Enn um ullina
Vegna þeirra sterku viðbragða sem ég hef fengið við grein sem ég sendi Bændablaðinu í apríl sl. þá sé ég mig knúna til að bæta þar við nokkrum orðum og biðja Bændablaðið að birta. Um leið þakka ég Sveini Hallgrímssyni fyrir hlýleg orð og öðrum sem haft hafa samband og tekið undir með áhuga fyrir málinu.
Með því að biðja Bændablaðið fyrir þessi skrif, næst vonandi að svara mörgum í senn hvað varðar spurninguna um það hvar og hvernig er hægt að fá góða, greiða og þelmikla ull til að vinna úr. (Helst ofanaftekna, þ.e. þelið eitt og sér.) Spurningu fjölda þeirra er vilja framleiða fínar flíkur, nærföt eða listmuni úr þessu gullvæga efni, þelinu, af íslensku sauðkindinni, vegna sérstakra eiginleika hennar.
Þessu er fljótsvarað: Nútíma rúningsaðferð og meðferð við flokkun, þvott og ferli í vélvæddu kerfi, til úrvinnslu í hendur neytenda, býður alls ekki upp á þannig vöru að óbreyttu. Eðlilegt reyfi með réttum hlutföllum togs og þels, fæst aðeins með því að rýja kindina á hennar náttúrulega tíma, vorinu, þegar ullarhárin eru fullvaxin og tilbúin til að víkja fyrir næsta árs vexti með ullarskilum fýldingsins sem þá er klippt í. Með því verður lengd háranna í reyfinu sjálfu óskert. Ég hef í fyrri grein minni lýst þessum mun, hvernig vetra rúningur margsaxar hárin og skerðir stórlega vöxt og eðli þelsins. Og þar með eðliskosti íslensku ullarinnar.
Hvað er þá til ráða? spyr fólk. Og þá vandast málið.
Ég sem er orðin næstum því aldargömul og þekki ferlið og söguna frá fornu fari til þessa dags, af eigin þátttöku og reynslu, er nú hætt að eiga kindur og framleiða ull. En komin er ný og yngri kynslóð bænda, sem alist hefur upp við önnur skilyrði og hreinlega vita ekki hvaða eiginleika ullin hefur né hvernig þarf að meðhöndla hana til þess varðveita eðlisgæðin. Hún er því stórlega vanmetin og niðurlægð í meðferð. Það byrjaði strax upp úr miðri síðustu öld, þegar þvottur og vinnsla fluttist frá heimilunum út í vélaöldina og vinnumarkaðinn. Verð til bænda varð svo naumt reiknað að varla borgaði sig að hirða reyfið og vanmatið gróf um sig í meðvitundinni. Það varð að hálfgerðri kvöð að losa skepnuna við reyfið og bóndinn feginn ef hann fékk bara eitthvað fyrir ómakið.
Þetta er orðinn hár þröskuldur yfir að stíga áður en hægt er að gera nokkuð af viti í framhaldinu.
Þess vegna vil ég byrja á því að spyrja sauðfjárráðunauta bændasamtakanna: Hver er þeirra stefna og boðskapur til bænda gagnvart ullarframleiðslunni?
Ég spyr einnig: Hvaða bændur vilja rýja fé að vorinu og taka þátt í endurmati ullarinnar?
Hvaða kosti býður Ullarþvottastöðin til að þvo vorrúna ull sér? Hvað er minnsta magn sem hægt er að fá þannig meðhöndlað?
Eru sauðfjárbændur fáanlegir til að ræða þessi mál af vinsemd og raunsæi, án fyrirframgefinna sleggjudóma og vanmats á breytingum?
Þetta mál verður nefnilega ekki unnið nema með samvinnu margra. Það þarf ekkert endilega að kosta neina byltingu í búskaparháttum sauðfjárbænda, aðra en þá að sennilega yrði vetrarfóðrun kostnaðarminni vegna þess að húsvist gæti orðið styttri, þar sem kindin hefur þá reyfið til að skýla sér við útivist lengur fram á haustið, hægt er að láta fé liggja við opið eftir aðstöðu og eins er reyfið um sauðburð að vori gott skjól fyrir bæði á og lamb. Vetrarfóðrun yrði að mörgu leyti ódýrari og hirðing léttari, en kindinni hollari og eðlilegri, hjá nærgætnum og hugulsömum fjármanni.
Ég læt þetta nægja í bili. Vona að margir hafi ýmislegt til málanna að leggja og skýra fyrir þá sem vilja fræðast og finna leiðir til úrbóta.
Í æsku var mér innprentuð skyldurækni og ábyrgðartilfinning. Sem áhorfandi að þeirri öfugþróun og hættu sem stafar af vanþekkingu nútímans á verðmætum eiginleikum ullarinnar, tel ég mér skylt að vara við afleiðingunum af því hvert stefnir. Áður en í meira óefni er komið og ekki verður aftur snúið.
Nýafstaðin ráðstefna á Blönduósi um sauðfé og ull, gefur vonir um víðtækari samvinnu við að varðveita ýmsa fleiri upprunalega eiginleika íslenska sauðfjárstofnsins, með tilliti til ábyrgðarinnar af að eiga hér og meðhöndla sérstakt afbrigði á heimsmælikvarða.
Reynslu minni og þekkingu á meðferð ullar er ég fús að deila með þeim sem nýta vilja til góðra verka og framfara, svo lengi sem ég hef nokkurn veginn heila hugsun og óbrenglaða dómgreind.
Guðríður B. Helgadóttir.