Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Gömul og ný umræða um starfsskilyrði bænda
Leiðari 10. mars 2016

Gömul og ný umræða um starfsskilyrði bænda

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson

Nú standa yfir kynningarfundir um búvörusamninga. Búið er að skipuleggja 19 fundi um land allt til að fara yfir innihald samninganna og möguleg áhrif þeirra í sveitunum. Rammasamningurinn hefur þegar verið samþykktur á nýafstöðnu búnaðarþingi og garðyrkjusamningur á vettvangi Sambands garðyrkjubænda.

Atkvæðagreiðsla stendur yfir um samningana um starfsskilyrði nautgripa- og sauðfjárræktar. Hún stendur til 17. mars og ástæða til að hvetja þá sem hafa kosningarétt um samningana til að nýta hann. Það hefur mikla þýðingu fyrir samningana í heild að þátttaka í atkvæðagreiðslunni sé góð.

Stuðningur við landbúnað á sér langa sögu hérlendis. Árið 1943 hófust niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum. Þær voru liður í að draga úr verðbólgu, en einnig að tryggja bændum viðlíka laun og sambærilegar stéttir þjóðfé- lagsins höfðu. Landbúnaðarvörur höfðu hækkað í verði ári fyrr sem olli mikilli óánægju í samfélaginu og leiddi til verkfalla. Á þessum árum voru laun að miklu leyti verðtryggð og full verðlagsuppbót greidd á laun mánaðarlega samkvæmt vísitölu framfærslukostnaðar. Það var því sameiginlegur hagur stjórnvalda og neytenda að niðurgreiða búvörur til að halda niðri vísitölu og verðbólgu.

Bændur hafa lagt sitt af mörkum

Bændur voru á þessum tíma reiðubúnir til að ganga nokkuð langt til að böndum yrði komið á verðbólguna. Búnaðarþing samþykkti þannig árið 1944 að gefa eftir 9,4% hækkun á landbúnaðarafurðum sem átti að leggjast á lögum samkvæmt. Var sú ákvörðun tekin í trausti þess að fleiri tækju þátt í viðlíka aðgerðum, líkt og síðar gerðist í Þjóðarsáttinni árið 1990. Sú varð ekki raunin sem olli mikilli gremju meðal bænda. Þá er einnig mikilvægt að halda því til haga að við bændur lögðum okkar af mörkum við að koma koma þjóðinni í gegnum það erfiða ástand sem efnahagshrunið árið 2008 leiddi af sér. Annars vegar voru búvörusamningar teknir upp og hafði í för með sér niðurskurð framlaga, sem hjálpaði ríkissjóði að koma aftur undir sig fótunum. Hins vegar hækkaði verð á íslenskum landbúnað- arafurðum mun minna en á öðrum vörum og hélt þannig aftur af verðbólgunni. Bændur hafa þannig, á ólíkum tímum, tekið virkan þátt í að bæta kjör landsmanna til viðbótar við að standa undir matvælaframleiðslu í landinu.

Miklar breytingar

Ótrúlegar breytingar hafa orðið á stuðningskerfi landbúnaðarins frá því að menn lögðu upp í vegferðina 1943. Hins vegar sækir oft að manni sú hugsun þegar hlustað er á marga gagnrýnendur landbúnaðarins að þeir séu ekki að gagnrýna landbúnað í íslenskum samtíma heldur þeirra ímynd á því hvernig landbúnaður var fyrr á árum og varpa þeirri ímynd inn í okkar samtíma. Staðreyndin er sú að gríðarlegar breytingar hafa orðið á íslenskum landbúnaði, innviðum hans, stuðningsumhverfi og viðskiptum við útlönd á liðnum áratugum.

Útgjöld til landbúnaðar hafa snarlækkað

Samkvæmt skýrslum OECD hafa útgjöld til landbúnaðar á Íslandi lækkað úr 5% af landsframleiðslu á tímabilinu 1986–88 niður í 1,1% á tímabilinu 2012–14. Þarna er átt bæði við bein fjárframlög úr ríkissjóði og tollvernd eins og OECD metur verðgildi hennar á hverjum tíma.

Beinn stuðningur er nú tæpir 13 milljarðar króna á ári. Metið verðgildi markaðsverndar eru rúmir 8 milljarðar til viðbótar. Værum við enn í 5% af landsframleiðslu eins og fyrir 25 árum væri samtalan tæpir 100 milljarðar. Það skal því enginn segja að ekkert hafi breyst. Og breytingarnar halda áfram. Í nýju búvörusamningunum er áherslum breytt og í sumum tilvikum koma inn fjármunir til nýrra verkefna. Hins vegar er líka hagræðingarkrafa á samningnum sem er um 8% á samningstímanum. Það þýðir að allar greiðslur lækka í þrepum á samningstímanum og verða svipaðar í lokin og þær eru á þessu ári.

Mikill velvilji í garð landbúnaðarins

Það er sjálfsagt og eðlilegt að rætt sé í samfé- laginu um stuðninginn, hvernig honum á að vera háttað og hvað við viljum draga fram með honum. Sú umræða þarf þó að fara fram með sanngjörnum hætti. Það verður að fara yfir þá sögu sem að baki liggur og þær breytingar sem þegar hafa átt sér stað. Það er varla til sá staður í veröldinni þar sem að stjórnvöld hlutast ekki á einhvern hátt til um landbúnað, með stuðningi, verndaraðgerðum eða hvoru tveggja. Svo er einnig raunin hér. Landbúnaðurinn nýtur mikils og almenns stuðnings meðal landsmanna. Þegar það hefur verið mælt í könnunum hefur það komið skýrt fram. Nú eins og áður þýðir það ekki andstöðu við breytingar. Við höfum breyst og munum halda því áfram, en við skulum ganga að því verki með opin augu.

Breytingarnar sem nú hefur verið samið um snúast um að gera stuðninginn fjölbreyttari og almennari um leið og ætlunin er að létta kostnaði af landbúnaðinum við kaup á framleiðslurétti eða stuðningi. Slíkar breytingar koma vissulega misjafnlega við þá sem nú starfa í greininni, en ég tel að samningarnir séu sanngjörn málamiðlun sem sé líkleg til að skila landbúnaðinum fram á veginn.

Að loknu búnaðarþingi

Búnaðarþingi lauk í síðustu viku. Þingið sam- þykkti fjölmargar ályktanir. Meðal annars um umhverfisstefnu landbúnaðarins og kolefnisjöfnun búskapar. Þar er gert ráð fyrir frekari stefnumótun. Landnýting kom einnig til umfjöllunar með öðrum hætti. Samþykktar voru ályktanir um lagningu raflína, verndun ræktarlands, nýtingu jarðeigna ríkisins og fjallskil svo dæmi séu nefnd. Þá var einnig fjallað um merkingar búvara, landbúnaðarháskóla, smitvarnir og innflutning á hráu kjöti. Talsvert var einnig fjallað um innviði hinna dreifðu byggða eins og undanfarin ár. Samþykktirnar má kynna sér nánar hér í blaðinu og á bondi.is.

Allnokkrar breytingar urðu á stjórn samtakanna, en stjórnarmönnum var fækkað úr sjö í fimm. Um leið og ég þakka stuðninginn til áframhaldandi formennsku í samtökunum vil ég um leið þakka fráfarandi stjórnarmönnum og bjóða nýja velkomna. Búnaðarþing verður nú haldið annað hvert ár, þannig að næsta þing verður 2018. Næsta ár verður ársfundur BÍ sem verður dagsfundur með talsvert öðru sniði en búnaðarþing.

Kjöt og kosningar
Leiðari 22. nóvember 2024

Kjöt og kosningar

Eftir nokkra daga mun þjóðin velja þá sem sitja á Alþingi næstu fjögur ár. Kosni...

Lágmarkskröfurnar
Leiðari 11. október 2024

Lágmarkskröfurnar

Tíunda grein laga um velferð dýra fjallar um getu, hæfni og ábyrgð umsjónarmanna...

Að vernda landbúnaðarland
Leiðari 1. október 2024

Að vernda landbúnaðarland

Margir tengja Hornafjörð við kartöflur enda eru þar mikil og góð ræktarsvæði sem...

Áhrifavaldið
Leiðari 30. ágúst 2024

Áhrifavaldið

Svo bar til tíðinda í síðustu viku að gúrkuskortur í matvöruverslunum á Íslandi ...

Slök frammistaða
Leiðari 16. ágúst 2024

Slök frammistaða

Í þessu tölublaði Bændablaðsins er fjallað um stóran rekstrarþátt ylræktarframle...

Skín við sólu Skagafjörður
Leiðari 11. júlí 2024

Skín við sólu Skagafjörður

Eftirfarandi línur úr fyrsta erindi hins tilkomumikla ljóðs Matthíasar Jochumsso...

Af íslenskum matjurtum
Leiðari 27. júní 2024

Af íslenskum matjurtum

Tíminn er núna til að taka forskot á sæluna og leita uppi brakandi ferskar íslen...

Veðuröfl
Leiðari 13. júní 2024

Veðuröfl

Margt hefur verið að frétta í íslensku samfélagi að undanförnu. Forsetakosningar...