Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Brynjólfur Snorrason hefur unnið mjög gott brautryðjandastarf.
Brynjólfur Snorrason hefur unnið mjög gott brautryðjandastarf.
Lesendarýni 30. september 2014

Hraustar kýr, jarðbundið fjós

Höfundur: Kristján Gunnarsson

Líður kúnum þínum illa í fjósinu af völdum spennumunar eða mikils rafsegulsviðs? Hér verður rifjuð upp og uppfærð grein undirritaðs frá 2002.

Vegna átaksverkefnis af hálfu MS um bætt júgurheilbrigði er vert að ítreka viðvörun um skaðleg áhrif rafstraums á búpening, þó aðallega kýr, og hugleiða nokkuð þetta mál og gefa góð ráð til fyrirbyggjandi aðgerða. Um þessi mál eru ýmsar kenningar og menn eru ekki á einu máli um hvað skiptir máli og hvað ekki og sumt minnir beinlínis á þjóðsögur.

Grundvallaratriði sem hafa ber í huga er að rafmagn fer ætíð greiðustu og stystu leið til jarðar, þ.e. um bestu leiðnileiðina. Vitað er um nokkur dæmi s.s. í nýju fjósi þar sem í ljós kom að há frumutala og óskýranleg tilvik júgurbólgu virtist m.a. vera um að kenna lélegu jarðsambandi og algjörlega óviðunandi sambindingu járnavirkja og auk þess hált gólfefni inni í mjaltabás.

Kýrnar viðkvæmar

Kýrin stendur á fjórum fótum og langt er milli fram- og afturlappa og er hún þar af leiðandi kjörin til að tengja saman leiðandi hluti, svo sem vatnsbrynningartæki og flórrist, milligerði og hliðgrind eða mjaltaþjón og stýrihlið svo dæmi séu tekin. Jafnvel milli arms og mjaltaþjóns getur myndast spennumunur ef sambinding er ekki nægilega trygg. Einnig er ljóst að kýrin getur myndað smá hleðslu af básmottum og dýnum og afhleðst þá þegar hún snertir járn eða nær jarðsambandi líkt og við þekkjum sjálf.

Málið er að kýrnar eru mun viðkvæmari fyrir spennumun en maðurinn t.d. vegna fleiri útlima, blautra grana, byggingarlags og mun næmari skynfæra. Sem dæmi, kýr með blautar granir sem snertir milligjörð eða vatnsdall og stendur með blautar afturlappir á flórristum getur auðveldlega orðið fyrir spennumun milli þessara járnvirkja. Hún skynjar og hefur vanlíðan af jafnvel örfáum millí-voltum, og verður óróleg, vansæl og mun líklegri til þess að verða nytlág, veikindasækin og lystarlaus.Þetta getur síðan leitt til streitu þannig að kýrin verður veikari fyrir alls kyns áreiti þ.m.t. júgurbólgu, þ.e. ónæmiskerfi hennar verður veilla og verr sett hvað varðar nýsmit júgurbólgusýkla.

Fjölmörg leiðandi virki í fjósum

Eins eru legubásafjósin með allar sínar básaeyjar, milligerði, stýrihlið, mjaltaþjóna, vatnsbrynningu, kör og vatnsdalla, sköfuþjóna (flórgoða) eða flórsköfur sem stöðugt eru á ferðinni, legubásafjósin eru því ekki síður en gömlu básafjósin kjörin fyrir spennumunarvandamál sé ekki rétt að málum staðið. Þarna skiptir auðvitað máli hvort skepnan nær að snerta tvö leiðandi virki samtímis en þó eru hugsanlega líkur fyrir því að spennumunar og segulsviðs gæti gætt milli frístandandi básaeyju og flórgólfs vegna raka og bleytu.
Það má örugglega fullyrða að með því að eyða nokkrum aukakrónum í að vanda til verka hvað varðar jarðbindingu og ekki síst sambindingu megi búast við margföldum ágóða til baka í formi meiri mjólkur, minni dýralækniskostnaðar, betra heilsufars kúnna almennt og sennilega oft fleiri mjaltaskeiða þ.e. heilbrigð kýr lifir lengur.

Hvað á að gera?

Það sem kúabóndinn ætti að gera er eftirfarandi:
Fá rafvirkja eða tæknimann sem hefur til þess tæki og kunnáttu að mæla hvort jarðbinding fjóss og mannvirkja er nægileg. Þetta er vanalega gert með s.k. megger og hringrásarviðnámsmæli en svo má auðveldlega sem forkönnun sjá með skoðun og rannsókn kunnáttumanns hvort nægilega vel sé bundið, hreinlega líta eftir bindileiðslum, aðstæðum og samsetningum járnavirkjana og leiða þannig líkur á að nægileg sambönd og bindingar séu fyrir hendi.

Það þarf að skoða hvort eingöngu sé um að ræða svokallaða sökkuljarðbindingu eða eingöngu jörð í kapli inntaks og ef svo er að reka þá einnig niður í gljúpan jarðveg úti nokkur stafskaut ekki undir 1,5 –2,0 m að lengd og leiða frá þeim 25–50 qvaðrat fjölþátta jarðleiðslu að safnskinnu fyrir jörð í rafmagnstöflu og að helstu járnavirkjum þannig að rofni eitt þá séu a.m.k. 2–3 önnur sem gefa gott jarðsamband, þ.e. jörð úr mörgum áttum, nokkurs konar „stjarna“.

Einnig má fá mjög gott jarðsamband með því að grafa niður 20–30 metra af sverum óeinangruðum þráð (50–70 qvaðrat) ca 1 metra niður í gljúpan jarðveg. Frá töflu þarf síðan sérstaka jarðleiðslu að vatnsinntaki og að fyrsta leiðandi virki í fjósinu. Síðan þarf, og þetta er áríðandi og á við básafjós með mjaltakerfum eða legubásafjós með mjaltaþjónum eftir því hvað á við, að binda saman allt leiðandi járnavirki með 16–25q leiðslu, þ.e. vatnslagnir, milligjarðir á básum sem og í mjaltabás, soglögn, flórristar, ristar í mjaltabás ef þær eru þar sem kýr standa í mjöltum, mjaltaþjón, drullugrindina undir mjaltaþjóni (Lely), stýrihlið, stök millivirki, básamilligerði á eyjum, grindur í gjafaaðstöðu, gjafakerfi (weelink), hleðslustöð fyrir flórgoða og önnur sjálfstætt standandi hlið og grindverk. Þar sem lagnir og milligerði eru samansoðnar eða fest saman á annan tryggilegan hátt nægir að jarðbinda þau virki hvort í sinn enda. Ef flórristar í básafjósi eru samansoðnar eða ná góðri leiðni hvor við aðra er nægilegt að binda þær saman við milligjarðirnar í báða enda hverrar raðar. Þá þarf að binda á a.m.k. tveimur stöðum í loftklæðningu ef hún er úr járni eða stáli og alla járnbita niður veggi.

Þakklæðningu, strompa, ef í er vifta, og utanhússklæðningu úr járni ætti einnig að jarð- og sambinda. Láta huga að gömlum fluorsent-lömpum og binda þá til jarðar ef þarf ásamt því að þéttatengja spóluna (ballestina) í ljósinu svo þeir trufli síður og angri skepnur. Nýrri gerðir fjósljósa með ofurperum eru vanalega vel frá gengin séu þau sett upp af fagmönnum.

Stundum reynist erfitt að koma á sambindingu á frístandandi básaeyjum en venjulega þarf þá að fara með bindinguna frá bita í lofti, eða allavega leiðslan verður að koma ofan frá í járnröri og þarf að „gorma“ hana þar sem hún kemur út úr rörinu þannig að hún þoli hreyfingu og snus gripa, venjulega er þræðinum snúið utan um grannt rör eða sívalning og þannig búinn til gormur.

Vera vakandi fyrir einkennum

Í öllum fjósum á reglulega að prófa virkni útsláttarrofans (lekastraums­liðans) í rafmagnstöflunni en næmni hans á að vera minnst 30 mA. Prófunarhnappur er á liðanum.

Mikill raki og bleyta í fjósi og mjaltaaðstöðu eykur líkur á spennumun þannig að góð loftræsting er nauðsynleg. Þar sem kýr sýna merki vanlíðunar, eða eru taugatrekktar, éta illa, há frumutala í hjörðinni, of mikið um júgurbólgu og óútskýranleg nytlægð, ef allt þetta eða einn af þessum þáttum er gegnumgangandi í fjósinu ætti hiklaust að kanna jarðsambönd og sambindingar járnavirkja.

Binni Snorra og aðrir snillingar

Nokkrir aðilar gefa sig út í mælingar á þessum þáttum og er þekktastur Brynjólfur Snorrason  í Mið-Samtúni sem unnið hefur mjög gott brautryðjandastarf sem lofsvert er. Því er vert fyrir bændur að fá Brynjólf eða aðra sem kunna til verka til að kíkja á jarðsambönd  og sambindingar. Eins er hægt að fá kunnáttumenn til að hreinlega skoða með berum augum sambindingar og gerð jarðskauta svona sem forkönnun.

Varðandi áhrif skaðlegs eða sannarlegs rafsegulsviðs utandyra af einhverjum orsökum er vitað að allsterkt rafsegulsvið getur verið utanhúss í afmörkuðum radíus umhverfis háspennuvirki (spennustöðvar) og undir háspennu­línum og er því ástæða til að byggja ekki fjós undir hápennulínum eða í nálægð háspennuvirkja þar sem líklegt er að það geti aukið á vanlíðan skepna og manna.

Það er fjöldi rafsegulsviða í og upp úr jörð sem við göngum á og sem auðvelt er að finna og mæla, en erfiðara að meta hvort það gerir skepnum og mönnum einhverja skráveifu eða sé sárameinlaust.
Hvaða áhrif menn eru að mæla utanhúss þegar engin háspennuvirki eru nálæg er alls ekki vitað né heldur hvort þar er um að ræða skaðlegt eða meinlaust segulsvið.

Segulsvið mælist í staðbundnum raflögnum t.d. inni í fjósum en ef vel er jarðbundið og sambundið verður það ólíklega til óþæginda fyrir skepnur og menn og mun hættulegri er spennumunur (útleiðsla) sem orsakast af s.k. „flökkustraumum“ sem í einföldun eru þau amper eða brot úr amperi (straum) sem fer á flakk eftir bakrásum í t.d. fjórleiðarakerfi (stofn) þar sem eru t.d. 3x380 volta fasar og núll, en núll og jörð sambundið (núllað kerfi) og er því skynsamlegra að nota ævinlega fimmleiðara stofn, þ.e. núll og jörð aðskilin, þannig að flökkustraumar asnist ekki núllleiðina til baka heldur jarðsambandsleiðina.

Með góðri sambundinni jarðtengingu í fjósum og öðrum skepnuhúsum er vísast að bændur geti verið nokkuð vissir um að gripir þeirra búi við kjöraðstæður með tilheyrandi vellíðan og aukinni hreysti.

Kristján Gunnarsson
ráðgjafi hjá Bústólpa

4 myndir:

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...

Kosningar
Lesendarýni 29. nóvember 2024

Kosningar

Kæru kjósendur. Það er ekkert mikilvægara en að nýta atkvæðisréttinn sem svo mik...

Tryggjum nýliðun og skattalega hvata
Lesendarýni 29. nóvember 2024

Tryggjum nýliðun og skattalega hvata

Það eru vissulega forréttindi að búa í sveit, ala upp börnin sín í faðmi náttúru...

Verum til vinstri – verndum náttúruna
Lesendarýni 28. nóvember 2024

Verum til vinstri – verndum náttúruna

Á meðan Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur staðið vörð um náttúruna og gæt...

Þú treystir ekki hverjum sem er fyrir búinu þínu
Lesendarýni 28. nóvember 2024

Þú treystir ekki hverjum sem er fyrir búinu þínu

Að vera bóndi getur verið félagslega einangrandi, sérstaklega ef aldrei er svigr...

Eignarhald bænda á jörðum tryggir hag þeirra best
Lesendarýni 27. nóvember 2024

Eignarhald bænda á jörðum tryggir hag þeirra best

Umræða um jarðir, jarðaviðskipti og kynslóðaskipti í landbúnaði er og á að vera ...

Landbúnaður í velsældarhagkerfi
Lesendarýni 27. nóvember 2024

Landbúnaður í velsældarhagkerfi

Landbúnaður í heiminum öllum stendur frammi fyrir umbyltingu vegna framfara í ræ...