Byggðamálin komin á dagskrá
Lesendum Bændablaðsins eru færðar hamingjuóskir í tilefni þjóðhátíðardagsins og sjötugsafmælis íslenska lýðveldisins hinn 17. júní síðastliðinn. Þá er lesendum einnig óskað til hamingju með kvenréttindadaginn 19. júní, sem nú ber upp á útgáfudag blaðsins. Á næsta ári verða liðin 100 ár frá því að konur fengu kosningarétt hérlendis.
Athyglisvert er að lesa ræðu forsætisráðherra sem flutt var við hátíðarhöldin á Austurvelli að morgni þjóðhátíðardagsins. Þar gerði ráðherrann málefni landsbyggðarinnar að umtalsefni. Hann rakti þá búsetuþróun sem orðið hefur á landinu frá lýðveldisstofnun og fór yfir aðferðir Norðmanna til að tryggja dreifða búsetu. Það er löngu tímabært að íslenskir stjórnmálamenn setji fram alvöru áherslur í byggðamálum og einkar áhugavert að heyra áherslur forsætisráðherra. Í ræðu hans sagði meðal annars:
„Mikilvægast er þó að byggja upp sterka
innviði á landsbyggðinni. Í velmegandi
nútímasamfélagi þarf að tryggja fólki
um allt land öruggar og greiðar samgöngur
og fjarskipti, heilbrigðisþjónustu,
menntun og aðra þjónustu hins opinbera.
Það hlýtur líka að vera æskilegt og
eðlilegt að opinber störf dreifist jafnar
um landið en þau gera nú.
Stór hluti af útflutnings- og skatttekjum
samfélagsins verður til á landsbyggðinni.
Það er eðlilegt að sú verðmætasköpun
nýtist í meira mæli til fjárfestingar og
uppbyggingar innviða.“
Það þarf ekkert að velkjast í vafa um að stefna forsætisráðherra í byggðamálum er mjög skýr. Í orðum hans felst viðurkenning á þeirri verðmætasköpun sem á sér stað á landsbyggðinni og mikilvægi þess að styrkja innviði og bæta búsetuskilyrði um allt land. Bændasamtökin fagna þessum orðum enda er skýr og öflug byggðastefna forsenda fyrir öflugum landbúnaði.
Á búnaðarþingum undanfarin ár hefur umræða um stöðu þeirra sem búa í dreifbýli farið vaxandi. Veikir innviðir samfélaga á landsbyggðinni og niðurskurður á grunnþjónustu er staðreynd sem nauðsynlegt er að bregðast við. Viðhald vega á landsbyggðinni er víða slæmt og hönnun og burðarþol gamalla vega er fjarri kröfum nútímans. Niðurskurður í heilbrigðisþjónustu og löggæslu veldur miklum áhyggjum og óöryggi hjá íbúum á landsbyggðinni. Sjálfsagðir hlutir eins og rafmagn, sjónvarp, nettenging og farsímasamband eru allt of víða í lélegu ástandi. Það einfaldlega gengur ekki upp í samfélagi 21. aldarinnar. Vissulega hefur mikið áunnist á liðnum árum í fjarskiptamálum en tækniþróun er mjög hröð og kröfur almennings miklar. Búseta í dreifbýli á að vera raunhæfur valkostur í frjálsu landi og óumdeildir eru ýmsir þeir kostir sem minni samfélög sveita og bæja hafa upp á að bjóða. Fjöldi fólks hefur enda áhuga á að njóta þeirra kosta. Við eigum að leggja stolt okkar í að möguleikarnir séu sem opnastir fyrir þá sem það vilja gera. Það skiptir máli fyrir þjóðina í heild.
Hins vegar eru oft deildar meiningar þegar rætt er um byggðamál. Þeir sem búa á landsbyggðinni gagnrýna oft á tíðum vaxandi skilningsleysi höfuðborgarbúa á aðstæðum þeirra sem búa í dreifðum byggðum. Þetta endurspeglast m.a. í umræðu um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar og forgangsröðun ýmissa samgönguverkefna. Í opinberri umræðu er það einnig gagnrýnt að landsbyggð annars vegar og höfuðborg hins vegar sé stillt upp sem andstæðum pólum með ólíka hagsmuni. Í ræðu sinni ræddi forsætisráðherra einmitt þessi viðfangsefni:
„Það er öllum í hag að byggðaskilyrði séu
góð um land allt. Þannig nýtast þeir
möguleikar sem búa í þjóðinni og
landinu best og það gagnast samfélaginu
öllu. Höfuðborgarbúar hafa af því ríka
hagsmuni ekki síður en þeir sem búa utan
borgarinnar.“
Það er svo sannarlega hægt að taka undir þessi orð forsætisráðherra. Bændasamtökin hafa ítrekað minnt á þau tækifæri sem eru til staðar til að auka matvælaframleiðslu á Íslandi. Til þess þurfum við að nýta með sjálfbærum hætti það landbúnaðarland sem aðgengilegt er um allt land. Ein af forsendum þess er að búseta í dreifbýli sé raunverulegur valkostur. Til þess þarf alvöru byggðastefnu. Vonandi er ræða forsætisráðherra upptaktur að aðgerðum í byggðamálum.
Landsmót hestamanna
Undirbúningur fyrir Landsmót hestamanna er nú á lokametrunum. Landsmót ehf., sem stendur að skipulagningu viðburðarins, er sameign Bændasamtakanna og Landssambands hestamannafélaga. Öflug markaðssetning hefur verið á mótinu undanfarið og miðar í forsölu hafa selst gríðarlega vel. Úrtökumót hafa verið haldin víða um land og ljóst að gríðarlegur fjöldi öflugra gæðinga er væntanlegur á mótið. Aldrei hafa fleiri kynbótahross unnið sér rétt til þátttöku á mótinu, en nú eru þau um 280. Ljóst er að ákvörðun fagráðs í hrossarækt um að setja sérstök lágmörk fyrir klárhross var skynsamleg og skýrir að hluta til þennan mikla fjölda. Enn fremur er það ljóst að mikil framför á sér stað í ræktun kynbótahrossa í landinu, en hluta aukningarinnar má vafalaust rekja til markviss kynbótastarfs hrossabænda.
Allt bendir til þess að landsmótið á Gaddstaðaflötum við Hellu verði hið glæsilegasta og þegar hefur verið greint frá því að mótsstjóri hafi náð samningum um gott veður þegar mótið fer fram. Landsmót hestamanna er í senn uppskeruhátíð hrossaræktenda og hestamanna um allt land og er óhætt að segja að þar finni allir eitthvað við sitt hæfi. Við viljum hvetja sem flesta til að láta sjá sig á mótinu, sem stendur frá 30. júní til 6. júlí. Sú sérstaða sem íslenski hesturinn hefur á heimsvísu gerir það að verkum að Landsmót hestamanna er ekkert annað en heimsviðburður – haldinn í íslenskri sveit.