Þýðing tolla og sóttvarna
Tollvernd er önnur af tveimur meginstoðum stuðnings við landbúnað, bæði hér á Íslandi og annars staðar í heiminum. Tilgangur tollverndar er að jafna stöðu innlendrar framleiðslu gagnvart innfluttri. Á Íslandi er hún meðal annars notuð til að styðja við fjölbreytta framleiðslu úr íslenskri sveit, þar sem hreinleiki umhverfisins er ótvíræður, sjúkdómar fáir og sýklalyfjanotkun þar af leiðandi í lágmarki, og skapar þýðingarmikil störf, ekki síst í dreifðum byggðum landsins.
Ekkert af þessu er sjálfgefið og byggir meðal annars á því að tollverndin sé fyrir hendi. Landnýting, fæðuöryggi og búseta eru þættir sem markaðshöft taka ekki á. Stjórn búvöruframleiðslu er til hagsbóta fyrir landsmenn alla og þarf að taka tillit til langtímahagsmuna og öryggissjónarmiða. Neytendur hafa margvíslegan ávinning af þessu fyrirkomulagi, sé því vel við haldið, en umræða af því tagi sem sjá hefur mátt í fjölmiðlum undanfarið er eðlileg og nauðsynleg.
Allar samanburðarþjóðir okkar beita tollvernd
Allar þjóðir sem við berum okkur saman við styðja eigin búvöruframleiðslu með tollvernd að meira eða minna leyti. Aðeins 10% af landbúnaðarframleiðslu heimsins eru seld á milli ríkja. Hin 90% eru til neyslu og vinnslu á heimamarkaði. Engin þjóð vill treysta alfarið á innflutt matvæli, enda sýnir reynsla annarra þjóða að slíkt leiðir á endanum til hærra verðs, þegar aðrir kostir en innflutningur eru ekki lengur í boði.
Stjórnvöld leggja tolla á innfluttar búvörur sem eru sambærilegar þeim sem framleiddar eru hér á landi. Einkum er um að ræða mjólkurvörur, kjötvörur og blóm. Einnig nýtur útiræktað grænmeti eins og gulrætur, gulrófur og kartöflur tollverndar þegar íslenska framleiðslan annar eftirspurn. Þegar íslenskar vörur eru ekki til eru erlendu vörurnar fluttar til landsins án tolla. Langflestar landbúnaðarvörur eru fluttar inn án tolla. Þetta á til dæmis við um allt hveiti og kornvörur, pasta, hrísgrjón, sykur, matarolíur, ávexti og stærstan hluta af innfluttu grænmeti.
Um það bil helmingur þeirra matvæla sem neytt er í landinu er fluttur inn. Til þess þarf gjaldeyristekjur á móti. Bændur hafa lengi bent á að það skipti máli að vernda innlenda matvælaframleiðslu með tilliti til fæðuöryggis þjóðarinnar. Til þess að innlenda framleiðslan geti staðið traustum fótum áfram er líka sjálfsagt og eðlilegt að beita tollvernd þar sem það hentar.
Um þessar mundir annar innlend framleiðsla ekki eftirspurn eftir nokkrum vörum sem njóta tollverndar. Það á einkum við um nautakjöt og svínasíður. Brugðist hefur verið við með því að gefa út tollkvóta þar sem flytja má inn ótakmarkað magn af framangreindum vörum á lágmarkstollum í ákveðinn tíma. Innflytjendur hafa spurt hvers vegna tollar falli ekki alfarið niður við þessar aðstæður. Sú spurning er eðlileg en svarið er á sama hátt einfalt:
Það er vilji stjórnvalda og bænda að hægt sé að svara þessari eftirspurn með innlendri framleiðslu. Til þess að svo megi verða þarf að fjárfesta í þessum greinum og forsenda fjárfestingar er að rekstrarumhverfið sé stöðugt. Hafa þarf í huga að framleiðsluferlar í landbúnaði eru langir og fjárfestingar sérhæfðar. Ef opnað er fyrir ótakmarkaðan tollfrjálsan innflutning á vörum sem við getum sinnt framleiðslu á hérlendis er ólíklegt að staðan breytist og við yrðum því líklega að treysta á innflutning á þessum vörum til frambúðar.
Í byrjun mars 2014 skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp til að fara yfir tollamál í landbúnaði. Hópnum er ætlað að gera grein fyrir helstu núgildandi samningum um viðskipti með landbúnaðarvörur og að greina þau sóknarfæri sem kunna að vera þar til staðar. Hópnum er ætlað að skila áliti í október næstkomandi og þá ættu að liggja fyrir gögn til að ræða málefnalega um skipulag þessara mála til framtíðar.
Ofnotkun sýklalyfja er alvarlegt vandamál við innflutning á kjöti
Verslunin sækir það jafnframt fast að fá að flytja inn hrátt kjöt. Ferskar kjötvörur, kjötvinnsla Haga, hefur meðal annars höfðað mál vegna þess. Íslensk stjórnvöld hafa sem betur fer staðið gegn því. Það er skiljanlegt (en ekki sérlega ábyrgt) að verslunin vilji fá að flytja meira inn, telji hún að það þjóni hagsmunum hennar best. Sérstaða íslenskrar framleiðslu er hins vegar enginn hræðsluáróður.
Ofnotkun sýklalyfja er vaxandi vandamál í landbúnaði víða um heim. Þá er sýklalyfjum blandað í dýrafóður og dýrin éta þau hvort sem þau eru sýkt eða ekki. Bakteríurnar sem sýklalyfjunum er ætlað að drepa verða smám saman ónæmar og berist þær í fólk duga venjuleg lyf ekki lengur.
Samkvæmt tölum frá Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC), sem danska blaðið Politiken vitnar til, má áætla að um 25.000 manns láti lífið árlega af völdum baktería sem eru ónæmar fyrir hefðbundnum sýklalyfjum – í Evrópu einni. Þetta erum við laus við hér.
Í nýrri sameiginlegri skýrslu frá Matvæla- og heilbrigðisstofnunum Sameinuðu þjóðanna (FAO og WHO) kemur jafnframt fram að sýkingar sem berist með kjöti séu alvarlegastar matarsýkinga og hafi mest neikvæð áhrif á lýðheilsu í þeim flokki. Það skiptir því verulegu máli að verjast þeim eins og kostur er.
Þegar tekið er til varna fyrir tollvernd og sóttvarnir er það stundum kallað hræðsluáróður og sérhagsmunapot. En hvorttveggja skiptir verulegu máli og fyrir hvorutveggja eru sterk rök sem snúast um miklu meira en hagsmuni innlendra framleiðenda. Þetta veit þjóðin og þakka ber þann skilning sem landbúnaðurinn nýtur.