Margþætt gagnsemi loðdýraræktar
Höfundur: Ásgeir Pétursson
Loðdýrarækt eyðir að stórum hluta þeim sláturafurðum, sem við í dag borðum ekki sjálf og eru að mestu leyti urðuð með miklum kostnaði fyrir kjötiðnaðinn, sem að sjálfsögðu leggst á neytendur. T.d. kjúklingur, sem er vinsæll matur, nýtist okkur ekki nema um 40%, rest er urðuð.
Þetta á að stórum hluta við um önnur sláturdýr. Einnig á þetta við um fisk, þar nýtum við aðeins 31% en restin fer í mjölframleiðslu o.fl., en allan þennan kjöt- og fiskúrgang sem loðdýr geta étið. Til að búa til eitt minkaskinn þarf um 50 kg af fóðri og til að búa til eitt refaskinn 120 kg. Hér á landi er af þessum sökum um 95–96% af fóðri þessara dýra innlent hráefni en innflutt hráefni 4–5%, það eru vítamín, sýrur og kornfóður. Meltingarvegur minksins er frábrugðinn öðrum spendýrum, en garnir hans eru 30% styttri en í öðrum spendýrum og veldur því að hann nýtir fæðuna ver en önnur spendýr. Þar af leiðandi er skítur frá honum úrvals áburður og hentar mjög vel til uppgræðslu á bæði beitarlönd, til túnræktar o.fl. Loðdýr eru afar viðkvæm fyrir því hráefni sem notuð eru í fóður. Þau t.d. eru sérlega viðkvæm fyrir skemmdu hráefni, allt verður að vera fyrsta flokks og það tekst vel hér á landi. Það þýðir ekki að bjóða þeim vítamín, sem eru kemísk unnin. Þau verða að vera náttúrulega framleidd, annars er voðinn vís, dýrin veslast upp og gefa enga afurðir. Það er ekki hægt að fóðra þessi dýr á öðru en því, sem við getum lagt okkur til munns sjálf.
Íslenskir loðdýrabændur í öðru sæti í gæðum á heimsvísu
Við loðdýrabændur á Íslandi höfum verið í 2.–3. sæti yfir þau lönd sem framleiða bestu minkaskinnin. Má það þakka góðu hráefni í fóðri, einnig er ræktun og hirðing dýranna mikilvæg. Það hefur orðið til mjög mikil vísindaleg þekking á ræktun loðdýra í gegnum áratugina, þó sérstaklega síðustu 50–60 árin.
Hver var ástæða fyrir því að loðdýrarækt var hafin í upphafi og hvar byrjaði hún? Jú, það var skortur á skinnum og miklar vinsældir þeirra. Veiðimenn áttu orðið erfitt með að finna dýrin í náttúrunni þannig að bræður í miðríkjum Bandaríkjanna fengu þá hugmynd að byrja að rækta mink í lok borgarastríðs í Bandaríkjunum 1865. Þessi hugmynd breiddist víða um í Bandaríkjunum og Kanada þar sem menn lögðu áherslu á refarækt, sem síðar fluttist til Noregs 1914 með 3 silfurrefum, einum högna og tveimur læðum, og upp úr 1930 komu frá Bandaríkjunum fyrstu minkarnir til Noregs og frá Noregi komu fyrir seinna stríð bæði refur og minkur til Íslands. Loðdýrarækt hefur breiðst út um allan heim og notið mikilla vinsælda, sem bæði tískuvara eins og skjólfatnaður, þar til dýraverndunarsinnar fóru að líkja ræktun þessara dýra við seladráp og hvalveiðar og fengu gerviefna- og olíuiðnaðinn í lið með sér með styrkjum frá þeim til að koma loðdýraræktinni um koll með þeim áróðri að við, sem hana stundum, séum illmenni og komi illa fram við dýrin. Þeir sem hafa kynnt sér málin vita að þessi dýr, eins og öll önnur dýr sem maðurinn nýtir, verður að umgangast með virðingu, annars gefa þau ekki nothæfar afurðir. Þar fyrir utan eru þessi dýr og afurðir þeirra náttúruvæn og skaða ekki náttúruna, eins og bæði olíu- og efnaiðnaðurinn hafa gert og öllum ætti að vera kunnugt um nú.
Árið 1988 var undirritaður á stórri ráðstefnu í Kanada og Bandaríkjunum um loðdýraeldi ásamt Sigurjóni Bláfeld, Stefáni Aðalsteinssyni, báðir ráðunautar, og Eggert Gunnarssyni dýralækni og eiginkonum. Þessi ráðstefna var okkur öllum lærdómsrík. Á þessum sama tíma var hafin geysihörð barátta á móti loðdýrarækt og reyndum við Sigurjón að fá bændur og formenn frá ýmsum þjóðlöndum, sem voru á þessari ráðstefnu, til að samþykkja að framleiða sjónvarpsþátt um loðdýrabúskap og senda til áhrifamestu sjónvarpsstöðva sem mótvægi fyrir þessum villimannslega áróðri sem kominn var gegn okkur loðdýrabændum. Þeir báðu okkur í guðs bænum að reyna það ekki því gerviefna- og olíuiðnaðurinn myndu stórauka styrki til enn meiri áróðurs gegn okkur. Ég er ennþá ósammála því.
Ekta loðfeldir úr gerviefnum!
Á þessari ráðstefnu voru vísindamenn og bændur frá allflestum löndum heimsins, þar á meðal frá Ítalíu, sem er eitt af fremstu löndum í tískufataframleiðslu, meðal annars úr loðskinnum. Þeir sögðu okkur áhrifamikla sögu af pelsasala og hönnuði pelsfatnaðar. Náttúru- og dýraverndunarsinnar heimsóttu hann og báðu hann að hætta að nota loðskinn í sína framleiðslu. Hann tók þeim vel en bað þá að koma með sér niður í fjöru og hafa með sér ekta loðfeld og einnig pels úr gerviefni og leggja þá í fjöruborðið og koma svo til sín að ári liðnu og sjá hvor þeirra yrði eftir. Hann sagði þeim að þá yrðu tölurnar af loðfeldinum eftir í fjörunni en gerviefnapelsinn heill, aðeins þyrfti að hreinsa úr honum sandinn og klæða sig í hann. Þessir áheyrendur fóru þegjandi á braut enda sáu þeir fáránleikann í kröfu sinni. Loðfeldir ásamt öllum þeim afurðum úr ríki náttúrunnar ganga í samband við hana aftur að líftíma loknum en það gera gerviefnin ekki.
Örplast í regninu
Fyrir 4 árum las ég skýrslu frá frönskum vísindamönnum sem voru að rannsaka rigninguna í París og komust þeir að því að í rigningunni komu á ári hverju um 13 tonn af örplasti bara í París einni, hvað þá á öðrum stöðum í heiminum. Vísindamenn í Sviss gerðu rannsókn, eftir ábendingu bænda, sem skildu ekkert í því að ánamaðkar á stöðum þar sem þurfti að vökva með vökvakerfum voru dauðir alls staðar. Kom í ljós að þeir höfðu drepist vegna þess hve mikið var af örplasti í jarðveginum. Nú hafa þýskir vísindamenn bætt um betur, þeir hafa rannsakað þvagsýni og blóð úr börnum og unglingum í mörg ár og hafa fundið út að mikið af örplasti er í bæði þvagi og blóði þessara einstaklinga og þar að auki örplast sem vitað er að er krabbameinsvaldandi. Áður var búið að finna út að í þvagi er gríðarmikið magn af skordýraeitri, arfaeyði og kemískt unnum túnáburði. Þýðir þetta að við við séum á réttri leið gagnvart náttúrunni? Ég segi nei, en þú?
Mikil umræða er um að breskur maður, sem hefur orðið moldríkur á olíu- og efnaiðnaði, sé búinn að kaupa upp á Austurlandi um 1% af Íslandi til að bjarga laxastofninum í austfirskum ám. En getur hann bjargað laxinum frá örplastinu sem drepur fiskseiði?
Samkvæmt rannsóknum vísindamanna í Noregi, sem hafa fundið út að seiðin sem halda að það sem er í þeirra umhverfi sé náttúruleg fæða en er ekki, geta ekki melt örplastið og drepast. Er hann á réttri leið? Ég segi nei.
Lokað á loðdýraeldi
Að lokum þetta, náttúru-, dýraverndunar- og umhverfissinnar eru að berjast fyrir því að loðdýraeldi verði aflagt í Evrópu og eru búnir að fá því framgengt að lokað verði í Hollandi og Noregi 2025 og eru löngu búnir að loka fyrir loðdýraeldi í Bretlandi og í tískuiðnaðinn í Evrópu verði eingöngu notuð gerviefni til að vernda náttúruna. Ert þetta trúlegt? Ég segi nei.
Öll þessi gerviefni og örplastið, kemískur áburður, skordýraeitur og arfaeyðir lenda að lokum í hafinu, sem er 75% af þessari jörð. Allir vita að ef við skemmum hafið þá er voðinn vís fyrir allt lífríkið, t.d. hvalir, sem eru ofarlega í lífskeðjunni, eru að verða óætir vegna ýmiss konar eiturefna sem við skolum í hafið. Er þetta náttúruvænt? Ég segi nei, en þú?
Hér á Íslandi virðist vera stefna að loka prjónastofum sem framleiða ullarvörur úr náttúrulegri ull þrátt fyrir vinsældir vörunnar. Eins var það með mokkafatnaðinn, sem voru vinsælar hlífðarflíkur og endingargóðar. Er þetta skynsamlegt frá náttúruverndarsjónarmiði? Ég segi nei, en þú?
Samkvæmt ofansögðu er ég persónulega með meiri áhyggjur af meðferð okkar á hafinu en af loftslagsmálunum því þar getum við breytt miklu á ekki svo löngum tíma, t.d. með því að nota vetni til að komast leiðar okkar. Hreinsun hafsins tekur hins vegar aldir því örplastið og efnaiðnaðurinn er svo skelfilegur skaðvaldur. Verðum við ekki að fara að haga okkur eins og forfeður okkar og dýrin, sem ekki skemmdu jörðina?
Eins og áður hefur komið fram í þessari grein þá étur minkurinn um 50kg af fóðri á framleiðsluárinu, læðan er um 2 kg, en högninn um 3 til 4 kg. Þannig að kolefnisjöfnunin er augljós minknum í vil, og restin fer í moltu og metanvinnslu.
Ásgeir Pétursson,
fyrrverandi skiptsjóri og núverandi loðdýrabóndi