Bændur! Berjist fyrir lífsstarfi ykkar
Höfundur: Guðni Ágústsson
„Ræfildómur að reyna ekki að halda landinu hreinu.“ Þessi orð mælti Margrét Guðnadóttir, læknir og veirufræðingur, fyrsta konan sem gegndi prófessorsstarfi við Háskóla Íslands. Þarna er hún að ræða um veirur og sjúkdóma, sem drepa bæði fólk og fénað um allan heim. Hún var einnig í þessari setningu að minna okkur Íslendinga á að við búum í matvælaparadís.
Nú virðast margir þeir, sem ferðinni ráða, hafa orðið viðskila við dómgreind sína, og láta margt eftir hagsmunaöflum, sem virða ekki sérstöðu landbúnaðarins. Nefna má hrátt erlent kjöt og stórar tollaniðurfellingar á því og mörgu fleiru, eggjum, ostum. Og ekki síður þá þjónkun landbúnaðarráðherra að ætla að fella niður tolla af nýsjálenskum lambahryggjum í sumar. En þá laut hann í lægra haldi og var rekinn til baka, þar sem forsætisráðherra stöðvaði hann og handjárnaði að kröfu Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra. Hálendisþjóðgarðurinn birtist nú sem nýtt sáttarof við bændur, sveitarstjórnir og landsbyggðina.
Það sem snýr að stjórnsýslu og félagslegri umgjörð landbúnaðarins er í dag sundurhöggvið og hefur gengið í gegnum sársaukafullar breytingar, allt frá því að ákveðið var að setja landbúnaðarráðuneytið í skúffu í sjávarútvegsráðuneytinu árið 2007. Í fyrstu voru þar áfram menn með þekkingu á landbúnaðarmálum. Og segja má að markvisst hafi þekkingunni verið útvistað. Gott dæmi er að Sigurgeir Þorgeirsson, ráðunautur og bændaforingi, var árið 2007 gerður að ráðuneytisstjóra, en bændur trúðu að sameining ráðuneytanna gengi upp vegna þessa. Sigurgeir er nú sjávarútvegsmegin í feitum makríl en ekki hrútum!
Síðar tók ráðuneytið risastökk með því að setja einn ráðuneytisstjóra, Kristján Skarphéðinsson, yfir mörg verkefni ráðuneyta og látinn þjóna tveimur ráðherrum. Verkefnum landbúnaðarins var sundrað árið 2007 og þau sett hér og þar niður í ráðuneytum þar sem þau eiga ekki heima. Verkefni í vísindum og rannsóknum landbúnaðarins heyra nú nánast sögunni til. Segja má að landbúnaðarráðuneytið sé án ráðherra. Og bændur verða að skipa sínum samtökum í nýjan farveg svipað og sjávarútvegurinn hefur gert. „Samtök félaga og fyrirtækja í landbúnaði“ verða að koma til.
Kristján Þór og Kristján hinn
Bændasamtökin eru fjárvana og illa komin félagslega. Sigurgeir Sindri, fyrrverandi formaður Bændasamtaka Íslands (BÍ), er flúinn og Guðrún Tryggvadóttir, nýr formaður, stendur við gaflaðið og má sig ekki hræra. Sigurði Eyþórssyni, framkvæmdastjóra BÍ, er falið að annast útför Bændasamtakanna. Bændur eiga aðeins eina leið færa og það er að berjast fyrir lífi sínu og sveitanna og sækja hart að stjórnmálamönnum og flokkunum. „Barinn bóndi (þræll) er mikill maður, því í hans brjósti á frelsið heima.“
Loksins þegar Kristján Þór og Kristján hinn fóru að skammast sín, fyrir að allir væru burtu reknir sem höfðu landbúnað á sinni könnu landbúnaðarmegin í ráðuneytinu, þá gripu þeir til óyndisúrræðis í haust. Þeir fengu lögum breytt til að færa Búnaðarstofu, sem ólöglega var áður sett undir MAST. Nú færðu þeir Búnaðarstofu inn í ráðuneytið og enn gleyptu þingmenn agnið. Þó fylgdi þessu skilyrt yfirlýsing atvinnuveganefndar Alþingis um „að Búnaðarstofa yrði sjálfstæð eining innan ráðuneytisins“. Þetta er síðan að engu haft.
Ráðherrann er nú kominn með eftirfarandi verkefni inn til sín:
„Framkvæmd í tengslum við búvörusamninga milli ríkis og bænda, umsýslu með öllum stuðningsgreiðslum til framleiðanda í landbúnaði og hagtölusöfnun í landbúnaði m.a. við undirbúning búvörusamninga og eftirfylgni á þeim.“
Hvar er nú hin umtalaða arms-lengd til ráðherrans?
Ráðherrann er orðinn gjaldkeri bænda. Hvert kæra menn?
Er það ekki æðsti réttur einstaklinga gagnvart stjórnsýslu, að geta kært úrskurði til ráðherra?
Hvað gerðu þeir Kristjánar svo við Búnaðarstofufólkið? Ekki fór það í landbúnaðarráðuneytið. Nei, það var sett inn á skrifstofu fjárlaga, reksturs og innri þróunar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.
Dómsmál blasa við
Öflugur lögfræðingur í stjórnsýslu sagði mér þetta um þessa ólögmætu ákvörðun:
„Það er ekki góð stjórnsýsla að mál einstaklinga (bænda) fái einungis meðferð á einu stjórnsýslustigi. Það þarf að vera til staðar æðra stjórnvald til að tryggja réttaröryggi.“
Svo er hitt enn ein niðurlægingin þegar ráðherra segist vera að styrkja landbúnaðarþekkingu ráðuneytisins en þá er Búnaðarstofufólkið haft utan gátta við landbúnaðarráðuneytið.Atvinnugreinin virðist ekki vera til í fræðum þeirra nafna. Búnaðarstofa átti alltaf að vera sjálfstæð stofnun milli bænda og ríkisins og hún á enn að vera það. Allt annað stangast á við lög.
Er vitlaust gefið og hagfræðin vanmetin?
Landbúnaðurinn er jafn mikilvægur og sjávarútvegurinn. Hann er byggðin og ferðamannaauðlindin og skapar matvælaöryggi okkar. Peningarnir drjúpa ekki í jafnríkum mæli af bændum og útgerðum. Sjórinn gefur um 130 milljarða króna í aflaverðmæti, en verðmæti landbúnaðarframleiðslunnar er um 60 milljarðar. Hins vegar er oftast talað um landbúnaðinn eins og hann skipti litlu máli í hagfræðinni. En í mati á verðmætum eru víddirnar margar. Sveitin er ímynd Íslands og byggðin og mannlífið þar er ný og gömul auðlind. Svo er það verðlagning afurða til bænda, sem virðist vera undir velsæmismörkum. Nefni ég sem dæmi að Færeyingar borga sínum bændum 100 kr. danskar fyrir kíló að lambakjöti, eða 1.890 kr. íslenskar. Á meðan fá okkar bændur aðeins 500 kr. fyrir kílóið af lambinu, sem við teljum besta lambakjöt heimsins. Mjólkin kostar út úr búð 175 kr. lítrinn hér, sem er sama verð og einn lítri af vatni kostar út úr búð.
Ríkisstjórnin hætti að níðast á bændum
Kæru bændur og búalið og vinir landbúnaðarins! Ég vel mér frekar að setja þessar staðreyndir á blað um niðurlægingu landbúnaðarins og eyðileggingu á umgjörð hans og hljóta fyrir ónot og skrokkskjóður heldur en að horfa á eyðilegginguna þegjandi lengur. Vinur er sá sem til vamms segir.
Ég hef gagnrýnt þessar breytingar frá upphafi. Taldi víst að ríkisstjórn SDG og B.Ben 2013 myndi snúa þessu við með SIJ í landbúnaðarmálum. Margt er hér ónefnt, sem hefði verið vert að nefna í þessum fáránleika. En hér verð ég að lokum að biðja og skora á foringja ríkisstjórnarflokkanna, þau Katrínu Jakobsdóttur, Sigurð Inga Jóhannsson og Bjarna Benediktsson, að setja þegar í gang vinnu á vegum ríkisstjórnarinnar og fara yfir þessa stöðu en flokkar þeirra allra hafa átt langa og farsæla sögu með bændum og staðið vörð um landbúnaðinn.
Guðni Ágústsson
fyrrverandi
landbúnaðarráðherra