Bændur þurfa líka að lifa! – Herhvöt ungu mannanna!
Höfundur: Guðni Ágústsson
„Enginn bóndi, enginn sjómaður, ekkert líf. Ísland er að verða eitt besta landbúnaðarland heimsins; ,,vitið þér það?“ Grasræktarland, rigningarland, kuldinn er auðlind, kalda og heita vatnið og búfjárstofnarnir fjársjóður. Ekkert eitur í móðurjörð. Minnsta pensilínnotkun í dýr í heiminum, ekkert pensilín í fóður.“
Svona hljómaði upphringingin frá vini í útlöndum þennan örlagaríka morgun. En það var venjulegur mánudagur í febrúar, vikan að byrja og ég er að aka yfir Hellisheiði í slyddu sem von bráðar mun breytast í rigningu.
Að hitta unga bændur
Síminn hringir og ég svara, heyri ungs manns rödd hinum megin, hann kynnir sig, Birgir Þór Haraldsson, bóndi á Kornsá í Vatnsdal. Erindið er að bjóða mér með sér síðdegis upp í hreppa og tungur að hitta unga bændur, sauðfjárbændur. Hann segist verða kominn á Selfoss klukkan sex, ég slæ til og segist bíða á gamla Bellubar, sem enn ber nafn Bellu vinkonu minnar frá Kjartansstöðum, sem lifir í hárri elli.
Bóndinn á Kornsá er barnungur sauðfjárbóndi og rennur blóðið til skyldunnar að berjast fyrir landbúnaði og bættum kjörum bænda. Hann segir að fyrst munum við aka upp að Götu í Hrunamannahreppi þar séu vaskir drengir að smíða, þeir Trausti Hjálmarsson í Austurhlíð og Rúnar Björn Guðmundsson á Vatnsleysu og þar muni bætast í hópinn Jón Bjarnason, hreppsnefndarmaður, galvaskur Sjálfstæðismaður af framsóknarkyni frá Seglbúðum og Skipholti ásamt Aðalsteini Orra Arasyni úr Skagafirði og af Vaðbrekkukyni.
Smiðirnir eru að ljúka störfum svo við tökum snarpan fund um stöðu landbúnaðarins og mikilvægi hans í matvælaframleiðslu landsins og fæðuöryggi.
Það liggur við að ungu mennirnir jarmi, svo mikill er áhugi þeirra á að reisa sauðfjárbúskapinn og landbúnaðinn úr félagslegri nauð eigin samtaka og hann verði ekki áfram niðursetningur í horni ríkisstjórnarinnar. Við tökum djarfa ákvörðun strax þarna í Götu, enda við hæfi þar sem Grímur Sæmundsen í Bláa Lóninu er eigandi viðburðahússins og sá hefur nú lyft grettistaki í ferðaþjónustunni.
Strákarnir verða sammála um slagorð fyrir uppreisnina og baráttuna; „Bændur verða líka að lifa.“
Þeir segja að það sé óboðlegt að borga aðeins 450 krónur til bóndans á kílóið af besta lambakjöti heimsins, sannkallaðri villibráð.
Lambakjöt er ekki „hænsnamatur á hundafati“ svo vitnað sé til orða þess merka manns Helga heitins Haraldssonar á Hrafnkelsstöðum. Bæði hryggur og lambalæri ættu að vera á pari við dýrustu nautasteik, segja þeir.
Trausti upplýsir að reiknað tap sauðfjárbænda út frá vísitölu séu sjö milljarðar á sjö árum, eða einn milljarður á ári. Úps, heyrist í smiðunum. Ég sting því upp á 750 kr. á kíló í haust og ekkert lamb í sláturhús fyrr en öll félögin hafi fallist á verðið.
Í Færeyjum fá bændur 1.890 kr. á kílóið hef ég eftir bóndanum í Kirkjubæ. Þeir halda að sláturleyfishafar og gömlu bændurnir verði þessu mótfallnir og verslunin brjáluð. Við verðum sammála um að þetta sé eins og hver önnur verkalýðsbarátta upp á líf og dauða og, „verður sé bóndinn launa sinna“, verðið er slegið 750 kr. á kíló.
Sauðkindin er félagsmálatröllið
Þá höldum við að Langholtskoti, þar stendur til að sóna gemlinga Unnsteins bónda, mættur er Gunnar Björnsson, bóndi á Sandfelli í Öxarfirði ásamt Rögnvaldi Leifssyni, ungum manni frá Leifsstöðum í sömu sveit.
Gunnar segir það sannkallaða skemmtiferð að koma suður og hitta bændur og sóna féð. Hann sér allt í galdratækinu hvenær lömbin komu undir upp á dag. Og þarna eru mættir Bjarni Valur Guðmundsson í Skipholti og Eiríkur Kristófersson á Grafarbakka, einn fjárflesti bóndinn í hreppnum.
Okkur er fagnað og Unnsteinn bóndi segir að mikil hamingja og félagslíf fylgi blessaðri sauðkindinni, hann finni það best eftir að hann tók fé aftur. Hann hafði fengið sér 16 gimbrar í haust og einn hrút. Útkoman er góð, ein geld allar hinar tvílembdar og aðeins ein einlembd. Fallegur kollóttur hrútur hefur misst tign sína, strax orðinn sauður því ræktunin gengur best séu hrútar ekki hafðir gamlir.
Við ræðum um ofeldi búfénaðarins, offeitar ær eru oftar geldar. Ofeldi borgar sig illa á mönnum og skepnum og Kári Stefánsson segir þetta vera heimsku.
Við drekkum kaffi undir myndinni af föður Unnsteins, Hermanni Sigurðssyni, á einum frægasta gæðingi Íslands, Blæ frá Langholtskoti. Við ræðum hvernig sauðfjárbyggðirnar eru að fara í eyði, jarðirnar falli út hver af annarri því lífskjörin séu ekki ungu fólki boðleg. Og þeir halda að það sé rétt hjá mér að Kínverjar kunni að byggja íslenskar sveitir í framtíðinni og flytja kjötið út um Finnafjörð.
Nú sé ástandið fyrir norðan ekki gott því þeirra gamli foringi sauðfjárbændanna, Jóhannes Sigfússon á Gunnarsstöðum og Fjóla kona hans, skipti rúmi sínu, hún sofi Ratklifsmegin en hann Íslandsmegin. Landið er á förum úr höndum bændanna. EES-samningurinn gaf enga undanþágu og nú er Ísland þetta náttúruundur þar sem auðjöfrar geta á einni nóttu keypt upp heilu héruðin, eins og Þistilfjörð,Vopnafjörð eða bara Hrunamannahreppinn.
Fálkinn er floginn af gaflinum
Næst er ferðinni heitið að Vatnsleysu til Rúnars bónda Guðmundssonar en hann hefur byggt eitt glæsilegasta fjárhúsið í landinu. Við göngum inn í helgidóminn, förum í bláa sokka á fæturna en setjum ekki upp bláu höndina, allt er snurfusað og fínt, ærnar fallegar og loftslagið heilnæmt eins og á besta hóteli. Strax vekur það athygli mína að fálkinn, merki Sjálfstæðisflokksins, er horfinn af gaflinum. En í þessu fjárhúsi var haldinn frægasti stjórnmálafundurinn fyrir síðustu kosningar, Bjarni Benediktsson stóð undir ránfuglinum og boðaði mönnum trú og bændum bjartsýni. Sá boðskapur og sú bjartsýni hefur því miður snúist upp í andhverfu sína því ríkisstjórnin hefur ekki reist merki bænda við og ráðherra málaflokksins er steingeldur.
Fálkinn er horfinn og það boðar eitthvað válegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn, nema eitthvað nýtt gerist, verði ærleg vakning. Niðurlægðin á stjórnsýslu landbúnaðarins hefur staðið frá 2007 og aldrei hafa ríkisstjórnir snúið til baka. Landbúnaðarráðuneytið er ekki til, því hefur verið lokað og félagskerfi landbúnaðarins er sundurhöggvið og lamað. Innviðirnir skaðaðir og eyðilagðir af mannavöldum, landbúnaðarráðuneytið, fagstofnanir landbúnaðarins og félagskerfið.
Í vaxandi mæli er verið að færa bændum í Evrópu vinnu íslenskra bænda í öllum búgreinum. Stórbóndinn á Vallá í Reykjavík, Geir Gunnar, segir; „að nú verði Íslendingar að draga strik í sandinn, stöðva undanhaldið eigi landbúnaðurinn að lifa af. Hér eigi stjórnmálamenn orðið heimsmet í eftirgjöf í innflutningi á landbúnaðarvörum sem engin önnur þjóð láti sér detta í hug. Og afríska svínapestin farin að leika Evrópu grátt.“
Riotinto gamli ræðir bæði við ríkisstjórn og Landsvirkjun um Álverið í Straumsvík. Bændur verða ekkert síður að taka sín mál upp við blessaða ríkisstjórnina. Líf bóndans og framtíð sveitanna krefst þess.
Aðalsteinn Orri Arason, Trausti Hjálmarsson, Guðni Ágústsson og Jón Bjarnason í fjárhúsunum í Austurhlíð.
Fjalldrottningin Guðrún Svanhvít
Að lokum var svo haldið að Austurhlíð til Trausta frænda míns Hjálmarssonar og Kristínar Magnúsdóttur, konu hans. Þær frænkur, Kristín og Guðrún Svanhvít Magnúsdóttir í Bræðratungu, koma svo til fundar síðar. Þær voru á fundi hestamanna þar sem reiðgarpurinn Hermann Árnason er með erindi um fjallaferðir og hvernig skuli ríða straumþung fljót.
Hann reið leið Flosa á Svínafelli norðan jökla á Þríhyrningshálsa í fyrra til brennunnar á Bergþórshvoli. Nákvæmlega það sem bændur verða að gera í sínum málum til að bjarga sveitunum og íslenskri matvælaframleiðslu og landbúnaðinum, ríða stórfljót, safna liði og berjast.
Matvælaöryggi er ekki bara fólgið í því að eiga nægan mat, það er líka að eiga matvæli sem eru holl í orðsins fyllstu merkingu, valda hvorki skaða í bráð eða lengd. Svo ekki sé minnst á kjötið sem býr til pensilínóþolið í mönnum og nú tröllríður hinum vestræna heimi. Eða búa við ógnvænlega dýrasjúkdóma sem fara oft eins og eldur í sinu um Evrópu.
Það verður fagnaðarfundur þegar þær stöllur bætast í hópinn. Guðrún Svanhvít, landsfræg eftir þáttinn í Silfrinu þar sem Egill Helgason varð eins og bráðið smjör, svo snörp var framganga hennar í þættinum í baráttunni fyrir frelsi fjallanna og afréttanna. En Lækna-Tómas var þar grátt leikinn því frasarnir frusu á vörum hans. En hann eins og umhvefisráðherrann, sem nú kallast Guðmundur góði, og fer um landið og helgar það eins og nafni sinn á Hólum forðum, þeir vilja nú launaða reglugerðarmenn, hliðverði og rukkara úr Reykjavík á afréttina.
Guðrún Svanhvít er fædd undir hálendisbrúninni á Kjóastöðum og faðir hennar einn af sextán systkinum, jafn mörgum og á Brúnastöðum, og oft finnst mér að við systkinin eigum þau sem hálfsystkini. Hún vitnaði í Sigríði í Brattholti sem bjargaði Gullfossi forðum frá gullgröfurunum en nú hefur rödd Guðrúnar og framganga vakið bændur til baráttu við að verja afréttina og þjóðlenduna. Við Birgir Þór á Kornsá hverfum svo til baka um miðja nótt glaðir í hjarta, enn er til fólk í sveitunum sem vill berjast og þolir ekki órétt, og alls ekki að bændur og landbúnaðurinn sé fótum troðinn.
„Ef æskan þér réttir örvandi hönd ertu á framtíðarvegi.“ Áfram bændur. Aðalsteinn Orri sendir mér kveðju morguninn eftir í anda hagyrðinganna frænda sinna og Jónasar Hallgrímssonar:
Dauft er í sveitum,
hnípin þjóð í vanda;
en lágum hlífir hulinn
verndarkraftur,
hreppunum, þar sem
Guðni sneri aftur.
Guðni Ágústsson