Þar er síðustu misserin mikið skrifað ...

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...