Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Landbúnaður, umhverfi og matur – órjúfanleg heild
Lesendarýni 25. febrúar 2020

Landbúnaður, umhverfi og matur – órjúfanleg heild

Höfundur: Grétar Hrafn Harðarson
Heimsbyggðin er að verða meðvitaðri en áður um þá alvarlegu stöðu sem við blasir í umhverfis­málum. Mörg, ef ekki flest, mannanna verk eru ekki í góðum takti við ferla náttúrunnar. Landbúnaður er þar engin undan­tekning. Við erum að taka meira en heimurinn getur gefið okkur.  
 
Aðaláherslur í matvælafram­leiðslu í heiminum hafa verið framleiðsluaukning og minni framleiðslukostnaður. Þetta þarf að breytast. Tími sóunar og rányrkju er liðinn. Það er einkum fernt sem við þurfum að varðveita og fara vel með, þ.e. jarðvegurinn, vatnið, hráefnin og hitastig jarðar. Þrátt fyrir blikur á lofti er engin ástæða til að örvænta, við búum yfir mikilli þekkingu og viðfangsefnin eru viðráðanleg. 
 
Sjálfbær hringrás er mál málanna í dag. Landbúnaður á Íslandi á langt í land til að geta kallast sjálfbær. Tugir þúsunda tonna af hráefnum eru flutt til landsins árlega. Nokkur innflutningur hráefna er nauðsynlegur, en hægt er að gera mun betur í því að nýta þá kosti sem gætu verið í boði innanlands. Hér er bæði átt við framleiðslu hráefna og aukna fjölbreytni í jarðrækt. Stutt er síðan að stöðug aukning var í kornrækt á Íslandi. Undanfarin ár hefur þetta aftur á móti snúist við. Eflaust eru ýmsar skýringar á því, s.s. verra árferði, hagstætt verðlag erlendrar framleiðslu og breyttir búskaparhættir sem hafa kallað á aukna gjöf innflutts kjarnfóðurs.  
 
Tilbúinn áburður er nú allur innfluttur, ásamt því að vera utanaðkomandi hráefni, en ekki hluti af náttúrulegri hringrás. Tilbúinn áburður er jafnframt takmörkuð auðlind sem ber að fara vel með. Til að draga úr notkun tilbúins áburðar þurfa landbúnaðurinn og óskyldar greinar að vinna að því að þróa leiðir til að gera lífrænan úrgang að aðgengilegum og öruggum áburði. Mikið fellur til af vannýttum áburðarefnum en það er enn fjárhagslega óhagkvæmt  að nýta þau miðað við núverandi verðlagningu tilbúins áburðar. Kostir lífræns áburðar eru líka þeir að hann bætir jarðveginn og vinnur á móti líffræðilegum fábreytileika sem óhjákvæmilega fylgir ræktun lands. 
 
Mikið af hráefnum sem nauðsynleg eru bæði í jarðrækt og fóðrun búfjár eru aðeins til í takmörkuðu magni í heiminum og þess vegna þarf að nota þessi efni aðeins í því magni sem nauðsynlegt er. Þetta kallar á meiri nákvæmni og aukna faglega aðkomu.   
 
Marga aðra þætti er hægt að nefna sem þarf að takast á við til að auka sjálfbærni og  draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum landbúnaðar. Þetta eru þættir eins og jarðefnaeldsneyti, rúlluplast o.fl. Víða erlendis er landbúnaðurinn virkur í eldsneytisframleiðslu eins og etanóli og metani. Ólíklegt er að slík þróun fari í gang hérlendis að nokkru gagni, en líklegra að landbúnaðurinn fylgi almennri þróun í landinu. Hins vegar getur landbúnaðurinn gegnt lykilhlutverki í kolefnisbindingu með ræktun ógróins lands og endurheimt mýrlendis.  Plastnotkun í landbúnaði er umtalsverð og mjög umdeild.  Þar, eins og svo oft, ræður fjárhagsstaða bænda til skemmri tíma hvaða leiðir eru farnar. Eitt er víst að hægt væri að draga úr plastnotkun og bæta heyverkun mjög hratt ef stefnan væri tekin á varanlegar fóðurgeymslur. 
 
Líta þarf heildstætt á framleiðsluferla landbúnaðarvara, alveg frá frumframleiðslu til neytenda. Erlendis er farið að tala um „hringrásar“ landbúnað (circular agriculture) í þessu sambandi, þar sem megináherslan er lögð á samstarf bænda, vísindamanna,  fyrirtækja og stofnana í að þróa landbúnað sem nýtir nútíma tækni og þekkingu til að framleiða holla vöru, á eðlilegu verði og með sem minnstum neikvæðum umhverfisáhrifum. 
 
Mikilvægt er að matvæla­framleiðsla njóti trausts og virðingar í samfélaginu. Afkoma framleiðenda og úrvinnsluaðila þarf að vera viðunandi svo hægt sé að tryggja trúverðugleika og sækja fram í þróun. Í hinum vestræna heimi er ofgnótt af flestu og því tilhneiging til að fara illa með. Kannski eiga minni tengsl og skortur á samkennd neytenda og framleiðenda þátt í því að matarsóun hefur verið að aukast. Stytta þarf leiðir frá framleiðendum til neytenda, ekki eingöngu til að minnka kolefnisspor heldur líka til að auka samkennd og virðingu fyrir matvælum. 
 
Málefni landbúnaðarins og umhverfisins verða á dagskrá málþings, sem Rótarýklúbbur Rangæinga og Landgræðslan standa fyrir í húsakynnum Landgræðslunnar í Gunnarsholti, fimmtudaginn 27. febrúar kl. 13.00. Allir sem áhuga hafa á landbúnaði og umhverfismálum eru velkomnir.  Ókeypis aðgangur. 
 
Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti
Lesendarýni 5. júlí 2024

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti

Í síðasta eintaki af Bbl. birtist grein um það hvernig öldusveigjan umhverfis Ve...

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra
Lesendarýni 2. júlí 2024

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra

Velferð dýra er ófrávíkjanleg krafa siðmenntaðs samfélags, hvort sem um ræðir gæ...

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn
Lesendarýni 24. júní 2024

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn

Fyrir röskum þremur árum ritaði greinarhöfundur þrjár greinar um landbúnað og sa...

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda
Lesendarýni 21. júní 2024

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda

Ágætu bændur. Í Bændablaðinu þann 16. maí sl. reifaði ég í bréfi til ykkar áhygg...

Af heimanautum og sæðinganautum
Lesendarýni 21. júní 2024

Af heimanautum og sæðinganautum

Mikil notkun heimanauta hefur um langa hríð verið eitt helsta umræðuefni og þræt...

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna
Lesendarýni 21. júní 2024

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna

Strandveiðitímabilið hófst í byrjun maí. Mikil veiði hefur verið enda mikið af f...

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki
Lesendarýni 20. júní 2024

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki

Tandrabretti ehf. hefur undanfarin ár unnið að uppbyggingu á viðarperluframleiðs...

Og svo kom vorið
Lesendarýni 18. júní 2024

Og svo kom vorið

Nú í byrjun júnímánaðar fengu landsmenn yfir sig sannkallað vetrarveður sem varð...