Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Líkanmynd, gefur til kynna mögulega ásýnd aðalvalkostar Blöndulínu 3, en gæti breyst að einhverju leyti við endanlega verkhönnun.  Ljósmyndin er tekin af Skagafjarðarvegi við afleggjara að Brúnastöðum. Horft er til norðvesturs. Fjarlægð í línu er 700 m.
Líkanmynd, gefur til kynna mögulega ásýnd aðalvalkostar Blöndulínu 3, en gæti breyst að einhverju leyti við endanlega verkhönnun. Ljósmyndin er tekin af Skagafjarðarvegi við afleggjara að Brúnastöðum. Horft er til norðvesturs. Fjarlægð í línu er 700 m.
Mynd / Landsnet
Lesendarýni 7. apríl 2022

Blöndulína 3 í bígerð

Höfundur: Landsnet

Landsnet undirbýr byggingu á rúmlega 100 km langri 220 kV raflínu, Blöndulínu 3, milli Blöndustöðvar og Akureyrar. Blöndulína er mikilvægur hlekkur í uppbyggingu meginflutningskerfi Íslands, sem felur í sér að tengja sterkari hluta kerfisins á Suðvesturlandi og veikari hluta þess á Norðausturlandi.

Aðalmarkmið framkvæmdar við Blöndulínu 3 er að bæta flutnings- og afhendingargetu til allra afhendingarstaða í meginflutningskerfi Íslands með endurnýjun byggðalínunnar. Að auki mun Blöndulína 3 tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi með því að bæta tengingar á milli virkjana í þeim landshlutum. Þá verður einnig hægt að bæta orkunýtingu í núverandi virkjunum sem tengjast meginflutningskerfinu á Norðurlandi.

Við mat á umhverfisáhrifum vegna Blöndulínu 3 var lögð áhersla á samanburð valkosta. Raunhæfir valkostir sem teknir voru til mats voru 18. Þeir komu til ýmist vegna ábendinga í samráðsferli, við tæknilegar greiningar eða við aðrar rannsóknir. Valkostirnir voru metnir og bornir saman með tilliti til áhrifa á helstu umhverfisþætti, t.d. gróðurfar, fuglalíf, landslag og ásýnd, fornleifar og ferðaþjónustu og útivist. Í þessu umhverfismati var að auki bætt við mati á áhrifum framkvæmdarinnar á landbúnað.

Línuleið Blöndulínu 3 fer að nokkuð stórum hluta um landbúnaðarsvæði og í undirbúningi umhverfismatsins komu snemma fram ýmsar spurningar frá bændum og landeigendum er vörðuðu möguleg áhrif framkvæmdarinnar á landbúnað.

Fram að þessu hefur umfjöllun og mat á áhrifum framkvæmda á landbúnað verið af skornum skammti og alla jafna ekki ráðist í sértækar rannsóknir á þessum þætti í umhverfismati.

Í ljósi ábendinga heimamanna á Blöndulínuleið og þess hve valkostir línunnar liggja víða um landbúnaðarsvæði tók Landsnet ákvörðun um að láta meta sérstaklega áhrif framkvæmdarinnar á landbúnaðarstarfsemi.  Til þess að vinna greiningu á grunnástandi og bera saman áhrif valkosta fékk Landsnet til liðs við sig Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), en þar var verkefninu sýndur mikill áhugi og tekist á við verkefnið af miklum metnaði.  Að auki vann Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri úttekt á samfélagi og ferðaþjónustu sem fól m.a. í sér viðtöl við 12 landeigendur á áhrifasvæðinu.

Niðurstaða umhverfismatsins leiðir í ljós að áhrif valkosta línuleiða á landbúnað eru metin mjög sambærileg.

Heildarrask aðalvalkostar Blöndulínu 3 á landbúnaðarland verður rúmlega 70 ha, að langmestu leyti á beitarlandi, lítillega á skógræktarlandi og um 4 ha á ræktarland, að mestu leyti í jaðri slíks lands (þar sem lágspenntari strengur tengist loftlínunni). Hægt er að nýta áfram land til túnræktar og beitar undir raflínunum, en slóðir og mastraplön valda varanlegri skerðingu á landi.  Á framkvæmdatíma má búast við truflunum á bústörf, en að framkvæmdum loknum má búast við að notkun beitarlanda verði óbreytt, en einhver takmörkun verði næst helgunarsvæði raflínunnar þar sem hún fer um skógræktarland.  Niðurstöður úr áhrifum varðandi áhrif  raf-og segulsviðs og hljóðs frá línum, sýna þau verða vel undir heilsuverndarmörkum manna  sem sett hafa verið um þá þætti og engar rannsóknir benda til annars en að það sama eigi við um búfénað.

Þegar kemur að endanlegri útfærslu aðalvalkostar mun Landsnet vinna að aðgerðum til mótvægis við neikvæð umhverfisáhrif,  í samræmi við ábendingar frá RML, þar sem því er við komið.  Þar má meðal annars nefna að staðsetja línuvegi í jöðrum ræktunarlanda sem geti nýst til framtíðar sem túnaslóðar í samráði við bændur, staðsetja möstur utan ræktunarlands eða sem næst jöðrum ræktunarspildna, tímasetja framkvæmdir m.t.t notkunar á landi og bústörfum eftir árstíma og þar sem línuvegir fara um beitarhólf sé hugað að hentugum hliðum á girðingar.

Reynsla Landsnets af því að fá RML til þess að leggja til sérfræðiþekkingu sína við mat á umhverfisáhrifum Blöndulínu 3 sýnir að hún er mjög nauðsynleg í tilvikum þar sem farið er með framkvæmdir um stór landbúnaðarsvæði.  Þakkir eru færðar því fólki sem kom á framfæri þeirri hugmynd að landbúnaður yrði tekinn fyrir sem sérstakur umhverfisþáttur.  Þá væntir Landsnet þess að áhugasamir kynni sér vel skýrslu RML og umfjöllun um landbúnað í umhverfismatsskýrslu Blöndulínu 3 og komi á framfæri ábendingum, sem geta þá nýst við sambærileg verkefni í komandi framtíð.

Umhverfismatsskýrslan og fylgigögn eru til kynningar frá 25. mars. til 13. maí og aðgengileg af heimasíðu Skipulagsstofnunar og Landsnets ásamt vefsjá.  Fólk er hvatt til að kynna sér skýrsluna og senda umsagnir til Skipulagsstofnunar á netfangið skipulag@skipulag.is eða í Borgartún 7b.  Landsnet hefur nú þegar kynnt umhverfismatið á áhrifasvæði framkvæmdanna, en einnig er fyrirhugað að halda opið hús í Nauthól í Reykjavík, þann 26. apríl kl. 16.00 – 18.30.

Skylt efni: Landsnet | Blöndulína 3

Kosningarnar snúast líka um landbúnað
Lesendarýni 21. nóvember 2024

Kosningarnar snúast líka um landbúnað

Frá upphafi hefur landbúnaður gegnt lykilhlutverki í að móta íslenska menningu o...

Af virðingu við landið
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Af virðingu við landið

Í aðdraganda kosninga erum við ítrekað minnt á að margar stærstu áskoranir samfé...

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni

Eru hjúkrunarheimili á landsbyggðinni með viðunandi fjármögnun? Er tilefni til a...

Vegleysur á Vestfjörðum
Lesendarýni 18. nóvember 2024

Vegleysur á Vestfjörðum

Sem frambjóðandi á ferð fór ég akandi um Vestfirði um helgina. Vegur um Strandir...

Kosningar og hvað svo?
Lesendarýni 15. nóvember 2024

Kosningar og hvað svo?

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtu Bændasamtök Íslands áskorun til frambjóð...

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu
Lesendarýni 13. nóvember 2024

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu

Það er stór ábyrgðarhluti stjórnvalda að reyna að tryggja að atvinnugreinar séu ...

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara
Lesendarýni 12. nóvember 2024

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara

Eyrnamörk eða fjármörk eru, eins og margir þekkja, skurðir í eyru á fé til að sk...

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi
Lesendarýni 11. nóvember 2024

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi

Landbúnaður hefur löngum verið ein af burðarstoðum atvinnulífs í Norðausturkjörd...