Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
OECD og landnýting
Leiðari 16. september 2014

OECD og landnýting

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson

Nýlega er komin út skýrsla Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um stöðu umhverfismála á Íslandi. Í skýrslunni má finna margar ágætar ábendingar um málaflokkinn hérlendis. Bent er á að landsmenn búi við einstakar náttúrulegar aðstæður, hlutfall endurnýjanlegrar orku sé hvergi hærra innan OECD og sífellt fleiri vilja sækja landið heim eins og við þekkjum. Þá lofar OECD auðlindastefnu landsins þ.e. stjórn fiskveiða og orkunýtingarstefnuna sem felst í rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Hins vegar er líka nefnt að mikill fjöldi ferðamanna geti valdið miklu álagi á náttúruna. Þá er talin vera of mikil áhersla á iðnað sem byggist á ódýrri orku. Hvorutveggja verði að stýra skynsamlega á komandi árum ef ekki á að hljótast tjón af. Þá er einnig nefnt að stjórnsýsla sé of veikburða og of fjárvana til að fylgja eftir umhverfisreglum með fullnægjandi hætti, t.d. á sviði fráveitumála. Athygli er jafnframt vakin á fáum valkostum landsmanna í samgöngumálum að frátöldum einkabílnum. Allt þetta eru mikilvæg mál sem eiga skilið vandaða umræðu.

Stuðningskerfi landbúnaðarins hvetur ekki til ofbeitar

Helst hefur þó vakið athygli gamalkunnur frasi um ofbeit og landeyðingu. Talað er um að stuðningskerfi landbúnaðarins hvetji til ofbeitar. Bæði Fréttablaðið og Morgunblaðið hafa tekið þann punkt upp og m.a. rætt við Landgræðslustjóra þar sem hann tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í skýrslunni. Hann heldur þar fram að landnýting sé ekki sjálfbær og að bændur séu hvattir með styrkjum til að hafa sem flest fé í stað þess að horfa til afurðanna. Það kallar hann „hausatölubúskap“.

Við þetta verður að gera athugasemdir. Fyrir það fyrsta fer Landgræðslan með eftirlit með landnýtingu hjá þeim sem taka þátt í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu fyrir hönd Matvælastofnunar.  Hafi því eftirliti ekki verið nægilega sinnt undanfarin ár hittir það Landgræðsluna sjálfa fyrir.   Reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu var endurskoðuð í fyrra og ný reglugerð tók gildi í ársbyrjun 2014. Framangreind endurskoðun hófst að frumkvæði bænda. Atvinnuvegaráðuneytið hafði fullt samráð við Landgræðsluna í þeirri vinnu og stofnunin hafði mikil áhrif á ákvæði um landnýtingu í hinni nýju reglugerð. Það er á ábyrgð stofnunarinnar að fylgja þeim eftir.

Landgræðslustjóri kýs síðan að drepa málinu á dreif með því að vitna til þeirra deilna sem hafa staðið um afréttinn Almenninga sem lesendur Bændablaðsins þekkja vel. Í því máli hafa þeir fjáreigendur sem eiga upprekstrarrétt farið alfarið að lögum. Samningur um friðun rann út og farið var fram á ítölu. Niðurstaða hennar varð að beita mætti 50 lambám á svæðinu og það hefur verið gert í tvö sumur. Úrskurðar yfirítölunefndar er enn beðið, en á meðan gildir fyrri ákvörðun. Svo einfalt er það.

Ekki eru færð rök fyrir því að styrkjakerfið hvetji til fjölgunar sauðfjár. Framleiðsla hefur aukist undanfarin ár en það er vegna þess að afurðir eftir hverja kind hafa aukist. Fjölgun fjár frá 2008–2013 er tæp 3% en framleiðsluaukning er tæp 11%. Afurðaaukning á hvern grip er því tæp 8% á tímabilinu. 

Opinber stuðningur er föst fjárhæð í fjárlögum

Allar opinberar greiðslur til sauðfjárræktarinnar eru fastar fjárhæðir í fjárlögum. Aukin framleiðsla þýðir því einfaldlega að þær dreifast meira. Bændur geta því ekki náð sér í fleiri krónur í opinbera styrki með því einu að fjölga fé. Fjölgun fjár hefur líka kostnað í för með sér og aðstæður til þess eru einfaldlega misjafnar hjá einstökum bændum og á einstökum landsvæðum. Heilmikil tækifæri eru fólgin í sauðfjárræktinni og víða getur verið hagfellt að fjölga, en annnars staðar síður. Þar gildir ekkert eitt svar, en það er ekki hægt að halda því fram að styrkjakerfið hvetji til fjölgunar.

Á hvaða gögnum byggist OECD?

Hvað varðar skýrslu OECD hefði stofnunin þurft nýrri gögn til stuðnings því sem haldið er fram.  Ályktanir þeirra byggjast m.a. á gömlum heimildum frá því á 9. og 10. áratug síðustu aldar.  Í umfjöllun um áhrif ferðamanna á landið er til dæmist byggt á nýrri rannsóknum.

Rannsóknirnar sem vitnað er til skulu ekki dregnar í efa hér, en aðstæður hafa breyst frá því þær voru gerðar. Landgræðslustjóri hefur sjálfur sagt að nú grær landið hraðar upp en það eyðist. Það er rétt hjá honum. Við viljum halda áfram á þeirri braut og því hlýtur að þurfa að meta stöðuna upp á nýtt m.a.í ljósi þeirrar miklu fækkunar fjár sem orðið hefur síðustu áratugi. Þá þarf að taka tillit til þess að fyrr á árum var sauðfé beitt úti á vetrum sem skapaði oft verulegt álag á landið. Slíkt er liðin tíð.

Hundruð bænda stunda landgræðslu

Um 600 bændur um allt land starfa innan raða verkefnisins „Bændur græða landið“ í samvinnu við Landgræðsluna. Að auki stunda bændur ýmis uppgræðslustörf og jarðabætur á sínum bújörðum sem ekki eru innan verkefnisins. Bændur eru hvað fjölmennastir við landgræðslu og það skiptir verulegu máli að svo verði áfram.

Ég er þess fullviss að bændur vilja vinna áfram með Landgræðslunni að landbótum og uppgræðsluverkefnum, því þeir eiga auðvitað allt sitt undir því að geta nýtt landið til framtíðar litið. Órökstuddar fullyrðingar um stöðu þessara mála eru óheppilegar og draga athyglina frá því sem máli skiptir – að halda áfram að græða upp landið. 

Skín við sólu Skagafjörður
Leiðari 11. júlí 2024

Skín við sólu Skagafjörður

Eftirfarandi línur úr fyrsta erindi hins tilkomumikla ljóðs Matthíasar Jochumsso...

Af íslenskum matjurtum
Leiðari 27. júní 2024

Af íslenskum matjurtum

Tíminn er núna til að taka forskot á sæluna og leita uppi brakandi ferskar íslen...

Veðuröfl
Leiðari 13. júní 2024

Veðuröfl

Margt hefur verið að frétta í íslensku samfélagi að undanförnu. Forsetakosningar...

Kolviður hlýtur alþjóðlega viðurkenningu
Leiðari 4. júní 2024

Kolviður hlýtur alþjóðlega viðurkenningu

Kolviður hefur unnið að því sl. tvö ár að skilgreina verkferla og verkefni samkv...

Stuðningskerfi framtíðar
Leiðari 30. maí 2024

Stuðningskerfi framtíðar

Núverandi búvörusamningar gilda til og með 31. desember 2026. Því ætti nýtt stuð...

Að fletta blaðinu
Leiðari 16. maí 2024

Að fletta blaðinu

Nýlega bárust okkur gleðifregnir um magnaða ljósmynd. Forsíðumynd Sigurðar Más H...

Sérmerktar svínavörur
Leiðari 24. apríl 2024

Sérmerktar svínavörur

Neytendur eru alltaf að verða meðvitaðri og ábyrgari við vöruval. Þó að verðmiði...

Orð eru til alls fyrst
Leiðari 12. apríl 2024

Orð eru til alls fyrst

Góður fjölmiðill dregur saman upplýsingar, kemur á framfæri ólíkum sjónarmiðum, ...