Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Sjálfbær sauðfjárrækt til framtíðar
Lesendarýni 8. febrúar 2016

Sjálfbær sauðfjárrækt til framtíðar

Höfundur: Þórarinn Ingi Pétursson formaður Landssamtaka sauðfjárbænda
Þjóðarrétturinn lambakjöt nýtur stöðugra vinsælda hér á landi í öllum sínum fjölbreytileika og það eru fáir Íslendingar sem ekki brögðuðu á ilmandi hangikjöti um hátíðarnar.
 
Íslensk sauðfjárrækt stendur á þröskuldi mikilla tækifæra í heimi þar sem sérstaða og hreinleiki vega sífellt þyngra á vogarskálum neytenda. Fleiri eru tilbúnir að borga meira fyrir náttúrulegar og sjálfbærar hágæða landbúnaðarvörur sem framleiddar eru á fjölskyldubúum þar sem siðlegir búskaparhættir eru hafðir að leiðarljósi. 
 
Þórarinn Ingi Pétursson.
Þess vegna standa sauðfjárbændur keikir. Vilji er til að efla sauðfjárrækt á komandi árum með því að draga fram styrkleika hennar og sérstöðu á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt. Þessa dagana standa yfir viðræður ríkisins og bænda um nýjan sauðfjársamning. Af hálfu bænda hefur verið unnin mikil og vönduð greiningar- og stefnumótunarvinna sem endurspeglast í þeim grænu samningsmarkmiðum sem við komum með að borðinu. 
 
 
Vörslumenn landsins
 
Bændur eru vörslumenn landsins og gera sér skýra grein fyrir því að sjálfbær landnýting felur í sér að hver kynslóð skili landi af sér í jafn góðu eða betra ástandi en hún tók við því. Kortlagning á kolefnisfótspori íslenskrar sauðfjárræktar er líka innan seilingar og bændur vilja ráðast í nýræktun á beitarskógum. Allt þetta höfum við lagt á samningaborðið og fengið jákvæð viðbrögð.
 
Nýverið kynntum við nýtt gæða- og upprunamerki fyrir íslenskar sauðfjárafurðir sem ætlað er erlendum ferðamönnum. Það var unnið og hannað í samvinnu við fremstu fagmenn, bæði íslenska og útlenda. Á sumrin reikar féð frjálst á skilgreindum afréttum og til þess er vísað í slagorðinu Roaming Free. Í merkinu er lögð sérstök áhersla á að íslenskt sauðfé hefur lifað með þjóðinni allt frá landnámi og er einstakt. Hið sama á við um þær náttúrulegu búskaparaðferðir sem hér tíðkast. Þetta viljum við draga fram þegar við kynnum íslenskar sauðfjárafurðir fyrir ferðamönnum.
 
Á tímabilum var fé á Íslandi of margt, stýringu beitar ábótavant og meðferð á landi ekki nógu góð. Jafnvel slæm. Nú eru hins vegar breyttir tímar, féð miklu færra og allra leiða leitað til að tryggja sjálfbærni. Nú þegar eru 93% allrar dilkakjötsframleiðslu í landinu undir hatti gæðastýringar, þar sem bændur gangast sjálfviljugir undir kvaðir varðandi dýravelferð, sjálfbæra landnýtingu og fleiri þætti. Þetta er tilraunaverkefni sem unnið hefur verið að í rúman áratug í samvinnu við ráðuneytið og Landgræðsluna. Nú viljum við að þetta verði hið algilda viðmið.
 
Grænar áherslur í samningum
 
Nauðsynlegt er að kortleggja og meta auðlindir lands og sjávar; fiskinn í sjónum, orkuna í iðrum jarðar og gróður landsins. Þess vegna hafa bændur lagt til við samningaborðið að gerð verði ítarleg heildarúttekt á gróðurauðlindinni á  Íslandi í samvinnu við helstu fagaðila. Um leið verði komið á sívirku rannsóknar-, mats- og vöktunarkerfi á landi og áhrifum beitar svo tryggja megi í sessi sjálfbæra landnýtingu um langa framtíð. 
 
Sauðfjárbændur eru stoltir af því að geta boðið einstaka vöru af hæsta gæðaflokki sem framleidd er í sátt við samfélag og náttúru. Við bændur, eins og aðrir Íslendingar, erum stoltir af lambakjötinu. Fáir geta státað af jafn umhverfisvænum og náttúrulegum framleiðsluaðferðum. Fyrir okkur eru hugtök eins og dýravelferð, siðlegir búskaparhættir og sjálfbærni meira en orðin tóm. Við vitum líka að markaður fyrir vöru eins og okkar fer sífellt stækkandi. Við samningaborðið höldum við þessum sjónarmiðum á lofti af krafti og heilindum til að tryggja sjálfbæra sauðfjárrækt til framtíðar.
 
Þórarinn Ingi Pétursson
formaður Landssamtaka
sauðfjárbænda
Flekkur kom úr langferð á jólaföstu
Lesendarýni 27. desember 2024

Flekkur kom úr langferð á jólaföstu

Hér á bæ fæddist svartflekkóttur lambhrútur 14. maí 2021, fremur smár tvílembing...

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....