Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Rauðisandur.
Rauðisandur.
Mynd / HKr.
Lesendarýni 4. febrúar 2016

Erlendir gestir ættu að greiða sann-gjarnan aðgangseyri að Íslandi

Höfundur: Hallgrímur Sveinsson, Bjarni G. Einarsson og Guðmundur Ingvarsson.
Það er borðleggjandi að Ísland á sér enga hliðstæðu í víðri veröld. Ábyrgð okkar Íslendinga er mikil að varðveita landið sem við höfum að láni. 
 
Það er mikil áhætta að hleypa útlendingum milljónum saman meira og minna eftirlitslaust hér inn í okkar stóra og mikla listasal náttúrunnar. Við verðum að stýra þeim af festu ef ekki á illa að fara. 
 
Hver erlendur ferðamaður greiði 5 þúsund krónur í aðgangseyri
 
En það þarf mikla uppbyggingu af ýmsu tagi um land allt ef takast á að koma í veg fyrir stórslys. Það vita allir. Til þess þarf fjármuni. Margt mælir með að við innheimtum aðgangseyri að Íslandi til að ráða við nauðsynlegar framkvæmdir, ásamt löggæslu- og eftirlitskostnaði. Í honum ætti að vera innifalinn björgunarskattur sem færi til björgunar- og hjálparsveita, sem alltaf eru á vaktinni. Fimm þúsund krónur á hvern einasta erlenda ferðamann sem kemur gagngert til að njóta og skoða landið okkar er lágmark. Þá upphæð munu allflestir erlendir feðalangar greiða með ánægju við komuna til landsins. Þeir munu skilja að við þurfum uppbyggingu og eftirlit. Jafnvel munu þeir sækjast eftir því að koma til Íslands þegar þeir vita að allur aðbúnaður er undir kontról. Upphæðina má svo hækka ef þörf krefur. Innheimtan þarf að vera eins einföld og hægt er. Til dæmis við afhendingu farseðils. Huga þarf sérstaklega að farþegum skemmtiferðaskipa og þeim sem ekki eru beinlínis komnir til að ferðast um landið. Börn upp að ákveðnum aldri í fylgd foreldra yrðu gjaldfrjáls. Þeir sem ekki una gjaldtökunni munu þá fara annað. Við því er ekkert að gera. Þeir koma bara seinna. Enda takmarkað hvað Ísland þolir af erlendum ferðamönnum. Þar hljóta að vera einhver mörk. 
 
Allir ferðamenn fái fræðslu 
 
Við ættum að bjóða öllum ferðamönnum upp á hagnýta fræðslu um landið sem þeir eru að heimsækja. Námskeið upp á 2–3 klukkustundir mætti vel halda til dæmis á Keflavíkurflugvelli. Nóg er þar af húsnæðinu. Þar færi fram fræðsla um sögu landsins og ýmsar hagnýtar leiðbeiningar um það lagðar á borð. Hvað sé leyfilegt og hvað ekki. Gestir okkar yrðu ábyggilega fegnir að fá slíkar leiðbeiningar. Hugsanlegt er að mönnum væri í sjálfsvald sett hvort þeir kærðu sig um slíka fræðslu eða ekki. En hún væri innifalin í aðgangseyrinum. Það þarf að skipuleggja þetta þannig að ferðafólkið sækist eftir fræðslunni. Þá þyrfti að hafa  sams konar fyrirkomulag á Seyðisfirði og víðar. Viðurkenndir leiðsögumenn ættu að vera leiðbeinendur ásamt ferðaskrifstofufólki með reynslu. Fólk sem veit hvað klukkan slær. Við getum alveg skipulagt þetta eins og menn ef við viljum. Virkja þá sem kunna til verka.
 
Nýtt verkefni fyrir hreppstjóra
 
Skynsamleg löggæsla og leiðbeiningar eru grundvallaratriði. Vel má skoða hvort endurreisa ætti gömlu hreppstjóraembættin á nýjum grunni lögreglunni til aðstoðar. Hreppstjórarnir verði nokkurs konar svæðisumsjónarmenn. Þeir hefðu lögregluvald samkvæmt erindisbréfi. Gjörkunnugir og hæfir menn yrðu ráðnir í fullt starf eftir auglýsingu þar um. Lögreglustjórar eða sýslumenn yrðu yfirmenn þeirra. Þeir þyrftu að hafa lögreglustjörnu í barmi, fastan samastað og bíl til umráða.
 
Fimm milljarðar króna til ráðstöfunar á ári
 
Ein milljón gjaldskyldra ferðamanna yfir árið þýðir 5 milljarða innkomu, svo dæmi sé tekið. Vel má leggja upp með að hreppstjóraembættin yrðu 100 talsins.  Ef kostnaður við hvert hreppstjóraembætti væri reiknaður 10 milljónir kr. á ári gerði það 1 milljarð króna. 500 milljónir færu hugsanlega í fræðslukostnað og 500 milljónir til björgunarsveita. Þá eru eftir 3 milljarðar sem færu í uppbyggingu og rekstur innviða, m.a. hreinlætisaðstöðu. Það skal ítrekað að þetta eru vangaveltur um tekjur og gjöld, sem byggja þó á nokkuð föstum grunni. 
 
Sómasamleg hreinlætisaðstaða er algjör nauðsyn
 
Sómasamleg og myndarleg  hreinlætisaðstaða fyrir ferðafólk er algjör nauðsyn. Einn af hornsteinum og innviðum ferðamennskunnar. Hér er verið að tala um salerni og slíkt sem bæði innlendir og erlendir ferðamenn hefðu frjálsan og ókeypis aðgang að í byggðum landsins þar sem ekki eru hótel eða veitingastaðir. Þetta ættu að vera stöðluð og lagleg húsakynni sem féllu vel inn í landslagið. Rekstur þeirra yrði boðinn út. Byrja mætti með 50 slíka staði sem hreppstjórar hefðu yfirumsjón með. 
 
Þurfum hvorki náttúrupassa, gistináttagjald eða annað vesen
 
Munum að það liggur í mannlegu eðli að bera virðingu fyrir því sem eitthvað kostar. Þá er líka hægt að gera kröfur. En þetta þarf allt að vera einfalt og vel skiljanlegt í framkvæmd. Með þessu móti þurfum við hvorki náttúrupassa, gistináttagjald eða annað vesen. Geri EES og ESB einhverjar athugasemdir við innheimtuna, þá bara setjum við lög á Alþingi um málið. Það gera löggjafarþing samstarfsþjóða okkar í ýmsum málum þegar þeim hentar. 
 
Þessar tillögur eru settar fram til umhugsunar. Þær eru innlegg í þá umræðu sem nú fer fram hjá þjóðinni. Vera má að sumum þyki hér ýmislegt heimskulegt sagt. Það er ekkert óeðlilegt við það í skynsamlegri umræðu.
 
Hallgrímur Sveinsson, Bjarni G. Einarsson og Guðmundur Ingvarsson.
Flekkur kom úr langferð á jólaföstu
Lesendarýni 27. desember 2024

Flekkur kom úr langferð á jólaföstu

Hér á bæ fæddist svartflekkóttur lambhrútur 14. maí 2021, fremur smár tvílembing...

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....