Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Birkir Friðbertsson.
Birkir Friðbertsson.
Mynd / HKr.
Lesendarýni 4. febrúar 2016

Um drög að búvörusamningi

Höfundur: Birkir Friðbertsson
Trúarhreyfingar um heim allan boða eingyðistrú, þú skalt ekki aðra guði hafa. Forsætisráðherra boðaði einnig eingyðistrú í sínu áramótaávarpi á sinn veraldlega máta. Kæru landsmenn, sýnið samstöðu með mér og ég mun boða yður mikinn fögnuð. Þið skulið ekki aðra guði hafa. Ágreiningur er óþarfur og af hinu illa, hvort sem um er að ræða afturkræfar, eða óafturkræfar ákvarðanir mínar. Mitt er valdið, mátturinn og dýrðin, samstaðan er okkur allt. Samstaðan um mig.
 
Ég vona að þjóðin láti ekki blekkjast af slíkum málflutningi. Lýðræði byggist einmitt á líflegri umræðu og margháttuðum ágreiningi þar sem hagsmunaaðila greinir á um flest þjóðmál. Allar skoðanir eru þar jafn réttmætar meðan gild rök fylgja. Gott lýðræði verður aldrei að veruleika nema sem flestir þegnar afli sér sem bestrar þekkingar á þjóðmálum, komi skoðunum á framfæri og kjósi til valda samkvæmt því.
 
Það sama á við um væntanlegan búvörusamning og vonandi ætlast samningaforustan ekki til þess að hinn almenni bóndi verði skoðanalaus um ágæti þeirra samningsdraga eða hugmynda sem liggja fyrir í mótun. Eingyðistrú í veraldlegum efnum ríður þar vonandi ekki húsum.
 
Öllum atvinnugreinum er nauðsynlegt að ákveðin festa fylgi í stefnumótun og að rekstrarumhverfið kollvarpist ekki á nokkurra ára fresti. Ákvarðanir um afgerandi breytingar þarf að taka til langs tíma. Allar rekstraráætlanir eru vonlausar ef að stefnubreytingar eru verulegar og snöggar, ekki síst í landbúnaði. Hér verður aðeins rætt um mjólkurhlutann.
 
Greinilegt er að í nefndum hugmyndum kemur fram dapurlegt hagsmunastríð milli þeirra sem hafa keypt sér greiðslumark til viðbótar hinu áunna og hinna sem hafa lítið eða minna lagt út fyrir kvótakaupum og með lítið áunnið greiðslumark.
 
Með nýrri öld, einkum til 2008, varð mikil sókn í byggingum lausgöngufjósa með tilheyrandi tæknibúnaði, mjaltaþjónum og mjaltagryfj­um. Rekstraráætlanir voru gerðar af lærðum og leikum og lánastofnanir lánuðu til langs tíma og hvöttu til kvótakaupa þrátt fyrir hátt verð. Þessir lánapakkar stækkuðu einkum 2008–10 vegna óðaverðbólgu. Verðlagsbreyting frá janúar 2008 til desember 2010 var um 27% og verðbólguþróun fram á mitt ár 2014 var langt fyrir ofan afurðaverðshækkanir til framleiðenda. Á sama tíma fóru vextir yfir 13%!!! 
 
Slíku hafði enginn spáð og jafnvel þeir sem töldu sig hafa borð fyrir báru sukku margir í illviðráðanlegt skuldafen. Þeir sem réðu ekki við lánin fengu margir að vísu niðurfellingu skulda á forsendum viðkomandi banka. Þeir hins vegar sem náðu að standa í skilum þrátt fyrir allt hafa borið sitt á eigin herðum. Ef að slíkt rekstrartjón hefði orðið af völdum náttúruhamfara hefði tapið verið greitt úr almannasjóðum og áfallahjálp veitt. Miðað við hugmyndavinnu bændaforustunnar er hins vegar fyrirhugað að láta hér „kné fylgja kviði“. Gagnvart skatti hefur verið heimilt að afskrá greiðslumarkskostnað á fimm árum en fáir hafa vænst til þess að lán hans vegna yrðu greidd sem skammtímalán enda raunin önnur. Hátt verð á greiðslumarki er vissulega ekki af hinu góða og hefur verið  dýr kostur fyrir atvinnugreinina. Hugsanlegt væri að setja hófstillt hámarksverð, sá er seldi réði þá kaupanda og aðilar skrifuðu undir samninga með samþykki þriðja aðila. Til þessa hafa bændur getað selt greiðslumarkið við búskaparlok og hætt með nokkurri reisn. Er skynsamlegt að koma nú aftan að mönnum og verðfella algjörlega fyrir þeim þá eign sem aðrir hafa getað selt og stundum fyrir verulegt fé. Eitt er víst, að leggja niður stjórn á mjólkurframleiðslunni verður þjóðinni dýr afleikur og bændum þó dýrastur.
 
Með niðurfellingu greiðslumarks á fimm árum er í fyrsta lagi engin sanngirni sýnd en bolabrögðum beitt ef fram nær að ganga, milljónir króna yrðu færðar á milli einstakra framleiðenda á ári hverju, án þess að fyrir slíku liggi augljós né eðlileg rök. Í öðru lagi verður mjólkurframleiðslan stjórnlaus. Fjölgun mjólkurkúa mun aukast en ekki hratt. Hins vegar er ljóst að okkar íslensku kýr eru hjá meirihluta bænda illa nýttar til afurða og reikna má með því að þar verði breyting á með aukinni kraftfóðrun. Það getur ekki staðist til lengdar að helmings afurðamunur (meðaltalsframleiða eftir hverja kú) milli einstakra framleiðenda sé raunveruleiki framtíðar. Með auknum útflutningi sem á í stríði við yfirfulla markaði minnkar geta afurðastöðva til að greiða nauðsynlegt verð til bænda. Stuðningur ríkisins mun deilast jafnt á útflutning sem innlenda neyslu í óþökk neytenda. Það er því ótrúleg skammsýni að fella niður framleiðslustjórnun og hætta við að láta framleiðslu og innanlandsneyslu fylgjast sem mest að. „Svona gerir maður ekki“ var einu sinni sagt og á nú við frekar en oft áður.
 
Í hugmyndum forustunnar kemur fram að nauðsyn þess að afnema verðgildi greiðslumarksins sé ekki síst til að liðka fyrir endurnýjun í greininni. Til upprifjunar er þó rétt að minnast þess að þegar greiðslumarkið var tekið upp þá lækkaði á móti verð jarðanna sjálfra og húsakosts þeim fylgjandi. Kaupandi og seljandi urðu báðir að líta á fjárfestinguna sem eina rekstrarhæfa heild. Ef að ekki þarf lengur að greiða fyrir greiðslumarkið mun verð jarða og húsakosts hækka á ný af sömu ástæðum og ávinningur nýliðans verða lítill sem enginn.
 
Eitt annað í þessum drögum  má telja neikvætt og hlýtur að vekja furðu. Það er að færa stóran hluta af ríkisstuðningi yfir á gripagreiðslur (allt að 35%). Ræktun kúnna hefur miðast að verulegu leyti við að auka afkastagetu þeirra í þeirri trú að með því væri hægt að lækka framleiðslukostnað og þar með verð til neytenda. Auknar gripagreiðslur munu draga úr vilja manna til að auka afurðir á hvern grip þar sem þeir fá bónus fyrir að vannýta afurðagetuna. Hvaða skynsemi er talin búa hér að baki, hver eru rökin? Meðan þau koma ekki þá vil ég endurtaka „svona gerir maður ekki“.
 
10. janúar 2016,
Birkir Friðbertsson.
Flekkur kom úr langferð á jólaföstu
Lesendarýni 27. desember 2024

Flekkur kom úr langferð á jólaföstu

Hér á bæ fæddist svartflekkóttur lambhrútur 14. maí 2021, fremur smár tvílembing...

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....