Heimilin eiga að vera í forgangi – ALLTAF!
Öll eigum við heimili. Heimilin eru eins misjöfn og þau eru mörg en öll vitum við samt hvað orðið heimili þýðir og öryggi okkar flestra byggir að stórum hluta á því að eiga einhvers staðar höfði okkar að að halla, að eiga heimili.
Heimilin eru undirstaða þjóðfélagsins. Án þeirra væri ekki neitt þjóðfélag og án þeirra væri ekki þörf á neinu skipulagi eða „kerfi“. Án þeirra væru engin fyrirtæki til því það eru heimilin sem halda öllum fyrirtækjum uppi með beinum eða óbeinum hætti.
Heimilin eru minnstu fyrirtækjaeiningar landsins og þau halda öllu uppi.
Heimilin eru við! Hvert og eitt okkar sem búum á þessu landi, hvort sem er til sjávar eða sveita og hvort sem við leigjum eða eigum.
Þess vegna eiga heimilin alltaf að vera í forgangi í ÖLLUM aðgerðum stjórnvalda og hagmunir heimilanna að ganga framar hagsmunum ALLRA annarra, ALLTAF!
Á því hefur orðið verulegur misbrestur, ekki bara einu sinni heldur svo oft að það er hægt að tala um reglu í því sambandi.
Reglan er sú að ef einhvern fjársterkan vantar eitthvað, eða ef eitthvað bjátar á, vegna þess að stóru fyrirtækin eða „kerfið“ hafa klúðrað málum, þá er gengið í vasa heimilanna.
Þá eru þau látin borga og blæða svo þeir sem skaðanum ollu geti haldið áfram að græða.
Þessum hugsunarhætti VERÐUM VIÐ að breyta!
Okkur hættir mörgum til, þegar við hlustum á fjármálaráðherra tala um aðstoð við fyrirtæki sem sum hver hafa jafnvel greitt eigendum sínum myndarlegan arð, á meðan hann hunsar algjörlega vanda heimilanna, að líta á hans forgangsröðun sem sjálfsagðan hlut því við erum orðin svo vön þessu. Þetta er nefnilega REGLAN!
Það er EKKERT eðlilegt við þessa forgangsröðun því almenningur er ekki fóður fyrir bankana, eða nokkurn annan.
Þessari forgangsröðun þarf að breyta!
Við viljum ekki bara þiggja molana sem fleygt er til okkar af borðinu eins og einhverjir hundar. Við viljum fá sæti við borðið!
Fólkið fyrst og svo allt hitt!
Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og frambjóðandi Flokks fólksins