Umræðan og veruleikinn
Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Stjórnmálalegu uppnámi síðustu vikna virðist ekki lokið þó að ríkisstjórn með nýrri forystu sé tekin til starfa. Hætt er við að það haldi áfram næstu vikur og mánuði ef birting gagna úr svokölluðum Panama-skjölum heldur áfram með sama hætti.
Fram hefur komið að í þessum gögnum séu nöfn um 600 Íslendinga og ekki er búið að fjalla um nema örfá þeirra enn sem komið er. Með þessum birtingarhraða getur málið verið til umfjöllunar næstu árin. Það er ekkert við það að athuga að þessi gögn séu birt og sagðar af þeim fréttir, en það er ekki til framfara fallið ef þau eiga að skyggja á öll önnur verkefni í samfélaginu á meðan.
Áhersla lögð á 76 þingmál
Ríkisstjórnin hefur birt lista yfir þingmál sem hún leggur áherslu á að koma fram fyrir boðaðar kosningar síðar á árinu. Á honum eru alls 76 mál. Þar á meðal er frumvarp um búvörusamningana, en einnig frumvarp til breytinga á lögum um búnaðargjald þar sem gjaldið verður væntanlega lagt af. Þá er einnig á listanum tillaga til þingsályktunar um fullgildingu hins svokallaða tollasamnings Íslands og Evrópusambandsins. Við hann eru bændur ekki sáttir.
Um þessar mundir er að störfum vinnuhópur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem ætlað er að meta áhrif samningsins og samhliða einnig áhrif nýrra aðbúnaðarkrafna. Hópurinn á að skila niðurstöðum sínum fyrir 1. júní næstkomandi, en þau gögn sem þegar liggja fyrir benda til þess að kostnaður vegna samningsins og aðbúnaðarkrafna skipti milljörðum. Bændur eru alls ekki ósáttir við hertar aðbúnaðarkröfur, en á sama tíma er mikilvægt að allir skilji að breytingar vegna þeirra kosta mikla fjármuni. Af þeim sökum er sérkennilegt og ósanngjarnt að draga um leið úr tollvernd og þrýsta á um enn frekari lækkun afurða.
Verðlag í takt við lífskjör
Þeir sem gagnrýna landbúnaðinn binda sig gjarnan við einn þátt þegar um hann er rætt, það er að segja verðið. Óljóst er oftast við hvaða verð er verið að miða. Verðlag í einstökum löndum, til dæmis í Evrópu, er einfaldlega í samhengi við almenn lífskjör í viðkomandi löndum. Verðlag hérlendis er fremur hátt miðað við mörg önnur lönd en það er svipað og í löndunum sem við berum okkur saman við. Í desember var matarverð á Íslandi í 8. sæti í Evrópu samkvæmt gögnum Evrópusambandsins en var um leið það lægsta á Norðurlöndunum. Þetta benti Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur BÍ, á í grein í Morgunblaðinu fyrir skömmu. Arnar Árnason, formaður Landssambands kúabænda, skrifaði einnig grein á naut.is um samhengi launa og verðlags þann 25. apríl þar sem hann spyr hvort allir vilji ekki norsk laun og grískt verðlag. Auðvitað væru allir til í það en samhengi hlutanna verður einfaldlega ekki rofið. Ef þú vilt gríska verðlagið verður þú líka að sætta þig við grísku launin og öfugt.
Einstök náttúra
Allt eru þetta hlutir sem margoft hefur verið bent á áður og mun vafalítið þurfa að gera áfram. Spurningin er hins vegar hvort að umræðan þurfi ekki á því að halda að komast upp úr þeim farvegi að einungis sé horft með rörsýn á verðið. Því verður ekki á móti mælt að hér á Íslandi verða seint framleiddar ódýrustu búvörur í heimi.
Landið er fámennt en á sama tíma stórt og dreifbýlt og náttúran er stundum óblíð. En framleiðsluaðstæður okkar eru hins vegar eftirsóknarverðar Við eigum nóg af hreinu vatni og verulegt landrými. Náttúran getur jú verið erfið en hún er líka einstök – eins og við getum best séð á öllu því fólki sem vill koma og skoða hana. Afurðirnar okkar búa yfir sögu sem geymir fjölmörg tækifæri og kannski þurfum við einmitt að fara að horfa meira til hennar heldur en bara þess að selja magafylli.
Sérstaða Íslands varðandi litla sýklalyfjanotkun
Því til viðbótar notum við óverulegt magn af sýklalyfjum og varnarefnum. Ofnotkun sýklalyfja í landbúnaði er mikið vandamál um allan heim og ónæmið sem skapast hefur í kjölfarið verið kallað stærsta heilbrigðisógn 21. aldarinnar. Þetta er sérstaða sem hefur mikla þýðingu. Landbúnaður víða um heim hefur notað sýklalyf í óhófi til að auka framleiðni og lækka verð með fyrrgreindum afleiðingum. Þær landbúnaðarvörur sem fluttar eru inn nú þegar eru ekki merktar með tilliti til sýklalyfjanotkunar eða annarra framleiðsluaðstæðna svo sem aðbúnaðar starfsfólksins sem starfar við framleiðsluna, eða aðbúnaðar dýranna ef um dýraafurðir er að ræða. Þetta eru mál sem sumir neytendur hafa látið til sín taka en það sést ekki mikið til heildarsamtaka þeirra á þessu sviði, þó full ástæða væri til.
Aukin umhverfisvitund
Til viðbótar er einnig ástæða til að ræða umhverfisáhrifin. Landbúnaður hefur umhverfisáhrif hér sem annars staðar og Bændasamtökin hafa nýverið skrifað undir samkomulag um að vinna að vegvísi til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði. En umhverfismeðvitaðir neytendur eru margir hverjir farnir að spyrja hvað varan sem þeir kaupa er flutt um langan veg áður en hún kemst á borð til þeirra.
Fyrir skömmu var viðtal við hérlendan umhverfisfræðing sem setti sér það markmið að draga úr umhverfisfótspori sínu. Hann gerði fjölmargt í því skyni, m.a. lagði einkabílnum en hugsaði líka út í það hvort þær vörur sem hann keypti væru framleiddar sem næst markaðnum, en ekki fluttar um langan veg með tilheyrandi umhverfisáhrifum. Þetta skiptir okkur líka máli.
Mér dettur ekki í hug að halda því fram að verð eigi ekki að hafa þýðingu í umræðu um þessi mál. En þá má einfaldlega ekki einblína á það í samfélagi 21. aldarinnar.