Til að kóróna vandann
Það er ekki á hverjum degi sem það skýtur upp kollinum heimsfaraldur sem ekkert virðist ráða við og helstu sérfræðingar veraldar standa úrræðalausir gagnvart. Í slíkum tilfellum verðum við flest afskaplega meðvituð um hvað við erum lítilsmegn gagnvart náttúrunni og því sem hún ákveður að taka upp á. Það er í raun undarlegt að það þurfi stóra atburði sem þessa til að koma okkur í skilning um að maður og náttúra þurfa að lifa í sátt og samlyndi ogþað þýðir ekkert að láta eins og við séum einhver herra sem ríkir yfir móður jörð.
Þetta er þó eitthvað sem bændur skilja og hafa alltaf gert því þeirra lífsviðurværi byggist einmitt á því að virða þetta jafnvægi sem við borgarbúar höfum smám saman glatað skilningnum á. Bændur skilja hversu mikilvægt það er að virða sauðfjárlínur og að innflutningur á hráu og ófrystu kjöti geti haft hræðilegar afleiðingar fyrir búfjárstofna landsins. Það þarf ekki að útskýra það fyrir þeim að heimsfaraldur eins og þessi nýja kórónuveira sé ekki fyrirsjáanlegur eða útreiknanlegur og því þurfi að fara að öllu með gát. Þeir hafa alltaf þurft að lifa með þessum hugsunarhætti og standa okkur á mölinni því feti framar.
Það eru erfiðir tímar fram undan og við erum flest farin að átta okkur á því að fjöldi fólks á eftir að smitast af þessum nýja vágesti og einhverjir eiga eftir að verða alvarlega veikir. Til að byrja með reyndu landsmenn að gera lítið úr þessu. Gert var grín í Söngvakeppni sjónvarpsins til að létta andrúmsloftið líkt og grínið myndi á einhvern undraverðan hátt draga úr hættunni sem fyrir dyrum stóð. Það er því miður ekki svo einfalt og í raun barnaskapur og jafnframt virðingarleysi að láta slíkt eftir sér. Við þurfum nefnilega að passa okkur að gleyma aldrei að bera virðingu fyrir náttúrunni því það er hún sem að endingu ræður hvernig fer fyrir okkur.
Ég vona að veiran eigi eftir að auka skilning okkar á því hversu varhugavert það er að taka áhættu þegar kemur að sýklavörnum og það gildir ekki síður um búfjárstofna okkar en fólkið. Ég hef þá trú að ef fólk lítur upp úr buddunni í örskamma stund sjái það fljótt að það eykur ekki styrk okkar að flytja inn hráar og ófrystar kjötvörur hvers við þekkjum ekki upprunann. Það má vera að nokkrar krónur sparist með slíkum gjörningi en hver verður kostnaðurinn ef illa fer og landsframleiðslan okkar af dýraafurðum er lögð að veði? Þetta er ekkert grín og það á ekki að leika sér að eldinum. Við sjáum það einna best núna þegar ráðamenn eru gagnrýndir harðlega fyrir kæruleysisleg viðbrögð við veirunni. Við megum ekki kóróna kórónuveiruna með því að eyðileggja búfjárstofnana í kjölfar faraldursins, sú áhætta verður aldrei þess virði.
Guðmundur Franklín Jónsson
viðskipta- og hagfræðingur