Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Jöfnum búsetuskilyrði og réttum hlut sjávarbyggða
Lesendarýni 23. september 2021

Jöfnum búsetuskilyrði og réttum hlut sjávarbyggða

Höfundur: Eyjólfur Ármannsson

Jöfn búsetuskilyrði í landinu er grundvallarréttur allra landsmanna. Val á búsetu á landsbyggðinni á ekki að vera val um skerta þjónustu, skert búsetuskilyrði og lífsgæði.

Jöfn búsetuskilyrði í takt við nútímann

Fjölbreytt atvinnulíf er styrkasta stoð allrar byggðar. Það ásamt nauðsynlegum innviðum á borð við  nútímasamgöngur og öflugt fjarskiptasamband, ásamt góðri heilbrigðisþjónustu og menntun, sem stenst samanburð við SV-hornið, er réttmæt krafa íbúa landsbyggðarinnar.

Fiskeldi hefur hjálpað byggð við sjávarsíðuna, eldið verður hér til frambúðar og er það vel. Verðmætasköpun er mikil í greininni, svo að nemur milljörðum í útflutningsverðmæti. Ekki er gott að hafa öll eggin í einni körfu og mikilvægt að máttarstólpar lítilla samfélaga á landsbyggðinni séu margir og atvinnufrelsi sem mest.

Öflugar strandveiðar með frjálsum handfæraveiðum eru ein slík stoð og eiga sér langa sögu líkt og hefðbundinn landbúnaður. Byggð í blóma er grundvöllur öflugrar ferðaþjónustu.

Veiðiréttur sjávarbyggðanna

Í hafinu undan ströndum Íslands eru ein gjöfulustu fiskimið í heimi. Sjálf gullkista Íslendinga. Þessa auðlind hafa forfeður okkar nýtt frá því land byggðist. Mikilvægt er að svo verði án óþarfa takmarkana kvótakerfisins á atvinnufrelsi. Kvótakerfið var sett til verndar fiskistofnum og handfæraveiðar á krók ógna ekki fiskistofnum.

Íbúar sjávarbyggðanna eiga nýtingarrétt til fiskimiðanna undan ströndum byggðanna, eins og t.d. á Vestfjörðum. Þar hefur byggð frá landnámi byggst á fiskveiðum og landbúnaði, aðallega sauðfjárrækt. Þannig er það í dag og mun verða í framtíðinni. Takmarkanir stjórnvalda á veiðum undan ströndum sjávarbyggðanna eru skerðing á búseturétti íbúa þeirra. Þetta er saga íbúa um allt norðvestanvert landið og um allt land.  

Árangur kvótakerfisins er enginn – aðgerð gegn sjávarbyggðum

Sagt er að leiðin til Heljar sé vörðuð góðum áformum. Þannig var það fyrir sjávarbyggðirnar með kvótakerfinu sem komið var á til bráðabirgða árið 1984. Aflamark í þorski var þá lækkað í 220.000 tonn til að byggja upp þorskstofninn, sem eru sömu veiðiheimildir og í dag. Árangurinn er enginn!

Örfáir útgerðarmenn náðu með tímanum til sín æ meira aflamarki og skeyttu litlu um búsetu og afkomuöryggi fólksins í sjávarþorpunum. Sér í lagi á þetta við um Vestfirði sem hafa orðið hart úti vegna kvótakerfisins, þrátt fyrir að auðugustu fiskimið heims liggi þar fyrir utan.

Þegar Vestfirðir voru sérstakt kjördæmi komu héðan stjórnmálamenn sem stóðu í ístaðinu, en eftir að Vestfirðir urðu hluti af stærra kjördæmi virðist hafa orðið breyting á. Heiðarleg undantekning á þessu var Frjálslyndi flokkurinn en ég var í framboði fyrir flokkinn í alþingiskosningunum árið 2003. Síðan þá, eða 18 árum síðar, hefur ekkert breyst. Kvótakerfið er óbreytt og sjávarbyggðunum hefur enn hnignað og íbúum fækkað. Slíkt hefur orðið hlutskipti landsbyggðarinnar.

Til hvers var barist?

Krafa sjávarbyggðanna um aukið aðgengi þeirra að fiskimiðunum er sterk, sögulega sterk. Frá verum til vélbáta, vertíðarbátum til togara.

Tímaritið Ægir tók viðtal árið 2002 við stríðshetju okkar úr síðustu tveimur þorskastríðum, Guðmund Kjærnested, undir fyrirsögninni „Til hvers var barist?“.

Guðmundi rann spillingin til rifja og sagði m.a.: „Ég segi fyrir mig, að ég hefði ekki staðið í þessari baráttu öll þessi ár ef ég hefði getað ímyndað mér að staðan yrði svona nokkrum árum síðar“ og vísaði til þess að hann væri síður en svo sáttur við núgildandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Guðmundur benti á að með samþjöppun aflaheimilda hefðu minni sjávarbyggðir orðið meira og minna kvótalaus.

Þorskastríðin voru háð með framtíðarhagsmuni íslensku þjóðarinnar í huga. Í mörg hundruð ár voru úti fyrir fjörðum erlendar skútur og síðar mörg hundruð erlendra togara, sem veiddu margfalt á við okkur. Fyrr á öldum voru Íslendingar fátæk þjóð en íslenskir sjómenn, vermenn Íslands, sóttu hart á misstórum bátum til að færa björg í bú og hættu ósjaldan lífi sínu. Þetta voru forfeður okkar og ég ber verðskuldaða virðingu fyrir þeim. Við ættum öll að gera það. 

Mikilvægt er að réttur íbúa sjávarbyggðanna til að nýta sjávarauðlindina sé endurreistur og varinn. Það heldur landinu öllu í byggð og er þjóðhagslega hagkvæmt.

Eflum strandveiðar með frjálsum handfæraveiðum

Flokkur fólksins vill láta þjóðina og íbúa sjávarbyggðanna njóta auðlinda sinna! Við viljum nýja nýtingarstefnu fiskimiðanna þar sem auðlindir okkar eru sameign þjóðarinnar en ekki einkaeign fárra útvalinna. 

Við munum beita okkur fyrir því að íbúar sjávarbyggða njóti aukins réttar til að nýta sjávarauðlindina með jákvæðum áhrifum á sjávarplássin víðs vegar um land. Við ætlum að stórefla strandveiðar og gera handfæraveiðar frjálsar. Veiðar á krók ógna ekki fiskistofnum við Ísland og á því að gefa frjálsar. Kvótakerfið var sett á til verndar fiskistofnun og á einungis að ná til þeirra veiða sem geta stofnað fiskistofnum í hættu svo gætt sé meðalhófs.

Mikilvægt er að íslenskar fjölskyldur geti lifað af fiskveiðum. Öflugri smábátaútgerð getur hleypt nýju lífi í sjávarbyggðirnar og styrkt stoðir atvinnulífs í þeim og orðið forsenda fjölbreyttara atvinnulífs.

Flokkur fólksins krefst þess að þjóðin fái fullt verð fyrir sameiginlegan aðgang að auðlindum hennar til hagsbóta fyrir land og þjóð.

Flokkur fólksins styður lögfestingu ákvæðis um þjóðareign á auðlindum í stjórnarskrá, m.a. til að tryggja að sjávarauðlindin sé sameign þjóðarinnar en ekki í einkaeign fárra útvalinna.

 

Eyjólfur Ármannsson
Höfundur skipar 1. sæti
á F-lista Flokks fólksins

í NV-kjördæmi.

Kartaflan
Lesendarýni 16. júlí 2024

Kartaflan

Hvað vitum við um kartöfluna? Þessa nytjajurt sem heitir á fræðimáli Solanum tub...

Hraunflóðavarnir og þekking
Lesendarýni 16. júlí 2024

Hraunflóðavarnir og þekking

Nú eru í gangi umfangsmiklir jarðeldar á Reykjanesskaga, hafa þegar verið í gang...

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti
Lesendarýni 5. júlí 2024

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti

Í síðasta eintaki af Bbl. birtist grein um það hvernig öldusveigjan umhverfis Ve...

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra
Lesendarýni 2. júlí 2024

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra

Velferð dýra er ófrávíkjanleg krafa siðmenntaðs samfélags, hvort sem um ræðir gæ...

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn
Lesendarýni 24. júní 2024

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn

Fyrir röskum þremur árum ritaði greinarhöfundur þrjár greinar um landbúnað og sa...

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda
Lesendarýni 21. júní 2024

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda

Ágætu bændur. Í Bændablaðinu þann 16. maí sl. reifaði ég í bréfi til ykkar áhygg...

Af heimanautum og sæðinganautum
Lesendarýni 21. júní 2024

Af heimanautum og sæðinganautum

Mikil notkun heimanauta hefur um langa hríð verið eitt helsta umræðuefni og þræt...

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna
Lesendarýni 21. júní 2024

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna

Strandveiðitímabilið hófst í byrjun maí. Mikil veiði hefur verið enda mikið af f...