Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Traust og „chill“
Leiðari 20. júní 2022

Traust og „chill“

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Það hlýtur að heyra til undantekninga að landbúnaðarmiðaður prentmiðill sé sá stærsti meðal fréttamiðla hjá einni þjóð.

Guðrún Hulda Pálsdóttir

Lestrartölur sýna, svo ekki verður um villst, að Bændablaðið er leiðandi miðill sem lesinn er um allt land, í reynd sá víðlesnasti á landsbyggðinni og í öðru sæti yfir mest lesnu prentmiðla á landsvísu. Lesturinn hefur aukist verulega innan borgarmarkanna, svo að Vesturbæingar jafnt sem Vestfirðingar virðast skófla efni blaðsins í sig.

Varla er hægt að nefna starfsvettvang sinn án þess að lenda í stórskemmtilegum og vel þegnum samræðum um hið mæta Bændablað.

Þetta kemur ekki af sjálfu sér. Inntak og ímynd blaðsins byggir á mannauðinum sem að því stendur og Bændablaðið hefur verið svo heppið að hafa sannkallaða hamhleypu í brúnni. Það er mikill sjónarsviptir af Herði okkar Kristjánssyni í starfsmannahópnum. Hann hefur haldið vel utan um okkur sem hér vinnum, verið bæði fyrirmyndarleiðtogi og traustur vinur. En um leið og hann er yfirmáta dagfarsprúður þá gegnir öðru máli við ritstörfin; hann mundaði skarpan penna og tókst gjarnan að varpa einstakri sýn á málefni með slíkum hætti að fáir gátu leikið það eftir.

Í viðtali hér í blaðinu segist Hörður hafa lagt mest upp úr því að beita gagnrýninni hugsun á öll viðfangsefni og umfram allt að vera heiðarlegur og segja fólki sannleikann með skrifum sínum og efnistökum.

„Ég hef forðast að elta skrif annarra fjölmiðla og upplýsa frekar um áhugaverða hluti sem aðrir leggja sig ekki eftir, eða nenna ekki að sinna. Ég held að þetta sé lykillinn að velgengni Bændablaðsins undanfarin ár. Slíkt gerist þó ekki nema að allt starfsfólkið rói í sömu átt,“ segir Hörður.

Það er varla hægt að fylla í fótspor Harðar. Í ræðu minni í kveðjuhófi fráfarandi ritstjóra óskaði ég eftir áskrift að „chillpillunni“ sem hann virðist eiga botnlausan forða af. En við vinnslu á þessu fyrsta blaði mínu sem ritstjóri þá átta ég mig á að „pillan“ er í raun það frábæra fólk sem vinnur hér á blaðinu.

Á undanförnum árum hefur Bændablaðið leitt umræður um brýn málefni sem varða okkur öll. Hér má nefna fæðuöryggi í landinu, orkumál, umhverfis- og auðlindamál sem og heilbrigðisógnina sem fylgir sýklalyfjaónæmi. Lengi vel var blaðið nær eitt um að fjalla um þessi viðfangsefni af þekkingu og gagnrýni. En allt eru þetta mál sem hafa á síðustu misserum komist í sviðsljós almennrar fjölmiðlaumræðu og ekki að ósekju. Þetta eru mál málanna. Þau tengjast grunnþáttum lífsins og lífsgæða okkar. Þetta eru málefni sem allir ættu að láta sig varða.

Auðmjúk tek ég því við starfi Harðar og mun af heilindum vinna að því að halda áfram á þeirri vegferð sem hann hefur leitt í yfir áratug.

Við munum halda áfram að fjalla um grunnstoðir samfélagsins á gagnrýninn hátt, byggja upplýsingar á okkar trausta þekkingarbrunni og leitast eftir því að varpa skýrri og skiljanlegri sýn á fjölbreytt efnistök okkar. Ætlun okkar er að stunda áfram metnaðarfulla upplýsingagjöf sem mark er á takandi og tilgangurinn er ávallt að lesandi Bændablaðsins geti myndað sér upplýsta skoðun að lestri loknum.

Skín við sólu Skagafjörður
Leiðari 11. júlí 2024

Skín við sólu Skagafjörður

Eftirfarandi línur úr fyrsta erindi hins tilkomumikla ljóðs Matthíasar Jochumsso...

Af íslenskum matjurtum
Leiðari 27. júní 2024

Af íslenskum matjurtum

Tíminn er núna til að taka forskot á sæluna og leita uppi brakandi ferskar íslen...

Veðuröfl
Leiðari 13. júní 2024

Veðuröfl

Margt hefur verið að frétta í íslensku samfélagi að undanförnu. Forsetakosningar...

Kolviður hlýtur alþjóðlega viðurkenningu
Leiðari 4. júní 2024

Kolviður hlýtur alþjóðlega viðurkenningu

Kolviður hefur unnið að því sl. tvö ár að skilgreina verkferla og verkefni samkv...

Stuðningskerfi framtíðar
Leiðari 30. maí 2024

Stuðningskerfi framtíðar

Núverandi búvörusamningar gilda til og með 31. desember 2026. Því ætti nýtt stuð...

Að fletta blaðinu
Leiðari 16. maí 2024

Að fletta blaðinu

Nýlega bárust okkur gleðifregnir um magnaða ljósmynd. Forsíðumynd Sigurðar Más H...

Sérmerktar svínavörur
Leiðari 24. apríl 2024

Sérmerktar svínavörur

Neytendur eru alltaf að verða meðvitaðri og ábyrgari við vöruval. Þó að verðmiði...

Orð eru til alls fyrst
Leiðari 12. apríl 2024

Orð eru til alls fyrst

Góður fjölmiðill dregur saman upplýsingar, kemur á framfæri ólíkum sjónarmiðum, ...