Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Margrét Guðnadóttir, veirufræðingur
Margrét Guðnadóttir, veirufræðingur
Lesendarýni 16. júní 2015

Viðvörun til kúabænda

Höfundur: Margrét Guðnadóttir

Fyrir skömmu síðan komst ég að því að nýlega var lagt fram á Alþingi frumvarp um innflutning á norsku holdanautasæði ætluðu til ræktunar á holdanautum á íslenskum bændabýlum án nokkurra sérstakra varúðarráðstafana.

Gömlum veirufræðingi, sem varði drjúgum hluta af 40 ára starfsævi sinni í rannsóknir á innfluttum, banvænum smitsjúkdómum í íslensku sauðfé, varð ekki rótt við þessar fréttir og biður Bændablaðið að birta nokkur viðvörunarorð til kúabænda:

1. Það getur ekki verið að kúariðusýkillinn sem barst frá Bretlandi um alla Norður-Evrópu sé dauður. Riðusýklar eru lífseigustu sýklar sem við þekkjum. Venjulegar aðferðir við dauðhreinsun á öðrum sýklum duga alls ekki til að drepa riðusýkla. Suðuhita við háþrýsting þarf að lengja úr rúmum klukkutíma í 4½ tíma til að reyna að hreinsa riðusýkla af áhöldum við krufningu, og efnameðferð, sem dugar til að drepa marga aðra sýkla er gagnslaus.

Hér á landi höfum við barist í heila öld við riðu í sauðfé. Þó að sýktum hjörðum hafi árum saman verið slátrað fljótlega eftir að fyrstu sjúkdómseinkenni sáust er sýkillinn hér enn.
Riða, sem sýkir sauðfé hefur ekki svo vitað sé borist í menn. Engin merki hafa fundist um aukna tíðni taugasjúkdóma í fólki sem hér býr á riðusvæðum. Kúariða er öðruvísi.

Kúariðusýkillinn smitar fólk, og af því smiti fá menn banvænan heilasjúkdóm, rétt eins og kýrnar. Þegar kúariðusýkillinn var virkastur í mörgum Evrópulöndum, rétt fyrir síðustu aldamót olli hann banvænum heilasjúkdómi í mönnum, rétt eins og í kúnum. Sjúklingarnir voru oftast börn eða ungt fólk, innan við þrítugt. Ástæðan fyrir smiti var oftast talinn illa eldaður skyndibiti eða skólamáltíð úr kjöti af sýktum einkennalausum nautgrip. Steikur úr kjöti af holdanautum þykir sumum fínast að steikja lítið. Af slíku kjöti úr einkennalausum sýktum nautgripum geta menn auðveldlega sýkst.

Ég tel víst að kúabændur kæri sig ekki um að hafa slík dýr mjög nærri heimilum sínum eða í heimahögum.

2. Erlendar rannsóknir á riðu
í kindum sýndu fyrir löngu síðan, að þar sem sýktar kindur báru á graslendi varð til miklu meiri smithætta en á öðru beitilandi, og var þarna kennt um hildunum og líkamsvessum frá fæðingu lambanna. Líklega gilda sömu lögmál um sýktar kýr hvort sem þær bera í fjósi eða úti í hag. Því tel ég rétt að íslenskir kúabændur séu upplýstir um þetta eðli riðusmits í sauðfé. 

Íslenski kúastofninn hefur ekki borið í sér neina banvæna smitsjúkdóma enn þá. Hann hefur hingað til verið laus við hvítblæði, sem víða finnst í erlendum kúm, t.d. í Noregi. Hvítblæði í kúm er veirusýking, sem við ættum að reyna að halda frá landinu.

Hvernig lýst ykkur, kúabændur, á að leggja heldur áherslu á að fóðra vel og vandleg fallega kálfa af íslensku, ósýktu kúakyni, og sjá hvort þið fáið ekki út úr þeirri tilraun ágætt holdanautskjöt, sem óhætt er að rækta heima hjá ykkur?Að mínu viti er vandinn ekki endilega í genunum, heldur kannski eins oft í uppeldinu.

Flekkur kom úr langferð á jólaföstu
Lesendarýni 27. desember 2024

Flekkur kom úr langferð á jólaföstu

Hér á bæ fæddist svartflekkóttur lambhrútur 14. maí 2021, fremur smár tvílembing...

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....